Freyr

Árgangur

Freyr - 01.09.1954, Blaðsíða 5

Freyr - 01.09.1954, Blaðsíða 5
FREYR 257 Sveitin (Miklaholtshreppurinn), þar sem við erum stödd í dag, er fögur og búsældar- leg. Farðu einnig um Staðarsveitina á björt- um vordegi og þú hrífst af fegurð hennar og landkostum. Og líttu yfir Breiðuvíkina af Axlarhyrnu á sólríkum sumardegi, þá veit ég, að þú skilur vel skáldið, sem fæddist á Arnarstapa (Steingrím): „Hér andar Guðs blær og hér verð eg svo frjáls, í hæðir ég berst til ljóssins strauma.“ Farðu líka um Eyrarsveitina og líttu yfir Grundarfjörðinn og sveitina umhverfis hann, með Stöðina, Kirkjufellið og fleiri tignarlega fjallatinda. Og síðast en ekki sízt, farðu um Kerlingarskarð á kyrrum og björt- um sumardegi. Það má heita sama hvort þú kemur um sólarlagsbil vestur á brúnina og rennir augum vestur og norður um Breiðafjörð, með búsældarlegu eyjunum og Barðastrandafjöllin í baksýn, eða þú kem- ur á suðurbrúnina ofan Hjarðarfell um sól- arupprás og sérð hinar grösugu og fögru sveitir baðast í geislum morgunsólarinnar, og hinn fisksæla Faxaflóa speglast fram- undan.Slík sýn, yfir fagurt og frjósamt land, og fiskauðuga firði, gerir meira en fylla hugann fegurðartilfinningu. Það gefur manni einnig nýja von og aukna trú á framtíð sveitanna og landsins i heild. — Flest öll störf sveitamannsins eru lífræn störf, og það gefur þeim mest gildi. Það er mest lifandi verzlun við náttúruna sjálfa. Verzlun við jörðina er sannheiðarleg verzl- un. Þar uppsker hver eftir því sem hann sáir. „Sveit er sáðmannskirkja, sáning bænargjörð," segir Bjarni Ásgeirsson. Starf sveitamanns- ins er starf biðjandi manns. Þegar bónd- inn sáir í akur sinn, vaknar óhjákvæmilega bæn í hug hans um fagran og frjósaman ak- ur. Sama er að segja um búfjáreignina, þar snýst allt um frjósemi og vellíðan bústofns- ins. Það er, sem sé, ýmist verið að hlúa að nýgræðingi eða annast um ungviði. Hvort- tveggja er sannarleg bænargjörð. Um þetta er hugsað og að þessu er unnið í sveitinni, oft nótt með degi, en ekki alltaf hugsað um að „alheimta daglaun að kvöldum". í þessu liggur meginkostur sveitalífsins, að störfin eru fyrst og fremst að hjálpa áfram lífinu sjálfu. Það er sönn nýsköpun. Þetta veitir sveitafólkinu gleði þrátt fyrir erfiðið, því „hjartaö heimtar meira, en húsnæði og brauð.“ En sveitasælan og sveitavelferðin er í hættu, ef félagsþroska fólksins er ábóta- vant. Bæði til leiks og starfa þarf félags- skap. Af samhuga átaki og félagsvilja gát- um við haldið þessa samkomu fyrir alla sýsluna. Við vitum, að einhuga félagsskap- ur fólksins getur lyft Grettistaki. Slíkur fé- lagsskapur þarf að eflast og vinna mark- visst að meiri framförum og auknum þæg- indum í sveitinni. En hamingja heimilanna á hverjum stað byggist á því, að húsráðendur og heimilis- fólk lifi saman í kærleika, sannleika og góðu samlyndi. Þar sem samlyndi er gott og óskir og bænir falla saman bæði á sorg- ar- og gleðistundum, og trúin á lífið og eilífðina er sameiginleg og vakandi, þar rík- ir sönn gleði og lífshamingja. Komirðu á slíkt heimili, muntu hitta í hlaðvarpa úti, eða við vinnu sína, glaðan bjartsýnan bónda, sem býður þér til stofu, og inni hitt- ir þú fyrir gestrisna, milda og lífsglaða hús- freyju, sem hefir yndi af að buga að gest- um þrátt fyrir annríki heimilisins. — Þetta eru heimilin, sem haldið hafa uppi þjóðlegri, kristilegri menningu í sveitum þessa lands, og þau munu halda áfram að vera til og fjölga með fjölgandi býlum og búendum, og breyttum og batnandi lífs- skilyrðum. Og enn „verður það bóndabærinn, sem ber af öllu þó.“

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.