Freyr

Árgangur

Freyr - 01.12.1940, Blaðsíða 17

Freyr - 01.12.1940, Blaðsíða 17
FRE YR 191 Þessi veðurspá skaut mér heldur en ekki skelk í bringu, meðfram fyrir þá sök, að ég var orðinn svangur, mun hafa etið heldur lítið um morguninn vegna tilhlökkunar, eins og gerist um unglinga, þegar svo stend- ur á. Kirkjan var ofnlaus og köld, og hafði sett að mér hroll í henni. Ég var áþekkur ofni, sem kólnar þegar eldsneyti hans er orðið að fölskva. Leiðin frá kirkjustaðnum, Nesi, lá vestur um Garð og þaðan norð- vestur í Aðaldalshraun, um Langasand að Hellnaseli. Nú var í ferðinni með okkur Jónas bóndi í Hraunkoti, er síðar fór til Ameríku og varð þar tengdafaðir Rögn- valdar Péturssonar. Hann var göngugarpur mikill, skreflangur og svo fóthvatur, að ég þurfti tvö skref móti hans einu. Þegar við höfðum gengið nokkurn spöl frá Garði, var dagsskíman á þrotum og komin mokandi hríð. Nú hertu leiðtogarnir á göngunni og veittist mér örðugt að fylgja þeim. Stúlkan var þrekmikil og hélt sínum hlut. Þegar við komum á Langasandinn, áttum við eftir svo sem % hluta leiðarinnar til Hellnasels, en þá skipti um veður í einni svipan. Vestan hioldviðrisbylur skall yfir okkur formála- laust, svo að kalla. Tvær, þrjár rennings- rokur sungu inngöngusálminn. Mér varð ekki bilt við þetta. Ég vissi, að faðir minn og Jónas myndu rata. Og ekki var ég þrotinn svo að kröftum, að mér yrði skotaskuld úr því að bera fyrir mig fæturna. Veðrið var ekki frosthart, en af því ég var yfirhafnarlaus, næddi í gegnum mig, en þó ekki svo að mér yrði meint af. Við náðum Hellnaseli á vökunni og börðum þar að dyr- um og fengum húsaskjól — það sem til var. Þetta heimili var á þeim dögum fátæk- asta kotið í sveitinni, kýrlaust, ef ég man rétt, minnsta kosti mjólkurlaust í þetta sinn — og kaffilaust. Hjónin voru greið- vikin, en höfðu eigi aðrar góðgjörðir að bjóða en laufabrauðsköku og soðið vatn, hverjum gestanna. Kalt var í baðstofu- kytrunni og birtan dauf af kertaljósi. Við sátum þarna fram í svokölluð vökulok eða lengur, og munu umræðunnar hafa verið um daginn og veginn og óstilling veðrátt- unnar. Húsfreyjan þarna í Selinu hét Sig- ríður, valkvendi og verðug góðrar aðstöðu í lífinu, ef hún hefði boðizt. Hún bjó síðar að Syðri-Skál í Köldukinn ásamt manni sínum, Benedikt Oddssyni. Indriði Þorláksson á Fjalli kvað um hana látna snilldarlegt erfiljóð og heitir það í kvæða- bók hans Sigríður í Skál. Vestan garrinn fló um nóttina hríðar- belginn af himninum og gerði þá tunglskin svo að vegljóst varð. Við héldum þá heim- leiðis, höfðum Skjálfandafljót á vinstri hönd en Aðaldalshraun á hægri og náðum heim á miðnætti. Daginn eftir varð ég þess áskynja, að kvenfólkið á Sandi stakk saman nefjum um það, að stúlkan sem fór með okkur til kirkjunnar, hefði búið sig barnalega: „verið óklædd innan undir pilsunum", svo ég beri mér nú í munn orðalag eins skáldsagnahöf- undar, sem stundum ber sér í munn nýmæli. Nærri má geta, hvernig stormur og renningur hafa blásið um hana bera upp að mitti, og má það heita furða, að henni skyldi ekki líða í brjóst. Margar sögur heyrði ég í æsku um svaðil- farir, sem kirkjufólk lenti í um hávetur, en hér er ekki tækifæri til að fara út í þá sálma. Enda var ég ekki þátttakandi í neinni þeirra. Þess má geta að endingu, að þegar ég kom heim um nóttina, varð ég feginn matnum. Mér þótti illt að fasta um jólin eins og Glámi heitnum. Ég vildi hafa mat minn ogengar refjar. _ „ . _ , Guðmundur Fnðjónsson.

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.