Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.07.1996, Blaðsíða 1
FRETTABREF
ÆTTFRÆÐIFÉLAGSINS
ISSN 1023-2672
5. tbl. 14. árg. - Júlí 1996
Sumarferðin
Sumarferð Ættfræðifélagsins verður farin 27. júlí 1996 og að þessu sinni
verður farið um Borgarfjarðarsýslu. Að vanda verður reynt að koma sem
víðast við.
Lagt verður af stað frá Umferðamiðstöðinni kl. 8.00 stundvíslega.
Verðið er 2300 krónur fyrir 13 ára og eldri en 1000 krónur fyrir yngri.
Boðið er upp á hádegisverð í Reykholti. Fyrir um 1050 krónur er framreiddur
steiktur fiskur, súpa og kaffi á eftir en þeir sem vilja geta fengið kjötrétt fyrir
um 1350 krónur. Þegar tilkynnt er um þátttöku verður að segja til um
matinn.
Við þátttökutilkynningum taka:
Sigurður Magnússon sími 561-2880
Þórarinn B. Guðmundsson sími 564-2256
Leiðin liggur um Hvalfjörð, áð verður á einum stað áður en komið verður
að Saurbæ til þess að hugleiða aðeins um Hallgrím Pétursson. Áfram verður
svo haldið vestur fyrir Meðalfellsmúla um Leirársveit og upp Svínadalinn,
yfir Draghálsinn í Skorradal og yfir Hestháls í Lundarreykjadal. Áfram
liggur leiðin framhjá Flókadal og Stórakroppi í Reykholtsdal, framhjá
Kleppjárnsreykjum og að Reykholti þar sem matast verður og að því loknu
er staðurinn skoðaður.
Að lokinni staðarskoðum er haldið upp Reykholtsdal og komið yfir hjá
Stóra-Ási, skoðaðir Hraunfossar og Barnafossar áður en komið er að
Húsafelli. Meðan staðurinn er skoðaður eru ævintýri Snorra rifjuð upp. Nú
verður farið yfir Hvítáog framhjá Kalmannstungu og Fljótstungu (Surtshellir
og Hellismenn). Að vísu er nú ekið í Mýrasýslu niður Hvítársíðu en í staðinn
höfum við gott útsýni yfir Hálsasveitina. í Hvítársíðu eru margir kunnir
bæir, svo sem Gílsbakki, Kirkjuból, Haukagil og Síðumúli. Héðan er
ráðgert að stefna í vestur á Þjóðveg 1 og koma á hann hjá Haugi við Norðurá.
Ekið verður í gegnum Borgarnes með smá viðkomu þar og síðan haldið
suður með Hafnarfjalli framhjá Höfn í Melasveit þar sem Snorri á Húsafelli
var uppalinn og svo beina leið til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður um Hvalfjarðarstrandarhrepp og Svínadal:
Jón Valgarðsson, Eystara-Miðfelli.
Fararstjóri verður Þórarinn B. Guðmundsson
Sjá kort af fyrirhugaðri leið á bls 14 og 15.