Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.07.1996, Blaðsíða 11
Einhvernvegin tókst mér að smjúga framhjá henni,
þaut út úr herberginu og komast í hornið til ömmu
minnar. í horninu hennar ömmu var griðastaður það
vissi ég af fyrri reynslu og það vogaði sér enginn að
fara inn á hennar yfirráðasvæði til að ná í mig. Mér
var borgið í bili en það tók mig sárt að hafa brotið
svona hræðilega af mér og ég grét í faðmi ömmu
minnar, hún huggaði mig, kallaði mig elskuna sína
og sagði að þetta mætti ég aldrei gera. Hún útskýrði
fyrir mér vandlega að það væri á móti lögum
mannanna og vilja Guðs að taka nokkuð án leyfis. Nú
liðu sumarmánuðirnir, dagarnir styttust, heyönnum
var lokið, haustið kom með næturfrostnóttum og
eftirvæntingin og tilhlökkunin fyrir heimferðina úr
sveitinni náði tökum á mér. Ég mundi fyrri haust lík
þessu. Hestarnir höfðu verið tygjaðir með hnakk og
beisli, Bleikur gamli var með einteyming og áhonum
var reiðingur undir töskur og poka. Ferðinni var
heitið inn að Haga, þar sem við áttum að fara um borð
í póstbátinn Konráð. Einar frændi ætlaði að fara með
okkur inn eftir. Ég átti að vera á Brún gamla, mamma
ætlaði að reiða Hrefnu litlu systur mína á Þokka og
Einar frændi ætlaði að teyma undir Eddu systir
minni, hún átti að sitja á Sleipni. Var nú komið að
kveðjustundinni sem ég man eins og að hún væri að
ske í þessari andrá. Hestarnir voru tilbúnir og allt
annað sem tilheyrði ferðinni, aðeins var eftir að
kveðja. Allir sem gátu höfðu kornið út á hlaðið til að
kveðja okkur, það var suddarigning þennan dag en
ekki mjög kalt ég var í svartri olíuborinni regnkápu
sem mér þótti mjög fín, það voru stórir hliðarvasar á
henni, en í öðrum þeirra geymdi ég snærisspottann
sem allir alvöru menn upp til sveita höfðu á sér. Nú
var ég búinn að kveðja alla nema ömmu og gekk nú
til hennar. Hún kyssti mig og faðmaði, bað Guð um
að vera með mér að eilífu, hún fór í svuntuvasa sinn
náði þar í lófafylli af sykurmolum sem hún setti í
regnkápuvasa minn og sagði mér um leið að Guð og
allir hefðu fyrirgefið mér þá yfirsjón að taka
sykurmolana á Hjallloftinu. Við þessi orð hennar
varð ég glaður, ég fann hvernig orka hennar og
kærleikur flæddu um mig. og fylltu brjóst mitt sælu
og fögnuði. Upp frá þessari stund hefur kærleikurinn
verið til staðar í brjósti mínu og kærleiksmolarnir í
regnkápuvasanum orðið að leiðarljósi á erfiðum
stundum.
Já ! sykurmolarnir, hennar ömmu, urðu annað og
meira en nesti til einnar ferðar. Guðs blessun, kær-
leikur og fyrirgefning ömmu minnar, í rigningunni á
hlaðinu, þennan haustdag fyrir fimmtíu og þremur
árum hafa fyllt brjóst mitt ljósi góðvildar og kærleika
alla tíð síðan.
Hugleiðing vegna nýrra mannanafnalaga
Jafnrétti kvenna og karla hefur mikið verið til
umræðu en ég hef aldrei heyrt nokkra konu amast
við því, að við giftingu skuli margar konur taka
upp ættarnafn eiginmannsins. Með þessu er kona
að helminga sjálfa sig, afsala sér uppruna sínum.
Ættarnafnavenjan minnir óhugnanlega á
mörkun búfjár og ekki ólíklegt að uppruna venj-
unnar megi rekja til ófrelsis kvenna, enda víða
litið á þær, enn þann dag í dag, sem hvern annan
búsmala. Eigandinn (eiginmaðurinn) viðhafði ekki
brennimerkingu, en konur voru neyddar til að
merkja sig eiganda sínum með því að taka upp
eftirnafn hans, ættarnafnið.
Þegar tilkoma ættarnafna er skoðuð í sögulegu
Ijósi, ætti sú venja íslendinga, að kenna sig til
föður eða móður, að vera stolt þjóðarinnar. Þessa
venju ætti því að halda í heiðri.
Ættarnöfn gamalla valdastétta hafa reyndar
verið varin með lögum - sem í reynd voru ólög -
nokkrum sinnum. Ahuginn á svokölluðum milli-
nöfnum stafar líklega af því hve ættarnafna-
sérleyfin eru ósanngjörn.
Lausnin á þessu sýnist því vera: annað hvort
a) að gera ættarnöfn alveg frjáls eða
b) að halda hinni ævafornu nafnavenju, jafn-
réttisvenju, að allir einstaklingar, karlar jafnt sem
konur, kenni sig til föður eða móður og haldi þeim
nöfnum sínum alla ævi.
Löggjafinn hefur í áranna rás reynt að viðhalda
eins konar stéttaskiptingu í gegnum ættarnöfn.
Best væri að þjóðin skynjaði sjálf hversu mikil
reisn er í raun og veru yfir þeim sið að kenna sig
til föður eða móður. Þetta ættu konur best að finna
og skilja.
Síðan en ekki síst má minna á, að hin forna
mannanafnahefð hjálpar mjög mikið til við ætt-
rakningar sem erfðavísindamenn nýta sér í auknum
mæli.
Með bestu kveðju,
Arngrímur Sigurðsson
______________________________________________)
11