Læknablaðið

Ukioqatigiit

Læknablaðið - 15.02.1988, Qupperneq 16

Læknablaðið - 15.02.1988, Qupperneq 16
42 LÆKNABLAÐIÐ rannsóknir sýnt að fjórar gerðir veirunnar, HPV-6, -11, -16 og -18, finnast í flöguþekjukrabbameinum og forstigsbreytingum þeirra (8). HPV-sýking er líklegur hvati á frumubreytingar (10). Veiruna er ekki hægt að rækta og það beið því nýrrar tækni í sameindalíffrædi, DNA-fjölföldunar (DNA hybridization techniques), að sýna fram á tilvist hennar í þessum sjúkdómum. HPV-6 og HPV-11 finnast í 90% af kynfæravörtum, en HPV-16 finnst í 66% forstigsbreytinga, sérstaklega þeim alvarlegri, og 90% leghálskrabbameina (8). Athygli beinist nú einnig að HPV-18 og mismunandi tengslum þessara veira við æxlisstig (11), svo og því hvort sumar veirusýkingar leiði til skjótari framvindu æxlismyndunar fremur en aðrar (8). Ástæðan fyrir því að þessi flöguþekjusækna DNA-veira veldur krabbameini á einum stað en ekki öðrum, kann að byggjast á mismunandi næmi frumanna sem sýkjast. Forstigsbreytingar á leghálsinum verða á mótum flögu- og stuðlaþekjunnar, sem er svæði þar sem mikil frumunýmyndun á sér stað, sérstaklega á frjósemisskeiði konunnar. Á þessu aldursskeiði koma tímabil, þar sem þekjan verður fyrir aukinni hvatningu östrógena, svo sem á unglingsárum, í þungun og við töku getnaðarvarnapillunnar. Þetta er jafnframt sá aldur þar sem kynlif fólks er virkast og smithætta af sýkli með »heimabyggð« í kynfærum mest. Karlmenn bera því að líkindum sinn fulla hluta ábyrgðar á leghálskrabbameini hjá konum, sem þeir samrekkja. Lýst hefur verið tilvikum af reðurkrabba (cancer penis), þar sem leghálskrabbamein fannst hjá konunni og er áhætta eiginkvenna þessara manna talin þrefalt til áttfalt meiri en hjá viðmiðunarhópnum (12). HPV-16 finnst í kynfæravörtum hjá 2A karla og í helmingi krabbameina á getnaðarlimnum. Veirugenómið er staðsett inni i kjarnasýru hýsilfrumunnar (8). Hjá konunum sjást ekki allar vörturnar með berum augum, en sérstakar frumubreytingar í leghálsstroki (koilocytosis) gefa til kynna tilvist HPV-veira. í þeim tilvikum þarf að framkvæma leghálsspeglun með ediksýrulitun og stundum sýnitöku til vefjagreiningar, til nánari athugunar á því hvort leghálskrabbamein geti verið til staðar. Nauðsynlegt er að meðhöndla bæði karlmanninn og konuna þegar kynfæravörtur finnast og hvetja til þess að konan komi reglulega til leitar að leghálskrabbameini. i ljósi aukningar á forstigsbreytingum hjá yngri konum og viðvarandi tilvikum af leghálskrabbameini hjá þeim konum, sem ekki mæta vel til skoðunar, vaknar spurningin um hvernig eigi að bregðast við: Hvernig á að koma betur í veg fyrir dauðsföll vegna leghálskrabbameins? ísland er kjörið svæði til rannsókna á gildi forvarnaraðgerða af þessu tagi (4). Fyrir tveim árum birtist ritstjórnargrein í Lancet um það hvers vegna mikill fjöldi frumusýna í Englandi og Wales hefði ekki borið tilætlaðan árangur í lækkun dánartölu af leghálskrabbameini. Greinin nefndist »Cancer of the Cervix: Death by incompetence« (2). Skipulagsleysi og dreifing eftirlits þar í landi voru gagnrýnd og meðal annars bent á þann árangur, sem náðst hefur á Islandi með svipaðri tíðni skoðana og tilkostnaði sem dæmi um hvernig betur mætti standa að verki. Bent var á, að til að leitin nái árangri, þurfi hún að vera skipulögð sem samfélagsleg forvarnaraðgerð (public health cancer-control programme), sem hefur það að markmiði að minnka dánartíðni. Frumuskoðunin verður því meira en einungis þjónusta rannsóknarstofu við tilvísandi lækni. Leitin þarf að byggjast á notkun þjóðskrár, vera tölvuvædd, beinast að aldurshópum sem eru í mestri áhættu og reyna þarf að ná til kvenna, sem ekki hafa komið til skoðunar, með endurteknum tilraunum. Þá þarf einhver einn aðili að bera læknisfræðilega ábyrgð á leitinni. Þessi orð hins virta breska tímarits eru rétt. Öll þessi ofangreindu atriði hafa til þessa verið einkenni krabbameinsleitarinnar á íslandi og eru meðal þess sem vakið hefur athygli erlendis. Heilbrigðisyfirvöld áréttuðu fyrri stuðning sinn á síðastliðnu vori í verki með því að fela Krabbameinsfélaginu að sjá áfram um leitina sem eins konar verktaka heilbrigðisþjónustunnar. Leitin verður að vera skipuleg og miðstýrð ef hún á að bera árangur (13). íslenskir læknar verða að sameinast um að halda því svo. Framtak einstakra lækna, bæði sérfræðinga og heilsugæslulækna við sýnatökur frá leghálsi er jákvæður hluti leitarinnar, ef unnið er í samvinnu og samræmi við vinnureglur og ráðleggingar lækna Krabbameinsfélagsins um tíðni sýnitöku og aðrar stuðningsaðgerðir, svo sem leghálsspeglun. Upplýsingar um sýnin verða einnig að berast á einn stað. Að öðrum kosti er hætt við að eftirlit riðlist og vísindaleg úrvinnsla, sem hér má gera betur en annars staðar, fer þá hugsanlega sömu leið. Bæði læknar, en þó

x

Læknablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.