Morgunblaðið - 13.12.2010, Qupperneq 12
Viðskipti | Atvinnulíf
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. DESEMBER 2010
Bjarni Ólafsson
bjarni@mbl.is
Umtalsverður fjöldi lána, sem Glitnir
veitti íslenskum fyrirtækjum, eða er-
lendum fyrirtækjum tengdum Ís-
lendingum, var veittur án þess að veð
væri fyrir honum. Þá var krafa um
veðhlutfall lækkuð í öðrum tilfellum.
Í skýrslu, sem unnin var fyrir sér-
stakan saksóknara af franska ráð-
gjafarfyrirtækinu Cofisys, eru nefnd
sem dæmi 41,4 milljóna evra lán til
Samskipa árið 2006 og fjögur lán sem
veitt voru árið 2007. Þau voru 21
milljónar punda lán til Björgólfs Guð-
mundssonar, 50 milljóna evra lána-
lína til Existu, 10 milljóna dala lán til
Leitars ehf. sem keypti lungann af
hlutafé Atlantis Group og 34,6 millj-
óna evra lán til Financiére de Kiel
SAS, sem er tengt Icelandic Group.
Er lögð á það áhersla í skýrslunni
að veð séu sérstaklega mikilvæg þeg-
ar einstaklingar eða eignarhalds-
félög, eins og Exista, Financiére de
Kiel eða Leitar, fá lán.
Ákvæðum um veð breytt eftir á
Þá eru nefnd dæmi þar sem upp-
haflegum lánasamningum var breytt
á þá lund að veð, sem áður var fyrir
láninu, er það ekki lengur eða að veð
er lækkað. Eins og gefur að skilja
auka slíkar breytingar áhættu bank-
ans.
Exista fékk árið 2005 lán upp á tvo
milljarða króna. Upphaflega hafði
Glitnir veð í hlutabréfum í Bakkavör
Group og Kaupþingi, en í ágúst 2007
var sú grein lánasamningsins strokuð
út og í staðinn sett skilyrði um eig-
infjárhlutfall.
Geysir Green Energy fékk 12,5
milljarða króna lánalínu í júlí 2008,
sem var stækkuð í 17,9 milljarða
mánuði síðar. Ákvæði um veð í olíu-
fyrirtæki var strokað út úr samn-
ingnum í september 2008.
Gnúpur fjárfestingarfélag fékk 18
milljarða króna lán í apríl 2007, en
lágmarksvirði veðsins var lækkað
með breytingu á lánasamningnum í
nóvember sama ár.
Sérstaka athygli vekur að í skýrsl-
unni segir að í þeim tilvikum, sem
skoðuð voru af skýrsluhöfundum, sé
hvergi að finna dæmi þess að Glitnir
hafi gert veðkall hjá skuldara þegar
virði veðs var komið undir ákveðin
mörk.
Annað sem gagnrýnt er í skýrsl-
unni er sú framkvæmd Glitnis að
lengja í lánum, sem óvissa var með
um endurgreiðslu. Segir í skýrslunni
að þetta kunni að skýra það hvernig
Glitnir gat fært í bækur sínar jafn-
mikinn vaxtamun og raun bar vitni.
Þetta kemur fram í skýrslu sem ráð-
gjafarfyrirtækið Cofisys vann fyrir
sérstakan saksóknara.
Í skýrslunni segir að með því að
lengja í lánum hafi banki og lántak-
andi með brögðum komið í veg fyrir
að greiðslufall yrði á lánunum. Við
greiðslufall hefði bankinn þurft að af-
skrifa lánið að hluta og lántakinn
hefði lent í alvarlegum vanda sjálfur.
Björgólfur Guðmundsson fékk 21
milljónar punda lán hjá Glitni í maí
2007 og átti að greiða það til baka í
júlí sama ár. Ítrekað var lengt í lán-
inu þar til gjalddagi var kominn á
ágúst 2008. Björgólfur varð gjald-
þrota árið 2009 og lánið hefur ekki
verið greitt.
Venjuleg vinnubrögð hjá Glitni við
slíka lengingu lána voru að hækka
vexti á láninu og/eða að bókfæra
gjöld vegna samningagerðar. Þetta
leiðir til þess að bókfærðar vaxta- og
þjónustutekjur aukast en eru svo af-
skrifaðar af því að lántaki getur ekki
greitt. Þetta geti að hluta skýrt mik-
inn vaxtamun hjá Glitni.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Útlán Margt er talið aðfinnsluvert varðandi útlánaframkvæmd hjá Glitni fyrir hrun. Lán hafi verið án veða, skil-
málum hafi ítrekað verið breytt eftir á og lengt hafi verið í lánum þegar útlit var fyrir greiðsluþrot.
Of mörg lán án þess
að veð væri fyrir
Framkvæmd útlánastefnu Glitnis er harðlega gagnrýnd
Glitnir banki framfylgdi ekki
ákvæðum lánasamnings, sem gerð-
ur var við Baug Group, en lánið var
tryggt með veði í hlutabréfum
Baugs í Mosaic Fashions, að því er
segir í skýrslunni. Segir þar jafn-
framt að svo virðist sem Glitnir hafi
tekið þátt í því að halda uppi virði
hlutabréfa Mosaic til að blása upp
virði veðsins og koma í veg fyrir
veðkall.
Í október 2005 lánaði Glitnir
Baugi um 53,9 milljónir evra gegn
veði í áðurnefndum hlutabréfum. Í
lánasamningi segir að fari virði
veðsins undir 140 prósent af virði
lánsins fái Baugur tvær vikur til að
auka virði veðsins eða greiða af lán-
inu. Ef virði veðsins færi undir 125
prósent hefði Baugur þrjá daga til
að koma virðinu aftur upp í 140
prósent. Lánsfjárhæðin hækkaði á
sama tíma og hlutabréfaverð Mosa-
ic lækkaði og strax árið 2006 var
virði veðsins komið í 5,8 milljarða
en lánið stóð í 5,3 milljörðum. Hlut-
fallið, sem átti samkvæmt samn-
ingnum alls ekki að fara undir 120
prósent, var því um mitt ár 2006
komið í 109 prósent. Ekkert veðkall
var gert, en bankinn tók hins vegar
þátt í yfirtökunni á Mosaic þegar
fyrirtækið var afskráð og keypti
þrjú prósent af hlutabréfum Mosaic
á genginu 17,5. Segir í skýrslunni að
svo virðist sem Glitnir hafi lagt sig
fram um að koma í veg fyrir virð-
islækkun á Mosaic og með brögð-
um hjálpað Baugi að viðhalda virði
veðsins.
Engin veðköll þrátt fyrir tilefni
LÁN GLITNIS TIL BAUGS GROUP
Lánveitingar til Guðbjarts ehf. og Jakobs Valgeirs
ehf., tveggja útgerðarfélaga í eigu Jakobs Valgeirs
Flosasonar, eru til umfjöllunar í skýrslu, sem unnin
var fyrir sérstakan saksóknara um starfsemi Glitnis
fyrir hrun.
Frá júlí 2004 til maí 2007 fær Guðbjartur ehf. sam-
tals 989 milljónir króna að láni, meðal annars til
kaupa á skipum og aflaheimildum, en einnig til að
fjármagna yfirdráttarlán. Lánin hafa flest einkenni
kúlulána, að því leyti að stærstur hluti lánsins greiðist
ekki fyrr en á gjalddaga.
Í skýrslunni segir að í ljósi skuldastöðu fyrirtækis-
ins árið 2007, einkum þess að tvö yfirdráttarlán voru
enn ógreidd, hafi það verið mjög áhættusamt að veita
fyrirtækinu þrjú lán á því ári. Samanlögð upphæð lán-
anna þriggja var 657 milljónir króna. Þá segir í
skýrslunni að í ljósi áhættunnar hafi vextir á lánunum
árið 2007 verið töluvert lágir. Voru vextirnir á bilinu
1,5-1,9 prósent ofan á grunnvexti.
Hvað varðar Jakob Valgeir ehf. segir í skýrslunni
að Glitnir hafi lánað fyrirtækinu 30 milljónir króna til
vörukaupa. Lánið var veitt árið 2003 og átti að greið-
ast ári síðar. Í viðauka við lánasamninginn, sem gerð-
ur er árið 2006, tveimur árum eftir að greiða átti lán-
ið, er það framlengt til desember 2007. Engar
upplýsingar eru um greiðslu lánsins í bókum Glitnis.
Lágir vextir en mikil áhætta
Munið að
slökkva á
kertunum
Slökkvilið
höfuborgasvæðisins
Hafið hæfilegt bil á
milli kerta, almenn
viðmiðun er að
hafa a.m.k. 10 cm
bil á milli kerta