Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1953, Síða 100
tyrfni í máli, fyrnska, kenningar og öll uppfyllingar-
orð bannfærð, og hættir og hrynjandi leikandi léttir
og samræmdir af óvenjulegri dirfsku anda og efni,
án þess vikið væri frá lögmálum islenzkrar ljóð-
liefðar. Önnur kvæðabók Daviðs, Kvæði, 1922, vitn-
aði um meira listrænt jafnvægi en sú fyrsta, og
kvæðin frá ferð skáldsins til Suðurlanda og dvöl
hans þar voru nýstárleg, en aðeins fá ljóð í þessari
bók voru gædd slíkum töfrum sem sum kvæðin i
Svörtum fjöðrum. í Kveðjum, sem út komu 1924, var
hins vegar hvort tveggja til staðar, mikil og jafnvæg
listtækni og sá eldur tilfinninganna, sem svo mjög
hafði hrifið við lestur Svartra fjaðra, og í Nýjum
kvæðum, 1929, var Davíð orðinn fullþroska og mjög
fjölhæft skáld, og þá er hann fékk fyrstu verðlaun í
samkeppni um hátíðarljóðin 1930, var það í fyllsta
sainræmi við þá hylli og tiltrú, sem liann naut hjá
þjóðinni. Hann var orðinn þjóðskáld, þó að hann
væri aðeins maður hálffertugur.
Davíð Stefánsson hefur ort um hin fjölbreyttustu
efni og slegið á marga strengi mannlegra tilfinninga
og hughrifa. Hann hefur ort ástarkvæði margra tóna
og tilbrigða, dulþung ljóð með þjóðkvæðablæ, kvæði
æsilegra óra og rómantiskra drauma og ljóð hinnar
áköfu lífsþrár og lífsfyllingar, og hann hefur brugðið
fyrir sig glettni. Hann hefur ort trúarljóð og trega-
kvæði, kveðið um dauðaugg og forgengileik mannlegs
lífs og lífsnautnar. Hann hefur lýst i Ijóðum því, sem
hefur fyrir augun borið og i hugann svifið á ferðum
hans um fjarlæg lönd, kveðið óði um íslenzka nátt-
úru og lofsungið islenzkt sveitalíf. Hann hefur ort
söguljóð frá ýmsum tímum og dáð þá nautn, sem
fornar bækur og bókfell búa þeim, sem finna frá þeim
eim og andblæ af lífi og striði liðinna kynslóða. Hann
hefur deilt á hræsni, skinhelgi og þjóðfélagslegt rang-
læti. En um hvað sem Davíð hefur kveðið, felst í
ljóðum hans túlkun þess, sem lirærzt hefur hið innra
(98)