Sveitarstjórnarmál - 01.10.1984, Qupperneq 4
Tillögur endurskoðunarnefndar
Drög að frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga hafa nú séð dagsins ljós, og hafa þau verið send
sveitarstjórnarmönnum til umsagnar. Drögin eru samin af nefnd, sem starfað hefur í 3 ár að þessu
verkefni undir forystu Steingríms Gauts Kristjánssonar, héraðsdómara.
Tillögur nefndarinnar eru m. a. byggðar á ýmsum ályktunum, sem komið hafa frá samtökum sveitar-
stjórnarmanna á liðnum árum, en nefndarmenn hafa einnig kynnt sér vandlega það, sem ritað hefur verið
um sveitarstjórnarlöggjöfina á liðnum árum, og gildandi löggjöf um sveitarstjórnarmál í nágrannaríkjum
okkar.
í fjölmennri nefnd, þar sem auk þess hafa orðið nokkur mannaskipti, eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir
um fjölmörg atriði, en það er eftirminnileg reynsla að hafa tekið þátt í störfum hennar og að hafa fundið,
hvað sjónarmið nefndarmanna hafa nálgazt við ítarlega umfjöllun á nefndarfundum.
Að lokum urðu nefndarmenn sammála um tillögurnar í megindráttum að einu atriði undanteknu, þar
sem ekki náðist samstaða.
Þau sjónarmið, sem nefndin hafði að leiðarljósi í störfum sínum, voru:
1. Að sjálfsstjórn sveitarfélaga verði aukin.
2. Að réttarstaða sveitarfélaga verði jöfnuð.
3. Að stuðlað sé að vald- og verkefnadreifingu.
4. Að sveitarfélögin fái aukið valfrelsi um stjórnarform og verkefnaval.
5. Að saman fari ákvörðunarvald, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð hjá sveitarstjórnum.
6. Að stuðlað sé að stækkun sveitarfélaga.
7. Að stuðlað sé að lýðræðislegum stjórnarháttum við meðferð sveitarstjórnarmála.
Meðal helztu breytingartillagna og nýmæla, sem felast í tillögunum, má nefna:
1. Ákvæði um efni, sem nú er fjallað um í sveitarstjórnarlögum, lögum um sveitarstjórnarkosningar og
lögum um sameiningu sveitarfélaga, eru sameinuð í einum bálki.
2. Ákvæði um samþykki sýslunefnda og ráðuneytis til fjárráðstafana sveitarfélaga eru afnumin.
3. Lágmarksíbúatala sveitarfélaga er ákveðin 100 og gert ráð fyrir, að hún verði komin í 400 um næstu
aldamót.
4. Gert er ráð fyrir, að nýkjörin sveitarstjórn taki við störfum fyrsta dag næsta mánaðar eftir kjördag.
5. ítarleg ákvæði eru sett um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna og um hæfi þeirra til meðferðar
einstaks máls.
6. Ákvæði eru um heimild til að kjósa í almennum kosningum nefndir til að fara með afmörkuð málefni í
hluta sveitarfélags.
7. ítarleg ákvæði eru um fjármál sveitarfélaga, reikningshald og endurskoðun reikninga.
8. Einfaldari ákvæði eru um fjárþröng sveitarfélaga en í núgildandi lögum.
9. Gert er ráð fyrir stækkun sýslufélaga, lagt til, að þau nefnist „héruð“, og verði þau framvegis
vettvangur fyrir lögbundið samstarf og samræmingaraðili um frjálst samstarf allra sveitarfélaga í hverju
héraði, jafnt núverandi kaupstaða og hreppa; í stað sýslunefnda komi „héraðsþing" og „héraðsráð", og
sýslumenn verði ekki lengur sjálfkrafa oddvitar og framkvæmdastjórar sýslufélaga.
10. Ákvæði eru um frjálst samstarf sveitarfélaga og leitazt við að fella það að tilteknum lagaramma.
11. Sérstök ákvæði eru um samskipti ríkis og sveitarfélaga, þar á meðal um samstarfssáttmála þessara
aðila.
Framangreindar tillögur marka tvímælalaust þáttaskil í umræðum um endurskoðun sveitarstjórnarlag-
anna, sem staðið hafa um nokkurra ára skeið.
Það mun ætlun félagsmálaráðherra að byggja frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga á tillögunum og
þeim undirtektum, sem þær fá hjá umsagnaraðilum nú á þessu hausti.
Er það von mín, að sveitarstjórnarmenn fjalli rækilega um tillögurnar og láti frá sér heyra um
niðurstöður þeirrar umfjöllunar.
Björn Friðfinnsson
194 SVEITARSTJÓRNARMÁL