Eining - 01.08.1967, Blaðsíða 10
10
EINING
HALLDÓR PÁLSSON
FRÁ NESI.
Fœddur 19. des. 1887
Ef ég ætti að nefna skóla, sem telja
mætti áhrifamestan íslenzkra mennta-
stofnana, þá mundi ég hiklaust nefna
skóla Torfa í Ólafsdal.
Þaðan hef ég kynnzt mörgum nem-
endum, og öllum langt ofan við meðal-
mennskuna að manngildi, dáð og mennt-
un. Þar á ég ekki fyrst og fremst við þá
þekkingu og lærdóm, sem af bókum er
numið, heldur þá mennt, sem lýst er í
ljóðlínum Steph. G. Steph. er hann
segir:
„Þitt er menntað afl og önd
eigir þú fram að bjóða:
Hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.“
Þar var Halldór Pálsson góður full-
trúi skóla síns, félagslyndur, fórnfús og
heilsteyptur hugsjónamaður með opinn
hug og samúðarríka sál.
Hann var fæddur að Víðilæk í Skrið-
dal í Suður-Múlasýslu 19. des. 1887. En
fluttist þaðan á barnsaldri með for-
eldrum sínum, Páli Þorsteinssyni og
Elínborgu Stefánsdóttur að Tungu í
Fáskrúðsfirði. En þar ólst hann upp í
stórum hópi systkina og fóstursystkina,
sem flest eru á lífi og bera þessum
myndargarði bernskunnar fagurt vitni
með manndómi sínum og göfgi, hvert
sem þau ber á bárum örlaga.
Um tvítugsaldur fór Halldór um Is-
land þvert til búnaðarnáms í Ólafsdal.
En að því námi loknu stundaði hann
kennslustörf á vetrum en bústörf og
jarðabætur á sumrum allt að áratugi.
Þá kvæntist hann árið 1916 hinni
ágætustu konu, Hólmfríði Björnsdóttur
frá Dölum í Fáskrúðsfirði. Hún hefur
verið honum hin ástríkasta húsfreyja í
meira en hálfa öld, og skapað heimili
þeirra þann blæ gestrisni og góðvildar,
sem flestir mundu kjósa. Höfðingslund
hennar, hófsemi og skapfesta er erfð frá
mennt forfeðra í margar kynslóðir.
Halldór var félagslyndur maður og
félagslega þroskaður. Honum voru því
falin forystustörf í sveit sinni og sókn.
En þau hjón reistu bú í Nesi í Loð-
mundarfirði og bjuggu þar síðan um
aldarfjórðungsskeið. Var heimili þeirra
rómað að myndarskap og fyrir búnað-
arframkvæmdir.
Börn þeirra Hólmfríðar og Halldórs
— Dáinn 13. júní 1967.
Halldór Pálsson.
eru þrjú, Auður, sem er gift sr. Jóni
ísfeld, ákaflega þekktum og vinsælum
presti og rithöfundi, þá er Leifur, sem
er frummótasmiður, kvæntur og býr í
Kópavogi og heima hjá foreldrum eða á
sama heimili er Björn, sem er gull-
smiður. Öll hafa börnin erft kosti for-
eldranna á ýmsan hátt og notið góðs
uppeldis.
Mesta hugðarefni Halldórs í tóm-
stundum, síðan hann flutti hingað til
borgarinnar 1941, hefur verið söfnun
frásagna um íslenzk fárviðri og skaða-
veður.
Þar hefur hann verið gjörhugull og
nýtinn að safna og er nú verið að gefa
út þetta safn hans, sem er bæði mikið
og merkilegt.
Það er samúð hans og meðlíðan með
þeim, sem barizt hafa á yztu þröm
mannlegrar tilveru í stórhríðum og
skammdegismyrkrinu, sem orðið hefur
frumvaki og aflgjafi þessarar tóm-
stundaiðju. Hún segir þó bæði frá sigr-
um og ósigrum.
Annars var Halldór gæddur þeim
góða eiginleika að kunna að fagna því
fagra. Þess vegna unni hann söng og
sögu, sólskini og gróanda og leitaðist
sífellt við að fegra umhverfi sitt og
skila því betra en hann tók við því.
Hann var innilega trúrækinn og sótti
kirkju sína af vakandi áhuga og velvild,
frjálshuga og heill.
Bindindismálum fylgdi hann heils-
hugar og starfaði í hópi þeirra, sem
þar standa bezt á verði um hamingju
æskunnar og þjóðarinnar gagnvartþeim
vágesti, sem nautnasýkin er.
í öllu sýndi hann heilindi, drengskap
og trúmennsku og lagði fram alla
krafta sína til heilla þeim málum og því
fólki, sem hann taldi sig geta orðið að
liði.
En það var hugsjón hans, að hver
einn dagur mætti hrífa hann lengra
fram á leið.
En einmitt þetta er aðalsmerki sannr-
ar menntunar, einkenni skólamanna frá
Ólafsdal.
Heill þeim skóla, sem þannig mótar
lærisveina sína.
Heill þeim mönnum, sem þannig lifa
og starfa.
Við biðjum ástvinum Halldórs allrar
huggunar og blessunar á framtíðarveg-
um, en anda hans gleði og æsku á
eilífðarbrautum.
Á. N.
Mannfjölgun og matvœli
Árið 1966 fjölgaði íbúum jarðar um
70 millj ónir og á næstu 30 árum á þeim
að fjölga úr þremur milljörðum í sex
milljarða, með sama. áframhaldi. Mikið
þarf í alla þá munna. Gunnar Mýrdal,
prófessor, telur, að tvöfalda verði mat-
arframleiðslu heimsins til ársins 1980
og þrefalda hana fram til ársins 2000.
Margt getur gerst á þessu tímabili,
sem ekki verður séð fyrirfram. Atóm-
vopnastyrjöld milli tveggja heimshluta
myndi fækka mannkyninu að miklum
mun, en gerum ráð fyrir að henni verði
afstýrt og þá munu þjóðirnar stíga tvö
mikilvæg spor: annað það, að takmarka
mjög mannfjölgunina, en hitt að hag-
nýta jarðar- og sjávargróður margfalt
á við það sem nú er. Menn munu ráða
yfir nægri þekkingu, mest veltur þá á
menningar- og siðferðisþroskanum.
4<-k -jC -K-X
Leiðrétting
Eins og lesendur blaðsins munu hafa
veitt athygli, var slæmur galli á 8. bls. síð-
asta tölublaðs. Einhvern veginn hefur það
viljað til, þegar verið var að ganga frá
blaðinu í prentvélinni, að upphafsdálkur
greinarinnar, sem auðvitað átti að vera til
vinstri handar, lendir til hægri. Verður því
framhald fyrri dálksins til vinstri, öfugt
við það sem venjulegt er. Þeir sem halda
blaðinu saman, ættu að merkja við þetta.