Dagblaðið Vísir - DV - 09.02.2007, Qupperneq 35
DV Sport föstudagur 9. febrúar 2007 35
Einar Þorvarðarson, fram-
kvæmdastjóri HSÍ, stóð í ströngu
bak við tjöldin á Heimsmeistaramót-
inu í Þýskalandi. Einar var fararstjóri
landsliðsins, auk þess sem eftirspurn
eftir miðum hefur sjaldan eða aldrei
verið meiri hér heima.
„Við fundum fyrir gríðarlegum
áhuga strax eftir Svíaleikinn og um
leið og var búið að draga í riðla-
keppnina fór að rigna inn fyrirspurn-
um. Það var miklu meira af fólki sem
sótti mótið frá Íslandi en áður hefur
þekkst. Við hér á HSÍ fórum þá á fullt
að aðstoða fólk við að ná í miða og
miðað við uppsetningu mótsins sett-
um við allan þungann í að ná í miða
fyrir fólk á Magdeburgarleikina. Það
tókst og við útveguðum Íslending-
um um 350 miða. Síðan eftir riðilinn
var fullt af fólki sem ætlaði að fylgja
liðinu áfram og það gekk vel að fá
miða í Halle en þegar við spiluðum
við Þjóðverja áttum við í erfiðleikum
með það.
Álagið í kringum þetta var mikið
en við vorum ánægðir með stuðn-
ingsmennina, það fór gott orð af Ís-
lendingunum og við höfum ekki feng-
ið eina einustu kvörtun vegna þeirra.
Stuðningur þeirra var ótrúlega mikill
og ég hef ekki séð jafn mikið af fólki í
kringum liðið.“
Einar er ein af hetjum Íslands frá
því 1989 þegar íslenska liðið vann
B-heimsmeistarakeppnina og lagði
það pólska í ótrúlegum úrslitaleik. Þá
flykktust Íslendingar til Frakklands
þar sem úrslitaleikurinn fór fram.
Einar vill nánast ekki hugsa þá hugs-
un til enda hefði íslenska liðið komist
alla leið í úrslitaleikinn.
„Hefðum við unnið Danina þá
hefði þjóðfélagið hér heima væntan-
lega farið á annan endann,“ segir Ein-
ar og hlær.
„Gallinn var að það var eiginlega
enga miða að fá, það var mikil eftir-
spurn eftir miðum og það seldist hratt
upp á alla leiki. Miðavandamálið
sem við lentum í var fyrst og fremst í
Hamborg og Alþjóðahandknattleiks-
sambandið þarf nauðsynlega að búa
til einhverjar reglur um að það séu
eyrnamerktir miðar fyrir liðin. Við
þurftum að stoppa fullt af fólki sem
ætlaði að koma af því við einfaldlega
gátum ekki hjálpað því.“
Stemmingin á móti Frökkum
einstök
Íslenska liðið lék tíu leiki á HM,
vann fjóra og tapaði sex. Einar var í
eldlínunni úti í Þýskalandi og hann
fékk stemminguna beint í æð.
„Eftir Úkraínuleikinn vorum við á
þröskuldnum að detta út úr keppn-
inni, en það var stórkostlegt að vinna
Frakka. Ég vil meina það að stemm-
ingin í húsinu í Magdeburg á móti
Frökkum hafi verið einstök. Allir
Þjóðverjarnir sem héldu með okkur –
og ég er nokkuð viss að það hafi verið
hátt í 500 Íslendingar á þessum leik.
Þetta var ógleymanleg stund og hef
ég nú farið á þá nokkra handbolta-
leikina. Leikurinn við Frakka sýndi
okkur að þetta lið getur gert ýmislegt
og ég vil meina að þetta hafi verið
besti leikur liðsins í keppninni. Varn-
arlega og sóknarlega.“
Aðspurður um hvernig honum
hafi litist á milliriðilinn, þar sem ís-
lenska liðið mætti Slóveníu, Póllandi,
Túnis og Þýskalandi, segir Einar að
hann hafi haft það á tilfinningunni að
íslenska liðið hefði getað unnið alla
en líka tapað fyrir öllum.
„Við komumst í gegnum Túnis
með góðum síðari hálfleik, Pólverja-
leikurinn var í járnum allan tímann
og hefði getað dottið hvorum megin
sem var, það er kannski helst í þeim
leik sem hægt er að gagnrýna dóm-
gæsluna. Frábært dómarapar sem
dæmdi leikinn en átti alveg skelfi-
legan dag. Síðan á móti Slóveníu
langaði okkur einfaldlega meira en
þá að komast í átta liða úrslit. Það
var þægilegt að við vorum búnir að
tryggja okkur í átta liða úrslit þegar
við mættum Þjóðverjum. Í leiknum á
móti þeim sá ég að þeir myndu fara
langt. Að það væri ekkert lið sem gæti
klárað það lið.“
Höfum ekki nógu jafnan
mannskap
Íslenska liðið endaði í áttunda
sæti, árangur sem er vissulega við-
unandi hjá lítilli þjóð, en að sama
skapi höfum við tvo af bestu hand-
boltamönnum heims innan okkar
vébanda í sjö manna liði. Einnig hafa
heyrst raddir um að árangurinn sé
ekkert til að hrópa húrra yfir.
„Ef maður greinir þetta mót, þá
er þetta lengsta mót sem við höf-
um tekið þátt í. Tíu leikir á tveim-
ur vikum. Fyrir mótið sagði ég að
við myndum eiga í erfiðleikum eftir
áttunda leik við að halda uppi styrk
okkar. Einfaldlega vegna þess að
við höfum ekki nógu jafnan mann-
skap, það voru menn sem náðu ekki
að toppa í Þýskalandi og fyrir vikið
þurfti Alfreð að keyra á burðarás-
um í öllum okkar leikjum. Ég hefði
viljað sjá mann eins og Fúsa (Sigfús
Sigurðsson) miklu öflugri, hann er
kominn með það mikla reynslu og er
það mikilvægur fyrir liðið í vörn en
hann náði sér í raun aldrei á það flug
sem maður vildi. Arnór (Atlason)
átti erfitt uppdráttar og þetta var
ekki hans keppni, en hann er ung-
ur og þetta fer í reynslubankann hjá
honum. Þegar mótið er svona langt
verður mjög erfitt að spila alltaf á
sama mannskapnum. Ég sá þetta
líka á EM í Svíþjóð, það þurfa fleiri
að taka upp hanskann. Við þurfum
að hafa alla 16 leikmenn heila til að
allt gangi upp.
Það sem maður sér líka eftir mót-
ið, er að íslenska vörnin spilaði ekki
nógu vel. Íslenska liðið er það geysi-
lega sterkt hraðaupphlaupslið og ef
við eigum að geta nýtt hámarksgetu
liðsins þá þurfum við að geta var-
ist betur. Varnarleikurinn varð aldrei
eins og ég vildi sjá hann, við fengum
á okkur töluvert mikið af mörkum og
þarna segi ég að við hefðum getað
bætt okkur. Við vorum að spila frá-
bæran sóknarleik allt mótið.“
Framhaldið
Búið er að draga í undankeppni
fyrir Evrópumótið í Noregi sem fram
fer í janúar á næsta ári. Íslending-
ar voru óheppnir í drættinum en við
mætum Serbíu í tveimur leikjum.
Einar segir að verkefni landsliðsins
séu klár og þar ber hæst spennandi
fjögurra landa mót í Frakklandi um
páskana.
„Íslenska liðið leikur á alþjóð-
legu móti í Frakklandi um páskana
þar sem við komum til með að spila
á fjögurra landa móti ásamt heima-
mönnum, Túnisum og Pólverjum.
Það er fyrsta verkefnið síðan á HM.
Deildirnar stoppa og landsliðið verð-
ur saman í viku og við ætlum að nýta
tímann vel. Svo kemur landsliðið aft-
ur saman 3. júní og spilum við tvo
vináttuleiki við Tékka í Tékklandi.
Æfum svo annað hvort í Þýskalandi
eða Tékklandi og förum þaðan til
Serbíu og spilum þar 10. júní. Síð-
ari leikurinn er síðan þjóðhátíðar-
daginn 17. júní. Þarna er undir sæti á
EM í Noregi sem verður í janúar.“ Að-
spurður um getu Serbíu svarar Ein-
ar að Serbar séu sýnd veiði en ekki
gefin.
„Það er fullt af góðum serbnesk-
um handboltaleikmönnum sem
hafa kannski ekki verið að spila mik-
ið með landsliði Serbíu/Svartfjalla-
lands. Ég held að fyrrverandi þjálf-
ari Serbíu/Svartfjallalands hafi valið
fleiri Svartfellinga í liðið af því hann
var Svartfellingur. En margir leik-
menn Serbíu spila með bestu liðum
heims, til dæmis Ilic sem er hjá Alfreð
í Gummersbach og fleirum. Þannig
að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin.“
Alfreð Gíslason lét hafa eftir sér í
viðtölum eftir HM að hann hygðist
hætta með landsliðið. En Einar segir
að hann sé með samning við HSÍ til 1.
júlí 2007 og HSÍ hefur ekki í hyggju að
rifta þeim samningi.
„Við erum með þessi verkefni til
að komast inn á EM, Alfreð er frábær
þjálfari og menn hugsa ýmislegt eftir
stórmót. Menn eru þreyttir og þurfa
að fara í gegnum ýmsa hluti en ég
vona að hann verði tilbúinn og verði
með okkur í gegnum þetta allt til loka.
Alfreð stendur reyndar ekkert einn í
þessu það eru margir sem koma að
íslenska landsliðinu. Það er heilmik-
ið batterí á bak við tjöldin, leikgrein-
ingarmaður eins og Gunnar Magn-
ússon, sjúkranuddarinn Ingibjörg
Magnúsdóttir, læknirinn Brynjólfur
Jónsson og Björgvin Eyjólfsson sem
sér um ýmsa aðra þætti og allt þetta
fólk á svo sannarlega hrós skilið því
það er að vinna frábært starf.“
Gæði hér heima
DHL-deildin hér heima hefur
verið í mikilli uppsveiflu. Deildin er
jöfn og spennandi og fyrirkomulagið
sem HSÍ setti á laggirnar virðist vera
að bera árangur.
„Ég er alveg á því að deildin hér
heima er nokkuð góð. Með þessum
breytingum verður töluverð söfnun
í betri liðin en gæðin hafa klárlega
aukist. Stóra vandamálið er að með-
alaldurinn er lágur. Og leikmenn
sem eru kannski 26–27 ára gamlir
eru farnir að hætta og einbeita sér að
vinnunni. Ef þeir eru ekki orðnir at-
vinnumenn og eiga ekki möguleika á
að komast í landsliðið þá virðist vera
að menn einfaldlega hætti í íþrótt-
inni. En það er mikið af efnilegum
strákum hér heima og Markús Máni
Michaelsson sýndi til dæmis í leikn-
um við Þjóðverja hversu sterkur leik-
maður hann er orðinn, sem og Rol-
and Eradze.
Við erum ekki að komast í gegn-
um norsk eða dönsk lið í Evrópu-
keppni, en þar er líka orðin meiri at-
vinnumennska en hér á Íslandi.
Handbolti á Íslandi er afreksíþrótt,
það er alveg hægt að segja það mjög
ákveðið. Það er ekki verið að reka
þetta hér heima, sérstaklega í efstu
deildunum, sem einhverja afþrey-
ingaríþrótt. Þótt við séum auðvitað
með utandeild og svo framvegis.“
Framtíðin björt
Undanfarin ár hefur HSÍ rekið af-
reksstefnu, tekið inn stráka á aldrin-
um 13–14 ára og sett þá í handbolta-
skóla og 15–16 ára gamlir strákar eru
valdir í landsliðshóp. Einar Hólm-
geirsson hafði til dæmis spilað fjöl-
marga unglingalandsleiki áður en
hann varð A-landsliðsmaður.
„Það er unnið mjög gott starf með
unga leikmenn,“ segir Einar. „Unn-
ið að því að búa til framtíðarlands-
liðsmenn Íslands og þeir fá mikið
af verkefnum þessir strákar og það
mætti segja að við séum að horfa á
kynslóð 16–17 ára stráka sem lofar
virkilega góðu. Tökum sem dæmi
þriðja flokk FH sem hefur náð frá-
bærum árangri á erlendri grund.
Framtíðin er nokkuð björt, við sjáum
fram á að fá mikið af gæðaleikmönn-
um upp en það er líka hægt að benda
á, það sem við innan HSÍ höfum haft
töluverðar áhyggjur af, sem er hæð
og líkamlegt atgervi leikmanna sem
er ekki jafn gott og hjá öðrum þjóð-
um. Það er eitthvað sem við þurf-
um að vinna vel að til að geta keppt
áfram við þessar þjóðir til framtíð-
ar. Markmið okkar er að vera áfram
í topp 10 í heiminum.
Iðkendum hefur fjölgað um 300 á
ári undanfarin ár og við erum fjórða
stærsta sérsambandið eins og staðan
er í dag. Og það er hægt að segja að
það sé unnið mikið og gott starf hjá
félögunum. Það eru færir og góð-
ir þjálfarar hér á Íslandi, það er ekki
spurning.“
Þróun til hins betra
Handbolti hefur þróast mjög
mikið á undanförnum árum og er
það mikið því að þakka að lið geta
nú tekið hraða miðju. Ef horft er á
hinn margfræga úrslitaleik frá 1989
er hægt að sjá breytinguna mjög
greinilega. Sumir vilja meira að segja
ganga svo langt að kalla þetta nánast
aðra íþrótt.
„Það eru lið eins og Pólverjar sem
keyra hraða miðju og spila ákveðið
kerfi beint út úr þessari hröðu miðju.
Íþróttin er orðin miklu hraðari og
maður sér miklu minna af grófum
leikbrotum eins og voru hér áður. Ég
held að það sé ekki spurning að þetta
sé orðin miklu skemmtilegra fyrir
áhorfendur, þetta er mjög góð þróun
því þetta er svo skemmtileg íþrótt,“
segir Einar að lokum.
benni@dv.is
að taka upp hanskann
Þurfa fleiri
Stemming á móti Frökkum Einar hefur farið á margan handboltaleikinn og viðurkennir að stemmingin í Magdeburg á móti Frökkum hafi
verið einstök.
„Það sem maður
sér líka eftir mótið,
er að íslenska vörn-
in spilaði ekki nógu
vel. Íslenska liðið er
það geysilega sterkt
hraðaupphlaupslið
og ef við eigum að
geta nýtt hámarks-
getu liðsins þá þurf-
um við að geta varist
betur.“
„Ég er alveg á því að deildin hér heima er
nokkuð góð. Með þessum breytingum verð-
ur töluverð söfnun í betri liðin en gæðin hafa
klárlega aukist. Stóra vandamálið er að með-
alaldurinn er lágur. Og leikmenn sem eru
kannski 26–27 ára gamlir eru farnir að hætta
og einbeita sér að vinnunni.“