Morgunblaðið - 13.01.2011, Side 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. JANÚAR 2011
Franski raf-
poppdúettinn Daft
Punk var fenginn
til að semja tónlist-
ina við kvikmynd-
ina Tron: Legacy
og hér er sú tónlist
á disk komin. Kvikmyndin er til-
þrifamikið sjónarspil, mikil átök og
dramatík mestan part myndar og
tónlistin ber keim af því, vekur réttu
stemninguna. Sá sem hér rýnir sá
kvikmyndina á dögunum og fannst
mikið til samspils tóna og mynda
koma, tónlist Daft Punk fellur eins
og flís við rass að tölvuteiknuðum
Tron-heiminum og hefur mikið að
segja um upplifun áhorfandans. Það
er svo önnur saga hvort kvikmynda-
tónlist hrífur mann þegar engar eru
myndirnar og Tron-tónlist Daft
Punk verður heldur tilbreytingarlítil
þegar líða fer á plötuna, maður fær
þörf fyrir að hraðspóla. Dramatíkin
ræður hér ríkjum, sinfóníuhljóm-
sveit keyrð áfram í bland við rafpopp
en inn á milli má þó finna stuðvænni
lög. Þetta er ágæt plata en þó heldur
mikið um endurtekningar á henni.
Daft Punk - Tron: Legacy
bbbnn
Dramatík í
tölvuheimi
Helgi Snær Sigurðsson
Wire er sú síð-
pönksveit sem átti
tilkomumesta
sprettinn þegar sú
stefna var að fæð-
ast, alltént í huga
þess er hér skrifar.
Fyrstu þrjár plötur sveitarinnar eru
algerlega magnaðar og eru ástæða
þess að maður er enn að eltast við
sveitina. Þessi plata, ein af fyrstu út-
gáfum þessa árs, er þriðja plata síð-
ari endurreisnar sveitarinnar sem
hófst með Send árið 2003. Sú plata
er þokkaleg, og ögn meira, en síð-
asta plata, Object 47, olli miklum
vonbrigðum. Skrítið að heyra þessa
tilraunaglöðu meistara sigla um í
einhverri meðalmennsku. Þessi
plata dettur þarna einhvers staðar á
milli, það er eins og djúsinn flæði að-
eins hraðar í þetta skiptið en um leið
er þetta að sjálfsögðu lítt sambæri-
legt við fyrri afrek. Þetta er auðvitað
ómissandi plata fyrir okkur Wire-
nördana en ég bendi þeim sem hafa
áhuga á að kynna sér síðpönk eins
og það gerist best eindregið á fyrstu
þrjár plöturnar. Það gerist bara ekki
betra en þar.
Miðaldra
síðpönk
Wire - Red Barked Tree
bbbnn
Arnar Eggert Thoroddsen
Á viðsjárverðum
tímum er gott að
vakna á morgnana
og sjá að Esjan er
ennþá á sínum
stað. Það er líka
gott að vakna á
morgnana og sjá að Motörhead er
ennþá á sínum stað. Í tilefni af 35 ára
starfsafmæli sínu sendi þetta göfuga
breska rokktríó fyrir skemmstu frá
sér sína tuttugustu breiðskífu, The
Wörld is Yours.
Skemmst er frá því að segja að
platan kemur ekki nokkrum manni á
óvart. Lemmy Kilmister og félagar
pönkrokkast gegnum hana á brjóst-
vitinu og baráttuþrekinu. The Wörld
is Yours er rökrétt framhald af fyrri
verkum Motörhead, melódískt
keyrslurokk með pönkívafi. Hvers
vegna í ósköpum að róa á önnur mið
þegar menn hafa sett í feita torfu?
Eins og Lemmys er von og vísa
eru lögin haganlega smíðuð, lítið um
krúsídúllur og slaufur. Svei mér ef
þau virka hreinlega ekki ennþá bet-
ur en í langan tíma. Nægir þar að
nefna „Waiting For the Snake“,
„Born to Lose“ og „Devils In My
Hand“.
Hæst rís skífan þó í hinu mergj-
aða „Brotherhood of Man“. Þar er
rokkað af dýpt og drunga. Riffið
smýgur á augabragði inn í sálina.
Margir segja að Motörhead hafi
verið upptakturinn að bresku ný-
bylgjunni í þungarokki og vestur í
Ameríku bera þrassarnir, með
James Hetfield í broddi fylkingar,
Lemmy á höndum sér. Sjálfur hefur
kappinn aldrei viljað gangast við
hreyfiaflshlutverki sínu enda hatar
hann dilka eins og væri hann dýrbít-
ur. „Við erum Motörhead, við spilum
rokk og ról!“ Málmvísindamönnum
er eflaust fróun í slíkum skilgrein-
ingum en þegar upp er staðið skipta
þær ekki nokkru máli. Það er bara
eitt sem við þurfum að vita: Virkar
músíkin eða virkar hún ekki?
Þegar The Wörld is Yours er veg-
in og metin á þeim forsendum er
svarið einfalt: Já, svo sannarlega!
Motörhead er með þetta.
Rokk og ról, þú sem ert á himnum!
Motörhead – The Wörld is
Yours bbbbn
Orri Páll Ormarsson
Sprækur Lemmy Kilmister rokkar enn af lífi og sál, orðinn hálf sjötugur.
Erlendar plötur
Breska spútnik-
sveitin Arctic
Monkeys er
byrjuð að vinna
sína fjórðu plötu
ásamt upp-
tökustjóranum
James Ford.
Vonir standa til
að platan komi
út síðar á þessu
ári. Upptökur hófust seint í desem-
ber og verður vinnunni framhaldið
í Los Angeles. Platan nýja kemur í
kjölfar Humbug (2009) en þar
stýrðu Josh Homme og Ford saman
upptökum. Sú plata féll í fremur
grýttan jarðveg, samanborið við
tvær fyrstu plötur sveitarinnar,
Whatever People Say I Am, That’s
What I’m Not (2006) og Favourite
Worst Nightmare (2007). Ford er
meðlimur í Simian Mobile Disco og
hefur tekið upp plötur Arctic Mon-
keys, The Last Shadow Puppets,
Klaxons og Florence And The
Machine.
Ný Arctic
Monkeys
Api Alex Turner
Ný James
Bond-mynd, sú
23., kemur í
kvikmyndahús
9. nóvember
2012 sam-
kvæmt MGM/
EON Produc-
tions. Það er
enginn annar
en Sam Mendes
sem mun leik-
stýra og Daniel Craig fer með
hlutverk njósnara hennar hátign-
ar sem fyrr. Bond-vörumerkið
hefur verið í miklum fjárhags-
kröggum og var MGM keyrt í
þrot í liðnum nóvember. Fyr-
irtækið hefur nú verið endur-
fjármagnað og -skipulagt og sér
bandaríska fyrirtækið Spyglass
Entertainment um þau mál. Síð-
asta Bond-mynd var frumsýnd ár-
ið 2008, Quantum of Solace, og
samkvæmt könnunum er fólk al-
mennt ánægt með hinn ljóshærða
og hörkulega Bond.
Grænt ljós
á Bond
Bond Daniel
Craig
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Það vantar ekki metnaðinn í ís-
lenska menntskælinga þegar kemur
að leikhúsi. Leikfélög Verzl-
unarskóla Íslands og Mennta-
skólans í Reykjavík munu tækla
Draum á Jóns-
messunótt á
árinu, merkileg
tilviljun það, og
metnaðurinn er
ekki minni hjá
leikfélagi
Menntaskólans
við Sund, Thalíu,
sem setur upp
söngleikinn
Hairspray sem byggður er á vin-
sælli kvikmynd Johns Waters frá
árinu 1988 og söngleik sem unninn
var út frá henni og sýndur á Broad-
way í New York. Handritið að upp-
færslu MS er unnið út frá handrit-
inu að þeim söngleik. Hairspray MS
verður frumsýndur 15. febrúar nk. í
Austurbæ.
Vanur því að leikstýra
menntskælingum
Pétur Einarsson leikari leikstýrir
uppfærslu MS á verkinu en hann
hefur margoft leikstýrt uppfærslum
framhaldsskóla, m.a. fyrir Verzl-
unarskóla Íslands og Mennta-
skólann í Reykjavík. Arnar Pálmi
Gunnarsson, formaður leikfélagsins
Thalíu, segir heppilegt að leikstjór-
inn hafi verið uppi á þeim tíma sem
söngleikurinn gerist á, snemma á
sjöunda áratugnum. Pétur hlær
þegar blaðamaður minnist á það.
„Dansinn í þessu er jive og það er
dansinn sem var í gangi þegar ég
var kornungur og byrjaði að dansa,“
segir Pétur. Hann kunni jive en geti
með engu móti lýst því hvernig hann
dansi jive. „Þetta var þannig dans,
bara fílingur,“ rifjar Pétur upp.
Spurður að því hvort hann hafi
séð söngleikinn á Broadway segir
hann svo ekki vera og það sé í raun
óþarfi. „Við í leikhúsinu komum að
handriti og mótum okkar afstöðu út
frá því. Ég hef ekkert skoðað þetta
verk sérstaklega áður, ekki fyrr en
þau stungu upp á þessu krakkarnir.
Þá uppgötvaði ég hvað þetta er
merkilegur söngleikur því þessi
manneskja, aðalhlutverkið, hún
Tracy, er svo ótrúlega jákvæð
manneskja. Það er ekki af því hún
hafi tekið ákvörðun um það, hún
bara er það náttúrulega. Ég er mjög
heppinn með leikhópinn, ég gaf mér
góðan tíma í að velja leikara með
þeim,“ segir Pétur. Persónurnar í
verkinu séu sprenghlægilegar, mik-
ið um dans og söng og svið Austur-
bæjar henti verkinu afar vel.
30 nemar á sviði
Það verður nóg af tónlist í Hair-
spray, um 14 lög. Aðalleikarar eru
11 í uppfærslunni en auk þeirra
verða nemendur í minni hlutverkum
og verða í heildina 30 manns á sviði.
Örn Guðmundsson er danshöfundur
sýningarinnar og var ráðinn vegna
sérþekkingar sinnar á dansi frá 7.
áratugnum, að því er fram kemur á
fésbókarsíðu sýningarinnar en tón-
listarstjóri er Albert Hauksson sem
nemur tónsmíðar við Listaháskóla
Íslands.
Stuð Nokkrir nemendanna í MS sem leika í Hairspray. Glatt á hjalla enda skemmtilegur tími framundan.
Hairspray að hætti MS
Broadway-söngleikur á svið Austurbæjar Leikarinn Pétur Einarsson stýrir
menntskælingum en hann dansaði jive þegar hann var ungur að árum
Pétur Einarsson
Hárúði Úr endurgerð kvikmyndar-
innar Hairspray frá árinu 2007.
John Travolta og Nikki Blonsky í
hlutverkum mæðgnanna Ednu og
Tracy Turnblad.
Um Hairspray
TÁNINGSSTÚLKA LÆTUR DRAUM SINN RÆTAST
Í Hairspray segir af bandarísku unglingsstúlkunni
Tracy Turnblad sem dreymir um að dansa í sjónvarps-
þætti, Corny Collins Dance Show, og sá draumur
verður að veruleika. Hún verður táningsstjarna og
nýtir sér frægðina til að vekja máls á málefnum sem
eru henni hugleikin, einkum að þeldökkir njóti sömu réttinda og aðrir.
John Waters, sem sést hér til hliðar, leikstýrði kvikmyndinni Hairspray
frá árinu 1988.