Símablaðið - 01.01.1980, Qupperneq 15
Högni Eyjólfsson.
Högni Eyjólfsson var fæddur í Reykjavík
19. júní 1905, og voru foreldrar hans hjónin
Eyjólfur Friðriksson og Helga Guðmunds-
dóttir. Hann lærði rafvirkjun hjá Halldóri
Guðmyndssyni raffræðing, og vann síðan
um nokkurt skeið hjá Rafmagnsveitu
Reykjavíkur og Johan Rönning.
Kynni okkar Högna hófust árið 1932, er
hann ásamt fleiri rafvirkjum réðst til Bæjar-
síma Reykjavíkur til að vinna við lagnir í
húsum. Var það ár unnið að uppsetningu
Sjálfvirkrar stöðva í Reykjavík, og því talið
nauðsynlegt að vanda til allra lagna innan-
húss. Stöðin tók til starfa í árslok. Af þessum
mönnum ílengdist Högni einn hjá Bæjarsím-
anum, og vann þar síðan sleitulaust til 1970.
Ég á margar minningar um Högna frá
þeim árum, er við unnum saman, og held ég,
að aldrei hafi fallið skuggi á. Hann var sér-
staklega kurteis og alúðlegur í framkomu,
þrátt fyrir erfiða sjúkdóma síðustu árin hélt
hann ávalt glaðværð sinni.
í félagsmálum var Högni góður
liðsmaður. Þegar F.Í.S. var úthlutað lands-
spildu í Heiðmörk til trjáræktar, átti Högni
ófáar ferðir þangað og hvatti aðra óspart.
Sumarbústaðaland, sem þau hjón áttu fyrr á
árum í Fossvogi, ber þess órækt vitni, að
Högni unni öllum gróðri, — gaf þar að líta
sömu snyrtimennsku og á heimili þeirra í
Barmahlíð 25.
Kona Högna var Sigríður Einarsdóttir,
ættuð úr Austur-Skaftafellssýslu. Höfðu þau
verið í hjónabandi í nær hálfa öld. Þeim var
tveggja barna auðið, og eru þau Eyjólfur,
deildarstjóri við Símstöðina í Reykjavík og
Guðrún Helga, húsmóðir hér í bæ.
Ég vil að lokum flytja ekkju hans og börn-
um innilega samúðarkveðju.
Minning geymi góðan dreng.
Kristján Jónsson.
Sigurður Stefánsson.
Sigurður Stefánsson lést á Borgarspítalan-
um 14. þ.m. eftir þrálát veikindi.
SÍMABLAÐIÐ 13