Bændablaðið - 12.12.2006, Qupperneq 38

Bændablaðið - 12.12.2006, Qupperneq 38
38 Þriðjudagur 12. desember 2006 Fjallalamb á Kópaskeri er kannski ekki stór framleiðandi á íslenskum lambakjötsmarkaði en þar eru háleit markmið og mikil áhersla á gæði. Daníel Árnason hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins síðastliðin tvö ár og er þar á sínum æskuslóðum. Hugurinn ber mig hálfa leið seg- ir í þekktu kvæði og marga dreym- ir um að snúa aftur á heimaslóðir. Daníel Árnason hefur að einhverju leyti látið þann draum rætast en hann starfar nú á Kópaskeri. Hann er fæddur og uppalinn á Hjarðarási í Núpasveit við Öxarfjörð en flutti þaðan þegar hann komst á fram- haldsskólaaldur. Fyrst lá leiðin í Hrútafjörð í tvo vetur, þá í Mennta- skólann á Akureyri og þaðan í fisk- tækni í Fiskvinnsluskólanum. Í nokkur ár starfaði hann við það fag suður á landi og einnig sem vinnslu- stjóri í rækjuvinnslu á Húsavík og á Kópaskeri. „Þá var maður náttúr- lega kornungur,“ segir hann kíminn en hann hefur komið víða við síð- an þá. „Mig langaði til að styrkja rekstrarskilninginn og fór því á Bifröst, tók þar gamla samvinnu- skólaprófið, utan skóla reyndar.“ Á Hornafirði starfaði hann í einhvern tíma í starfi sem nú heitir bæjarritari og þaðan lá svo leiðin til Þórshafn- ar þar sem hann var sveitarstjóri í eitt kjörtímabil. Eftir það var hann lengst af í rekstri eigin fyrirtækja í 14 ár áður en hann fór í það starf sem hann gegnir í dag. „Þetta var svolítið fjarlægt í byrj- un en það var farið að hræra í mér með þetta starf og þá var ég svolít- ið á milli verkefna.“ Daníel segir að það hafi alltaf blundað í sér að fara aftur norður enda hefur hann haldið góðu sambandi við sveitina sína, sauðkindina gegnum göngur og réttir og þá ekki síst bræður sína sem eru með búskap í Núpasveit. Aðspurður hvort hann hafi ekki get- að hugsað sér að gerast bóndi segir hann að hann hefði nú alltaf sagst vera fjárgleggri en þeir bræður sín- ir, „við systir mín vorum mikið í fénu á meðan þeir voru frekar í vél- unum, en það hefur samt ekki verið nóg, eitthvað fleira hefur blundað í mér líka“. Þrengt að úr öllum áttum Þegar umræðurnar beinast að fækk- un í bændastéttinni verður Daníel hugsi. Hann segist óttast að þróunin verði sú að það verði áframhaldandi fækkun. Það sé hins vegar spurning hvort jákvæð verðþróun á vörum til bænda eigi eftir að gefa þeim kost á að kaupa sér aðstoð í erfiðustu störf- in. „Sumir þessara manna eru engin unglömb lengur og það verða ekki kynslóðaskipti nema unga fólkið sjái sér fært að stækka búin og hafa af þessu tekjur. Það lítur allt út fyr- ir að bújörðum fækki þó landið beri miklu meira, heiðarnar þurfa ekki að bera þetta allt eins og alltaf hef- ur verið, það er hægt að ná miklum árangri eftir öðrum leiðum.“ Daníel segir að það sé í raun þrengt að landbúnaðinum úr öll- um áttum. Það sé orðið fátíðara að afkomendur gangi inn í búskapinn og fái hann fyrir lítinn pening. Sá sem er að hætta þarf að geta sest að einhversstaðar og sérhver íbúðar- kytra í þéttbýlinu kosti nú sitt. Hann segir að greinin beri ekki þetta verð á bújörðum. „Það er náttúrlega svolítill kóngur í okkur öllum sem höfum alist upp í sveit og mikið sjálfstæði og frelsisþörf. Mörgum bændum er t.d. illa við að reikna út kostnað við hverja heyrúllu heldur vilja þeir helst eiga hver sína rúllu- vél og þá helst nýja.“ Daníel segir að þetta byggi allt á því að greinin standist atlöguna, sem sé í rauninni stanslaus barátta. Aðspurður um niðurfellingu tolla af innfluttum landbúnaðarafurðum segir hann að það yrði vissulega þungbært. Það gæti allt eins far- ið eins og í vefnaðariðnaðinum í gamla daga, þar var bara slökkt á vélunum. Það myndi ekki gerast á nokkrum árum en gæti gert það með einni kynslóð. Náttúrutengt og svolítið sveitó Hjá Fjallalambi hefur verð til bænda hækkað mikið og eru þeir að greiða einna hæst verð til bænda á lands- vísu. Daníel segir almennt að verð hafi farið hækkandi, bændur séu að fá yfir 30% hærri rekstrartekjur af búum sínum heldur en fyrir þrem- ur árum. Þar kemur inn í hækkun á kílóverði, minnkun á útflutnings- skyldunni og einnig að gæði sauð- fjárafurða hafi aukist. „Við erum svolítið peð, aðeins með um 5% af markaðnum,“ segir hann en vænt- ingarnar eru engu að síður miklar. „Ég álít að Fjallalamb þurfi ekki að sameinast og hverfa inn í fjöldann heldur geti fyrirtækið áfram fótað sig með sterka gæðaímynd og verði eins og toppurinn á rjómaísnum.“ Ýmsar breytingar hafa verið gerðar í rekstrinum undanfarin ár. Þróunin er að gera vöruna náttúrutengdari, svolítið sveitó en samt ekki hallær- islega. Kjötvinnslan er krefjandi og getur verið mikill dragbítur að mati Daníels sem hefur stokkað þar upp í Fjallalambi, hætt með fram- leiðslu þýðingarminni afurða, s.s. á áleggi og fleiru. Í staðinn vill hann einbeita sér að færri vörutegundum og gera þeim betri skil. „Við höf- um undanfarið lagt meiri áherslu á „gamla matinn“, s.s. hangikjöt, svið og slátur með góðum árangri.“ Fjársvæði Fjallalambs nær frá Langanesi að Jökulsá á Fjöllum. Þar er sauðfjárveikivarnarlína og ekki má flytja fé austur yfir Jökulsána. Þetta heftir Fjallalamb að einhverju leyti því þar með er ekki hægt að auka framleiðsluna.„Það var gerð atlaga að því fyrir nýafstaðna slát- urtíð að breyta þessu en þeir eru frekar íhaldssamir hjá yfirdýra- læknisembættinu. Ég hef þá von að fyrirtækið nái að þróast og aukið hráefni er stór partur af því.“ Hann segir að Fjallalamb sé nokkurs kon- ar klúbbur þeirra bænda sem að því standa. Það þjóni þannig ágætlega þörfum bænda, s.s. varðandi tilhög- un á slátrun ásamt vinnslu á heimt- ökukjöti, en jafnframt sé það stór kostur að vera í svo nánu samstarfi og nálægð við bændurna og vita að hann geti treyst gæðunum fullkom- lega. Það gefi þessum litla klúbbi möguleika á því að skera sig eilítið úr framleiðendum. Uppskrift úr Kvennaskólanum á Blönduósi Hjá Fjallalambi er mikil sala á hangikjöti fyrir jólin en hvað hef- ur hann sjálfur í matinn á aðfanga- dag? „Það er rjúpa, það kemur frá konunni minni og hennar fjöl- skyldu en á gamlárskvöld elda ég lambakjöt, svikinn héra. Það er að hætti mömmu en uppskriftin er úr Kvennaskólanum á Blönduósi, hérann elda ég alltaf og mun gera áfram til að heiðra minningu móð- ur minnar,“ segir hann og brosir að minningunni. Á undanförnum árum hefur verið mikil endurvakning hefða og finnst Daníel það vera mikið ánægjuefni. „Það er ekkert langt síðan unga fólk- ið vissi varla hvað Þorláksmessusk- atan var, núna er þetta voða fínt hjá verðbréfaguttunum og fleirum að fá sér skötu, skipta kannski um föt á eftir,“ segir hann og hlær. Hann segir að það komi aldrei neitt í stað- inn fyrir jólahangikjötið þó eflaust sé pizza hjá einhverjum á jólunum. Allir hafa einhverjar sérstak- ar minningar tengdar jólunum og Daníel segir að hann muni alltaf eftir stemmningunni við bústörfin í aðdraganda jólanna. „Þetta voru alltaf öðruvísi dagar, sérstaklega aðfangadagur, þá var gert vel við skepnurnar og ég hef alltaf upplifað mig vel í kringum blessaða sauð- kindina.“ Daníel býr ásamt konu sinni Sig- urhönnu Sigfúsdóttur á Húsavík og yngri dóttur þeirra sem er 10 ára, en sú eldri býr í Reykjavík. Hann verð- ur með nokkra hesta á húsi og segir að hann og dóttir hans ætli að hafa það gaman saman í hestamennsk- unni í vetur. /GBJ Fjárglöggur framkvæmdastjóri Rætt við Daníel Árnason framkvæmdastjóra Fjallalambs Daníel Árnason er komin heim aftur og stjórnar nú Fjallalambi á Kópaskeri. /Ljósm. GBJ Norska heimilisiðnaðarfélagið er ósátt við það að stofnuð hafa verið fyrirtæki sem hafa á boðstólum ódýra, norska þjóðbún- inga sem saumaðir eru í Kína. Nýjasta fyrirtækið er rekið á netinu og nefnist BunadWorld.com. Það býður upp á flestar gerðir norskra þjóðbúninga á mjög lágu verði miðað við heimagerða búninga. Í Noregi eru fjölmargar gerðir af þjóðbúning- um eftir landshlutum og héruðum. Norska heimilisiðnaðarfélagið hyggst kæra áðurnefnt netfyrirtæki fyrir söluaðferð- ir sínar, þar sem beitt er blekkingum, og fyrir að nota myndir frá félaginu á netsíðu sinni. Heimilisiðnarfélagið bendir á að þekking á þjóðbúningum og fjölbreytileika þeirra sé afrakstur af starfi norskra samtaka um þjóð- búninga, þjóðbúningafélaga vítt og breitt um Noreg og Heimilisiðnaðarfélagsins um langan aldur, kynslóð eftir kynslóð. Í þetta starf hefur verið lögð mikil vinna fólks sem búið hefur yfir mikilli þekkingu á verkefninu, mikið þróunarstarf hefur ver- ið unnið og miklir fjármunir lagðir í verk- ið. Norska heimilisiðnaðarfélagið telur því forkastanlegt að fólk og fyrirtæki, sem hef- ur ekki komið nærri þessu verkefni, fleyti rjómann af verki kynslóðanna á þessu sér- hæfða sviði. Þegar þjóðbúningur er einungis orðinn að kaupskap og verðið er farið að skipta meira máli en hefðirnar að baki búninganna, er tilgangurinn með notkun þjóðbúninga sem sameiningartákns orðinn annar en áður var. Heimilisiðnaðarfélagið lét gera skoðana- könnun um málið árið 2004. Þar kom í ljós að 75% aðspurðra telja mikilvægt að búning- arnir séu saumaðir í Noregi og að persónu- leg tengsl séu milli kaupenda og þeirra sem sauma búningana, enda séu búningarnir hluti af norskum þjóðararfi. Talsmaður netfyrirtækisins, David De Bono, heldur því hins vegar fram að fólk, sem að öðrum kosti hafi ekki ráð á búningi, geti eignast hann með þessu móti og það sé af hinu góða. Það sé hins vegar aukaatriði hvar búningurinn er saumaður. (Nationen, Ósló, 3. nóv. 2006) Er það nóg að innihaldið sé norskt eða þurfa umbúðirnar líka að vera framleiddar í Nor- egi? Norskir þjóðbúningar frá Kína Valda miklum titringi hjá þjóðræknum Norðmönnum

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.