Bændablaðið - 19.09.2013, Side 25
25Bændablaðið | Fimmtudagur 19. september 2013
degi. Svo læra gestirnir spænsku og
fá fræðslu um allt það sem bændurnir
í þessu héraði eru að framleiða. Seinni
vikuna verðum við á nautabanahóteli
í stærri bæ. Þá er fólkið áfram í
spænskunámi. Einnig er passað upp
á að þátttakendur lendi aldrei í neinum
túristagildrum, heldur fái einlæga
kynningu heimamanna á lífinu í
héraðinu.
Mér finnst svo gaman að sjá
hvernig fólkið í Extremadura-héraði
tekur ferðamönnum opnum örmum.
Þarna geta ferðaþjónustuaðilar
fylgst með því hvernig þeir laða til
sín ferðamenn og geta þá fengið
hugmyndir að því hvernig má bjóða
upp á prógramm fyrir ferðamenn
utan háannatíma og hvernig má halda
ferðamanninum lengur á staðnum.“
Ótrúlega margt sem mætti laga
„Eftir reynslu mína í sumar sem
leiðsögumaður fyrir Spánverja hér
á Íslandi og sem vararæðismaður
Spánar veit ég nákvæmlega hverju
Spánverjar eru að sækjast eftir. Ég sá
í ferðum mínum um landið hvað það
eru ótrúlega margir hlutir sem mætti
laga án þess að það þurfi að kosta
mikið. Þar á meðal þyrfti að reyna að
selja ferðir sem halda fólkinu í héraði
í stað þess að þeysa á fáum dögum
allan hringinn.
Það mætti t.d. setja upp
göngupakka, merkja betur göngustíga
og búa til dagskrá þannig að fólk
sjái sér hag í því að dvelja lengur á
hverjum stað. Svo ég tali nú ekki um
að setja upp námskeið. Það er einmitt
eitt af því sem Mundo mun gera hér
á landi næsta sumar. Þá ætla ég að
vera með sumarbúðir í Reykjavík
fyrir erlenda krakka.“
Íslendingar gætu nýtt sér
fyrirmyndir á Spáni
Margrét sagðist í ferðum sínum um
Ísland hafa fengið ágætan samanburð
á því hvað Íslendingar eru að gera og
hvernig Spánverjar í jaðarbyggðum
hafa hlutina. Í fyrra hafi hún t.d.
hjólað pílagrímastiginn til Santiago
de Compostela á Spáni, þar sem farið
var um sveitahéruð sem eru með
bændagistingu sem svipar mjög til
bændagistingar á Íslandi.
„Þar fann ég svo sterkt hvað
það er mikilvægt fyrir þá sem reka
ferðaþjónustu hér heima að fara
til útlanda til að kynna sér hvernig
aðrir gera sambærilega hluti. Hvernig
menn leggja áherslu á smáatriðin
sem skipta miklu máli. Það skiptir
t.d. máli að veitingafólk viti hvenær
það á að þéra gesti og hvenær ekki.
Það skiptir heilmiklu máli fyrir marga
útlendinga að við séum formleg við
fyrstu kynni. Slíka framkomu þarf
að kenna fólki og eins líkamsburði
og einfalda frasa til að bjarga sér á
nokkrum tungumálum.“
Of mikið skammtíma
gróðasjónarmið
Margrét segir að þeir sem selji
ferðaþjónustu verði alltaf að vera
tilbúnir að læra af öðrum. „Það er
styrkur að fá einhvern til að taka
út þjónustuna og fá einföld ráð um
hvernig eigi að halda áfram. Oft
breytist mikið við litla ábendingu.
Ég varð mjög vör við það í
ferðum mínum á Íslandi í sumar að
þjónustuaðilar hér hugsuðu allt of
oft sem svo að þessir túristar kæmu
bara einu sinni og það skipti ekki
máli hvernig þjónustan væri. Þarna
bar vertíðarhugsunarhátturinn okkur
ofurliði í stað þess að við hugsuðum
langt fram í tímann. Ferðamennirnir
fengu oft lágmarksþjónustu með
lágmarksgæðum en samt kostaði
hún sitt. Oftast hefði verið hægt að
koma í veg fyrir það með þriggja
daga stífri þjálfun á starfsfólki að
vori til. Stundum hefði mátt halda
að við vissum ekki að gestirnir blogga
um þetta, m.a. á Trip Advisor, og láta
reynslu sína berast. Slíkt má bara
ekki eiga sér stað. Þetta er ótrúlega
hættulegt fyrir ferðaþjónustuna
í heild. Það eru líka hættuleg
skilaboð ferðaþjónustunnar að láta
viðskiptavinina finna að starfsfólkið
kunni ekki sitt fag og þurfi ekki að
kunna tungumál, nema kannski í
mesta lagi ensku.“
Smáatriðin skipta miklu máli
„Ég var með hámenntaða spænska
skurðlækna og lögfræðinga í
hringferð um landið í sumar. Þó að
þetta væri mjög vel menntað fólk
kunni það ekki ensku. Það eitt að
einhverjir mættu þeim með bros á
vör og byðu kannski góðan daginn á
spænsku breytti rosalega miklu fyrir
upplifun þeirra. Ég er ekki að tala
um að þjónustufólkið þurfi að vera
altalandi á spænsku, heldur geti bara
aðeins bjargað sér.
Á þeim stöðum þar sem þjónustu-
fólkið gat bjargað sér með einfalda
hluti og hafði aðeins kynnt sér
menningu Spánverja var þetta allt
annað. Bara bros og það eitt að passað
er upp á að alltaf sé heimabakað brauð
á borðinu og að það sé alltaf eftirréttur
með máltíðum skiptir Spánverjana
gríðarlegu máli. Þetta eru smáatriði en
gera samt ótrúlega mikið til að hafa
viðskiptavinina ánægða. Það er því
afar mikilvægt að vita hvað það er
sem gerir gesti af ólíkum þjóðernum
ánægða. Þetta eru atriði sem hægt er
að gera mikið í að bæta með þjálfun
starfsfólks og rekstraraðila. Þarna
gætu Samtök ferðaþjónustunnar
virkilega lagt áherslu á að kippa
hlutunum í liðinn.“
Hlustaðu á kúnnann, þér kemur
við hvað hann segir
„Ég er með ráðgjöf í alþjóðamálum
og eftir að hafa kennt menningarlæsi
í mörg ár sé ég hvar skórinn kreppir í
þessum efnum hér á landi. Í kennslu í
ferðamálafræðum skiptir miklu máli
að fólki sé kennt að lesa kúnnann
og að það geti bjargað sér eitthvað á
mörgum tungumálum.
Það er ekki nóg að gistihúsin séu
flott, rúmin góð og dýnan af ákveðinni
þykkt, heldur þarf hugmyndafræðin í
rekstrinum að snúast um að veita góða
þjónustu. Við þurfum að skilja við
kúnnann þannig að hann vilji koma
aftur og sé tilbúinn að segja öðrum
frá því hvað þjónustan hafi verið góð.
Það sitja enn í mér orð sem
spænskur sendiherra sagði við
komuna til Íslands í vor. Hann
undraðist hversu mikil áhersla væri
lögð á að laða hingað mikinn fjölda
ferðamanna. Hann sagði um leið að
við yrðum að passa okkur á því að
eyða ekki orkunni í að koma upp
ódýrum túrisma, heldur að passa upp
á að mennta fólkið okkar vel í að sinna
ferðaþjónustunni. Þá væri oft betra að
vera með minna umfang en að sama
skapi meiri gæði þjónustunnar.
Lykilsetningin er; hlustaðu á
kúnnann, þér kemur við hvað hann
segir.“
Fyrirtækin beri samfélagslega
ábyrgð
„Við verðum aldrei rík á ferðaþjónustu
á einni nóttu. Því verðum við að
passa okkur á því að lenda ekki í því
sama og við höfum séð mistakast
hjá öðrum. Það getum við t.d. séð
á Spáni þar sem gerð hafa verið svo
ótrúlega mörg mistök sem við getum
lært að koma í veg fyrir. Nú eru þeir
t.d. búnir að átta sig á því að það
versta sem bæjarfélög geti lent í sé
að fá hótel í rekstur sem sé með allt
innifalið í pakkasölu til kúnnanna.
Slíkt drepi einfaldlega niður alla
litlu staðina í kringum hótelið og
lífið í bænum um leið. Annað slæmt
sem Spánverjar hafa upplifað er
innkoma stórra erlendra hótelkeðja
sem eru með höfuðstöðvar í öðrum
löndum. Slík fyrirtæki ryksjúga allt
fjármagn sem inn kemur úr landi. Við
þurfum því að vera mjög hörð á að
ferðaþjónustufyrirtækin sem fá leyfi
til að starfa hér beri samfélagslega
ábyrgð í þeim byggðarlögum sem
þau starfa í.“ Gott dæmi um slík
mistök er miðbærinn í Alicante á
Spáni, borg sem Íslendingar þekkja
vel. Augljóst er að peningarnir sem
streyma inn á Benidorm skila sér
ekki til bæjarfélagsins heldur fara
allt annað.
Gerum hlutina vel og aukum
snyrtimennsku
„Við þurfum að hugsa þannig að
við séum að tjalda til langs tíma og
fjárfesta í framtíðinni. Þá er yfirleitt
betra að fara sér hægar, gera minna í
einu, en gera það vel þannig að eftir
verði tekið og um talað. Það er líka
eitt sem verður að gerast, ekki síst í
sveitum landsins, að tekin verði upp
aukin snyrtimennska, því hún laðar
að og er í takt við okkar hreina og
fagra land,“ segir Margrét Jónsdóttir
Njarðvík.
/HKr.
Sólarlag í þorpinu Zafra í Extremadura á Spáni.
Með spænskum ferðamönnum um borð í hvalaskoðunarbát á Húsavík.
Klaustrið sem Margrét nefnir og gestir Mundo gista í á Spáni.
Er þetta ekki flott?
Til sölu hinar sérstöku súlu-Blæaspir, 2-3 m
háar. 30 ára reynsla af þeim hér á landi.
Þurfa lítið rými og henta vel sem stakstæð tré.
Einnig hengibirki og vörtubirki frá N-Noregi
og ýmsar aðrar öðruvísi plöntur. Alaska aspir 2-3 m
(Sælandsaspir, keisaraaspir og iðun). Íslenskt birki 2-3 m.
Nú er góður tími til að planta. Grænt-Land Sími: 860-5570
Hausttilboð!
Birkitré 2-3 m. á hæð. Tilboðsverð
v. magnkaup, 10 stk. Eða fleiri.
Grænt Land ehf. - Flúðum
Uppl. í síma 860-5570