Litli Bergþór - 01.03.1993, Qupperneq 27
drógum bensínið upp í sprauturnar og sprautuðum
því svo upp í loftið og bárum eld að um leið. Úr
þessu varð svo myndarleg eldsúla sem lýsti sem
snöggvast upp gamla braggann í hlaðinu á
Kjóastöðum og sló draugalegum bjarma á
sakleysisleg andlit ungu vísindamannanna, sem
ekki hugsuðu um hættuna af þessu.
Eitthvað var Bárður að bera upp á okkur Gumma
sök um hengingu á sér, í ógáti að sjálfsögðu. Við
vorum eitthvað að hífa hann upp á höndunum í
bragganum góða er snuðra hljóp á þráðinn og þurfti
endilega að lenda um hálsinn á honum svo hann
sofnaði í smá tíma þarna í loftinu, en vaknaði í tíma
aftur og er sennilega kominn hér skýringin á lengd
hans.
En þeir gerðu fleira elstu strákarnir, samanber
söguna af tveim ónefndum, sem einn
góðviðrisdaginn, er von var á gestum, stungu berum
afturendunum út um sitthvorn gluggann á gamla
bænum, og létu sitt eftir liggja.
En þá er að minnast á stelpurnar sem eru í
minnihluta en voru ekkert síðri í uppátækjum og
stríðni. Heimildir um frumburðinn eru ekki miklar hjá
mér, en hún var í þeirri aðstöðu að hafa engar
fyrirmyndir, svo allt sem á eftir kom er frá henni
komið. Kalli sagði mér um Siggu að hún hafi verið
svo spretthörð og sterk að þeir höfðu ekkert að gera
í hana. Hún ýmist hljóp þá af sér eða uppi og
lúskraði á þeim, en aldrei fékk ég að kynnast þessu,
enda töluvert yngri.
Aftur á móti man ég vel eftir því þegar Svana var
að troða majonesi upp í mig og láta mig æla. Eyja
og Svana sögðust ekki muna eftir neinu misjöfnu frá
þeirra hálfu, en mig grunar nú að þær lumi á
einhverju sem þær vilja halda leyndu. Þær voru
sammála um það að Svana hefði alltaf fengið Eyju
til mótmælaaðgerða gegn mömmu ef þær fengu
ekki það sem þær vildu. Þær veltu sér upp úr
skurðum í nýjum kjólum eða eins og Eyja sagði, að
traðka á forláta dúkkum í hænsnahaugnum. Eitt
sinn hringdi Marta gamla á Brú og spurði hvort
stórslys hefði orðið, en þá var það Svana að öskra
fyrir utan gamla bæinn vegna þess að hún fékk ekki
það sama og eldri systkinin.
Gunna sagði mér sögu af sér og Dóru, en þær
áttu það til að príla upp á hlöðuþak, þar sem þær
áttu sinn naglann hvor. Þessa nagla létu þær svo
tala saman og ráða í heimsmálin eftir bestu getu,
ryðgaða þaknagla með aðstoð tveggja stúlkna sem
í leyfisleysi notuðu hlöðuþak sem rennibraut, enda
rifu þær iðulega buxurnar og fengu skammir fyrir, en
fyrir neðan hlöðuvegg stóð Maggi sem ekki komst
upp þá hjálpariaust og söng til að stríða Gunnu.
"Gunna með rifinn rass". Einnig sagði Gunna mér
að stundum kom það fyrir að hópur af skæruliðum
lokaðist inni í gamla bragganum á hlaðinu og mátti
dúsa þar nokkra stund. Þá var verið að gera
eitthvað sem pabbi mátti ekki vita um. Ekki var nú
alltaf samstaða meðal hópsins og var þá bara skilið
útundan. Sem dæmi má nefna Baskevill höllina,
sem nokkur systkinin höfðu byggt úr tómum tunnum
með tilheyrandi húsgögnum. Eitthvað var ónefnt
systkini þversum í þessum leik, en það var víst
eitthvað þvert á yngri árum að sögn Kalla og til að
minna hin á tilveru sína skildi ónefnt systkini eftir sig
saurlyktarmerki í skál á borðinu í höllinni. Ég sel
þetta ekki dýrara en ég keypti það.
Sami heimildarmaður sagði mér að Kalli hefði
verið skammarstrikaforingi og hrekkjusvínameistari
hópsins. Hann kallaði það að herða mannskapinn
með barsmíðum, eilífum selbitum og
innanfótarklípum. Til varnar þessum klípum í Kalla,
sem Halla segist hafa notað á okkur Gumma,
notuðum við nokkuð snjalla aðferð. Við settum
pappa inná okkur eða á þá staði sem voru sárastir
við klípum.
Þá er komið að þeim yngstu, Agli, Bárði og Siffu.
Þeir fyrrnefndu vildu stuðla að fjölbreyttari
hangiketsframleiðslu og reyndu að reykja nýru. Þeir
hengdu þau upp í reykkofann sem stóð við
votheysgryfjuna, en hvort það var þeim að kenna
eða ekki þá kviknaði í kofanum og brann þar kjöt,
aðallega frá Óla, sem pabbi var að reykja fyrir hann.
Ekki reyndu þeir frekar þessa framleiðslu, enda fást
ekki reykt nýru á íslandi ennþá.
Einnig voru þeir með þeim fyrstu sem reyndu
loðdýrarækt, er þeir hugðust rækta mýs í
olíutunnum og gömlum koffortum, en lítil kunnátta á
fóðrun slíkra dýra batt enda á þá atvinnugrein eins
og nýrnareykinguna. Sömu leið fór dúfnaræktin, en
einn daginn fundust allar dúfurnar látnar og eftir
skyndirannsókn og snöggsoðin réttarhöld var
kattarræfill sakfelldur og dauðadómur felldur og
fullnægt á staðnum, fyrst með berum höndum sem
mistókst aðgerlega og lenti það á pabba að aflífa
dýrið. Fikt við reykingar á moði, njóla og dýrum
vindlum var svo almenn að ég nefni það ekkert
frekar, þótt sumir yrðu veikari en aðrir.
Þá er komið að lokaþætti þessa pistils, henni Siffu
sem engan hafði til að stríða eða hrekkja en varð að
þola Egil, Bárð og Jónas Hafsteins, sem var mikið
með þeim. Þegar ég spurði hana um hennar
prakkarastrik sagðist hún hafa grenjað á hverjum
degi undan þeim enda við ofurefli að etja og það af
útlærðum striðnis- og fantabragðasérfræðingum er
hlutu menntun sína af sér eldri sem aftur námu af
sér eldri er höfðu þá elstu sem fyrirmynd og svo lífið
í kringum sig. Er því engin furða þótt hún gangi í
háskóla eða svo gott sem til að læra rekstrarfræði,
ef hún skyldi lenda í sömu aðstöðu og mamma og
pabbi, sem enga möguleika höfðu til slíks náms, en
urðu að þreifa sig áfram og komust bara vel frá því
fyrirtæki sem við köllum fjölskylda eins og ávöxtunin
ber vitni um.
Litli - Bergþór 27