Bændablaðið - 12.12.2006, Síða 10

Bændablaðið - 12.12.2006, Síða 10
10 Þriðjudagur 12. desember 2006 Það sem ég man helst eftir í farimóður minnar er hlýjan og ást- in sem hún veitti okkur systrunum. Ég var ekki orðin sjö ára þegar hún veiktist og var eftir það mest á spít- alanum á Ísafirði. Í barnsminninu var hún dugleg kona og ósérhlífin. Þau pabbi voru samhent í því að koma upp búinu á Laugabóli og búa í haginn fyrir framtíðina. Mamma gat ekki séð fyrir að líf hennar yrði jafn stutt og raun bar vitni. Hún var aðeins reifabarn þegar faðir hennar fórst á Skorarheiði og víst má telja að hún hafi búið við kröpp kjör framan af. Kannski var það vosbúð sem olli því að hún fékk berklana sem ógnuðu tilvist fjölskyldunnar. Ekkert okkar áttaði sig þó á því að dauðinn væri jafn nálægur og kom á daginn. Gunna vinnukona kom á mótiSiggu í Hlíð og Rögnu á hlað- inu á Laugabóli. Rögnu sýndist hún vera döpur. „Ólöf dó í nótt,“ sagði hún vafningalaust og beindi máli sínu meir til Sigríðar en Rögnu. Rögnu fannst sem köld krumla læsti sig um hjarta hennar. Hún tók á sprett út á bæjartúnið og inn í hestagerðið þar sem hún hjúfraði sig upp að einu hrossinu og grét. Hún skildi ekki hvers vegna móðir hennar var kölluð burt. Aðeins voru átján dagar þar til mamma hennar hefði orðið þrjátíu og tveggja ára og Ragna hafði verið að velta fyr- ir sér hvað hún ætti að gefa henni í afmælisgjöf. Dauði Ólafar á Laugabóli hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjöl- skylduna. Á meðan einhver von var um bata hélt Aðalsteinn bóndi saman búinu með dætrum sínum fjórum. Þegar Ólöf var dáin blasti við að senda einhverjar þeirra að heiman. Hreppsnefndin, undir for- ystu Bjarna Sigurðssonar oddvita í Vigur, ákvað að skipta upp heim- ilinu. Æðsta yfirvald sveitarinnar taldi ekki nokkurt vit í því að Aðal- steinn bóndi æli einn upp dætur sín- ar, konu þyrfti til að ala upp börn. Bjarni tilkynnti ekkjumanninum þessa niðurstöðu. Aðalsteinn sagði fátt. Ekki var til siðs að rísa gegn yfirvaldinu og bóndinn var í sorg vegna fráfalls konu sinnar og vart fær um að andmæla. Ragna var viðstödd þegar Bjarni ræddi við föður hennar um að systrahópnum yrði splundrað og hver þeirra færi hvert. Ragna átti að fara í fóstur í Ögur, Rebekku hafði verið komið fyrir í Hagakoti og Sirrý færi að Blámýrum. Ragna hlustaði þögul en þeir fullorðnu veittu návist hennar enga athygli. Engu var líkara en fullorðna fólk- ið teldi að barnið skildi minnst af því sem talað var og væri fljótt að gleyma. En svo var vitanlega ekki. Yfirvofandi aðskilnaður bættist ofan á sorg systranna vegna móður- missisins. Jarðarförin var drungaleg og Ragna fylltist djúpri sorg þegar hún sá fram á að þær systurnar yrðu aðskildar og hún mátti varla til þess hugsa að verða niðursetningur í Ögri. Allir úr sveitinni mættu í jarðar-förina og kirkjan var troðfull. Þarna var líka fólk sem kom lengra að. Friðrikka og Betúel höfðu kom- ið yfir Djúpið frá Berjadalsá til að vera við jarðarför dóttur sinnar og fósturdóttur. Aðalsteinn heilsaði þeim og sagði Rögnu hvaða fólk þetta var. Með þeim var ljóshærð- ur stelpuhnokki á sjötta ári. Ragna vissi að þetta var systir hennar, Sig- ríður Guðrún, sem mánaðargömul var gefin í burtu. Henni fannst ein- kennilegt að sjá þessa systur sína sem hún þekkti ekki neitt. Eins var með Friðrikku ömmu hennar sem var henni sem ókunnug. Orð prestsins, Óla Ketilssonar, um ungu konuna, sem lá í kistunni, fóru fyrir ofan garð og neðan og sömuleiðis samúðarkveðjur fólks- ins. Rögnu fannst sem öll lífsins sund væru að lokast. Eftir athöfnina í kirkjunni var haldið út í kirkjugarð þar sem opin gröf beið þess að gleypa ungu móð- urina frá Laugabóli. Betúel og Frið- rikka leiddu Sigríði Guðrúnu á milli sín. Ragna vissi að Friðrikka, amma hennar, hafði orðið að þola mikið í lífinu. Þarna var hún að horfa á eft- ir fimmta barni sínu í gröfina og hafði einnig misst tvo eiginmenn af slysförum. Stúlkan hafði heyrt full- orðna fólkið tala í lágum hljóðum um það hversu mikið væri á eina manneskju lagt. En í huga Rögnu var amma konan sem tók systur hennar af heimilinu og hún vissi að það hafði verið föður hennar sárs- aukafullt. Hún fann ekki til neinnar væntumþykju í garð þessarar konu. Ragna harkaði af sér á meðan kistan var látin síga í gröfina og presturinn mælti nokkur kveðjuorð. Síðan var mokað yfir. Tíminn stóð í stað meðan gröfin smáfylltist af mold. Fólkið tók að tínast burt en Ragna stóð ein eftir. Það var sem eitthvað brysti í brjósti hennar og skyndilega opnaðist flóðgátt tilfinn- inga. Hún fleygði sér örvilnuð ofan á gröf móður sinnar og grét hástöf- um. Hún vildi fá móður sína heil- brigða til baka. En dauðinn skilar engum. Litla stúlkan við leiðið átti eftir að verða óþyrmilega vör við þá staðreynd síðar á lífsleiðinni. Systur Rögnu voru sendar aðheiman. Sigríður, Sirrý, var farin að Blámýrum og Rebekka að Hagakoti þar sem Halldór Her- mannsson og Þorbjörg Jónasdóttir bjuggu. Þorbjörg húsfreyja hafði mikið dálæti á Rebekku, bróðurdótt- ur sinni, og hafði þann sið að gefa stúlkunni afmælisgjafir og ýmsar tækifærisgjafir. Það sama gilti ekki um hinar stúlkurnar á Laugabóli sem olli nokkrum sárindum og sjálfri fannst Rebekku þetta óþægi- legt. Ragna fékk enn að vera heima og Leifa litla sem Gunna vinnu- kona annaðist. Stöðugar áhyggjur nöguðu Rögnu og hún svaf illa. Faðir hennar var dapur og hugsi og Ragna þorði einskis að spyrja þar til hún tók loksins á sig rögg. „Pabbi, ég vil ekki verða niðursetn- ingur í Ögri,“ sagði hún döpur við föður sinn nokkrum dögum eftir jarðarför móður sinnar. Faðir henn- ar horfði á hana stundarkorn en sagði svo að hann hefði hugsað mál- ið og hún færi ekki frá Laugabóli. „Þú verður hjá mér.“ Svo bætti fað- ir hennar við að hann myndi gera allt til að systurnar fengju að alast upp saman. Hjarta Rögnu tók kipp af gleði. Þetta voru bestu fréttir sem hún gat fengið. Hún vissi að móðir hennar kæmi aldrei aftur en það var huggun harmi gegn að fjölskyldan yrði sameinuð. Aðalsteinn bóndi stóð við orð sín og sótti dætur sínar og flutti heim. Það urðu miklir fagnaðar- fundir með þeim og Rögnu og bær- inn fylltist af lífi á ný. Aðalsteinn gerði uppreisn gegn yfirvaldinu með því að ala dætur sínar upp sjálf- ur. Oddvitinn lét kyrrt liggja. Aldr- ei greri þó fullkomlega um heilt á milli Aðalsteins og oddvitans. Aðal- steinn var ekki mikið fyrir það að fyrirgefa fantaskap. En Ragna lærði þá lexíu fyrir lífstíð að öruggara væri að hafa varann á sér þar sem yfirvaldið var annars vegar. Myndirnar eru úr bókinni en hér að ofan er bærinn Laugaból í Ísafjarð- ardjúpi og þar við hliðina er Ragna við stjórnvöl dráttarvélarinnar. Svarthvítu myndirnar eru úr fjöl- skyldualbúmi Rögnu. Á þeirri efri er hún við Birnustaðafoss í Laugar- dalsá en hér til hliðar halla þær sér upp að galtanum systurnar Sirrý og Ragna. Móðurmissir og upplausn Úr jólabókaflóðinu Meðal útgáfubóka um þessi jól er ævisaga Rögnu Aðalsteinsdóttur bónda á Laugabóli í Ísafjarðardjúpi, Ljósið í djúpinu skráð af Reyni Traustasyni blaða- manni. Bændablaðið fékk leyfi útgefanda, Eddu útgáfu, til að birta kafla úr bókinni.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.