Bændablaðið - 19.09.2013, Síða 20

Bændablaðið - 19.09.2013, Síða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. september 2013 Veruleg fækkun hefur á liðnum árum orðið á þeim stöðum þar sem konum hefur verið boðin aðstaða til að fæða börn. Það hefur í för með sér að konur á barneignar- aldri á landsbyggðinni þurfa margar hverjar að leggja á sig löng ferðalög til að komast á fæð- ingarstað, oft um hávetur þegar allra veðra er von. Mörg dæmi eru þess að konur eignist börn ýmist í sjúkrabílum eða einkabifreiðum á leið á staðinn. Þá er vitað til þess að bæði sjúkra- og einkabílar aki langt yfir leyfilegum hámarks- hraða með konur sem komnar eru að barnsburði. Sigfríður Inga Karlsdóttir, dósent á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, fjallaði um málið í erindi sem hún flutti í HA, en þar kom fram að þeim stöðum þar sem konur geta fætt börn hér á landi hefur fækkað mikið undanfarin ár. Árið 1972 voru þeir alls 25 og dreifðust um land allt, nú eru þeir einungis níu. Sem dæmi má nefna að hvergi er boðið upp á fæðingar á svæði frá Akranesi til Ísafjarðar, á svæðinu frá Ísafirði til Akureyrar er heldur eng- inn fæðingardeild og sama er uppi á teningnum á svæði frá Akureyri og að Neskaupstað. Þannig eru á öllu Norður- og Austurlandi einungis í boði tveir fæðingarstaðir, einn í hvorum landshluta, og þangað er öllum barnshafandi konum beint. Verið að flytja fé úr einum vasa í annan „Ég hef gagnrýnt það að litlum fæðingardeildum sem voru á árum áður víða um land hefur verið lokað og öllum konum stefnt inn á þéttbýlisstaðina. Þegar farið var að skera niður í heilbrigðiskerfinu og minna fé varið til þjónustu á því sviði lentu þessar litlu fæðingardeildir fljótt undir niðurskurðarhnífnum, þær virtust liggja vel við höggi. Þetta þykir mér vera mikil skammsýni. Vissulega má segja að viðkomandi heilbrigðisstofnanir hafi sparað útgjöld í kjölfar þess að deildunum var lokað en á móti kemur að kostnaður annarra stofnana eykst auk þess sem meira fé hefur verið varið til sjúkraflutninga. Það er því með þessari ráðstöfun einungis verið að flytja fé úr einum vasa yfir í annan,“ segir Sigfríður Inga. Mörg dæmi um ofsahraða Hún bendir einnig á aukna áhættu sem konur á barneignaraldri búsettar í strjálbýli eru lagðar í með löngum akstri úr heimabyggð sinni og á næstu fæðingardeild. Yfir vetrartímann séu veður oft válynd með tilheyrandi ófærð á vegum. Veðurfar á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi sé með öðrum hætti en á sunnan- og vestan- verðu landinu. Þar sé yfir fjallvegi að fara sem iðulega teppist þegar snjóar, en úrkoman sé oftar en ekki í formi rigningar eða slyddu sunnan- og vestanlands. „Það er stundum talað um að flestar konur búi í um það bil klukkustundarfjarlægð frá hverjum og einum fæðingarstað, en þá er verið að miða við bestu aðstæður, ekki tekið með í reikninginn að veður er fljótt að breytast á Íslandi og færð að spillast,“ segir Sigfríður Inga. Hún bendir einnig á að eins til tveggja tíma akstur fyrir konu sem er um það bil að fæða barn og ef til vill þegar komin með verki sé sársaukafullur og vart á nokkra konu leggjandi. „Margar konur þurfa að leggja mikið á sig en það virðist einhvern veginn aldrei vera horft til þess þegar ráðamenn taka ákvarðanir, eins og til dæmis að leggja niður litlu fæðingar- deildinar sem eitt sinn voru víða um land,“ segir hún. Þá bendir hún á að mörg dæmi séu þess að bílum, bæði sjúkrabílum og einkabílum sem flytja konur á fæðingardeildir í skyndi þegar alveg er að koma að fæðingu barns, sé ekið langt yfir hámarkshraða. „Í mörgum tilvikum er um ofsaakstur að ræða, við höfum heyrt um bíla sem ekið er á 120 til 160 kílómetra hraða og það segir sig sjálft að öryggi móður og ófædds barns er stefnt í voða,“ segir Sigfríður Inga. Spurning um hvenær eitthvað fer úrskeiðis Hún nefnir að fram til þessa hafi skráningar á fæðingum í einka- og sjúkrabílum ekki verið færðar sér- staklega, en dæmi um slíkt séu mýmörg. Þannig viti hún um átta konur sem ýmist fæddu í sjúkra- og einkabílum eða nokkrum mínútum eftir að þær náðu inn á fæðingardeild, á leið sinni úr Skagafirði á fæðingar- deild á Akureyri. Fæðingardeild á Sauðárkróki var lokað fyrir fáum árum og fæðandi konur hafa eftir það verið sendar til Akureyrar. „Skagafjörður er um 3.000 manna byggðarlag og um klukkustundar akstur að fara á milli yfir til Akureyrar, en það að við vitum um átta slík dæmi á einu ári er töluvert mikið í ekki stærra byggðarlagi. Þetta er bara einn staður á landinu og dæmin svona mörg. Ég hef ekki heildartölu um hversu margar fæðingar verða við þessar aðstæður á landinu öllu en þær eru þó nokkuð margar,“ segir Sigfríður Inga. „Það má því sannarlega segja að það sé mikil mildi að fram til þessa hefur allt farið vel, en í þessu kerfi okkar er innbyggð áhætta. Það er spurning um hvenær eitthvað fer úrskeiðis. Tilhugsunin um það er skelfileg.“ Skilgreina þarf betur hvaða þjónustu eigi að veita á hverri heilbrigðisstofnun Sigfríður Inga bendir á að nauðsynlegt sé að skilgreina betur hvaða þjónustu eigi að veita á hverri heilbrigðisstofn- un fyrir sig. Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar um val á fæðingarstað þar sem þeir eru flokkaðir miðað við aðstöðu og við- búnaðarstig og leiðbeiningar eru gefnar um æskilegan flokk fæðingar- staðar miðað við áhættuþætti kvenna. Skilgreind eru fjögur mismunandi þjónustustig, frá A til D, þar sem A er hæsta þjónustustig og á aðeins við um Landspítala-háskólasjúkrahús og D er fæðingarstaður sem hentar konum þegar meðganga og fyrri fæðingar hafa verið eðlilegar að mati ljós- mæðra og lækna. Víða segir hún að hægt sé með litlum tilkostnaði að veita þjónustu í nærsamfélaginu í stað þess að senda fólkið burtu um langan veg. „Svo þarf að taka inn í þennan reikning það aukna álag sem verður á starfsfólki á stærri heilbrigðisstofnunum þegar æ fleiri leita eftir þjónustu þar. Það hefur t.d. margoft komið fram að starfsfólk á Landspítala er að bugast af álagi, en þegar þjónusta er skert á minni stöðum sækir fólk í auknum mæli þangað. Það hefur líka í för með sér aukinn kostnað þar, þannig að sparnaður í heild verður ef til vill ekki svo ýkja mikill,“ segir hún. Hægt að nýta litlu staðina betur „Að mínu mati er í mörgum tilvikum hægt að nýta litlu heilbrigðis- stofnanirnar á landsbyggðinni betur og létta þar með álagi af þeim stærri. Hvað fæðingarþjónustu varðar er stundum bent á að öryggið sé meira á stóru heilbrigðisstofnununum. Hraustar konur sem gengið hafa með í 37-42 vikur, þar sem ekkert amar að móður eða barni og ekki annað fyrirsjáanlegt en fæðing verði eðlileg, þurfa ekki inn á hátæknisjúkrahús til að fæða barn sitt,“ segir Sigfríður Inga. Hún segir að grunnurinn að öryggi í barnsfæðingur sé því lagður með góðri mæðravernd þar sem konum í áhættumeðgöngu eða konum sem eru á einhvern hátt metnar í áhættuhóp hvað varðar fæðinguna er beint á stærri fæðingarstofnanir þar sem þjónustustig er hátt. „Við skulum ekki gleyma því að þegar búið er að taka þessar konur út úr hópnum fæða hinar eðlilega í flestum tilfellum. En stundum hefur mér virst umræðan vera eins og engar konur fæddu eðlilega á Íslandi. En staðreyndir er sú að með góðri mæðravernd getum við séð í langflestum tilfellum hvaða konur þurfa á hátæknisjúkrahúsi að halda og hverjar ekki. Í því felst öryggið,“ segir hún. „Ég held því fram að konum sé oft meiri hætta búin í löngum og erfiðum akstri sárþjáðar af verkjum með stressaðan eiginmann undir stýri sem oft ekur allt of greitt. Við þurfum að skoða þessi mál vandlega, því eins og staðan er núna þegar búið er að loka litlu fæðingardeildunum um landið vegna fjárskorts fer mun meira fé í sjúkraflutninga og kostnaður og álag á stærri stöðunum vex. Peningarnir sem enginn dregur í efa að eru af skornum skammti eru bara færðir til,“ segir hún. Ráðamenn hafa ekki skilning á aðstæðum íbúa dreifbýlisins Stundum hefur verið á það bent að til að forðast akstur á síðustu stundu geti konur verið komnar tímanlega á þann stað þar sem fæða eigi barnið. Sigfríður Inga segir að slíkt henti fráleitt öllum konum og í raun fæstum. Flestar konur fæði í 37. viku til 41. viku meðgöngu og alls ekki sé hægt að bjóða konum upp á að bíða fjarri heimili sínu í nokkrar vikur á meðan barnsins er beðið. Hún nefnir sem dæmi bóndakonur sem ekki eigi auðvelt með að hlaupa frá búinu í tvær til þrjár vikur, einkum á álagstímum í sveitinni. „Fólk hefur ekki aðstöðu til þess, flestir hafa nægum verkefnum að sinna og þá hefur ráðstöfun af þessu tagi mikinn kostnað í för með sér sem fáir hafa ráð á. Mér finnst skorta töluvert á að ráðamenn þessarar þjóðar, sem mig grunar að í meirihluta séu fjársterkir karlar í þéttbýli, hafi skilning á þeim aðstæðum sem íbúar á hinum strjálbýlli svæðum búa við,“ segir Sigfríður Inga. „Gagnrýnisraddir hafa ekki verið háværar um þessi málefni og kannski er það af því að gagnrýni er ekki allt of vel tekið innan heilbrigðiskerfisins. Sem er undarlegt því orðið gagnrýni þýðir jú rýni til gagns.“ /MÞÞ Fæðingardeildum á Íslandi hefur fækkað um 16 á liðnum árum: Innbyggð áhætta í kerfi sem býður upp á langan akstur – segir Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri Sjúkraflutningar - kostnaður á landinu öllu Ár Sjúkrabill Sjúkraflug Samtals 1.122.754,000 1.208.885,000 1.354.159,000 1.446.654,000 1.588.059,000 1.649.195,000 Myndir / MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.