SunnudagsMogginn - 11.12.2011, Síða 35
11. desember 2011 35
Þráhyggjuljóð“ er vélritað á kápu ljóðabókar Ing-unnar Snædal, sem blaðamaður skyggnist eftir áKaffitári. Ekki þarf að leita lengi áður en fjörlegtvink berst frá hressilegu sprundi við eitt borðið;
um leið stendur vinkona upp og kveður. Og blaðamaður
er varla sestur þegar samtalið er hafið. Þannig er skáld-
konan að austan. Aldrei dauð stund ímyndar maður sér.
Kápuna sem klæðir bókina ber fyrst á góma. „Útgefandinn
stakk upp á kápu með traktor framan á. En ég stöðvaði
það: Ókei, ég er úr sveit, en látum traktorinn eiga sig!“
segir hún.
– Titillinn er skrifaður með ritvélarletri – ekki notar
þú ritvél við ljóðasmíðarnar?
„Nei, ég nota nú ekki einu sinni tölvu,“ svarar hún og
hristir höfuðið. „Ég nota bara litla bók.“
Hún leitar í vösunum og dregur svo upp marglita tösku,
þar sem kompan finnst. „Ég á milljón svona bækur, skrifa
allt í þetta og ber þær alltaf á mér, því að mér dettur iðu-
lega eitthvað í hug þegar ég er ekki heima hjá mér.“
– Hvað kveikir hugmyndirnar?
„Óhamingja!“ svarar hún hressilega. „Hún kveikir þær
– og hún virkar líka alltaf. Hefur þú ekki tekið eftir því?“
Og í því stendur Ingunn upp til að sækja eggjabökuna sem
bíður hennar á afgreiðsluborðinu.
– Hvar verður óhamingjan á leið þinni? spyr blaða-
maður er hún sest aftur.
„Hingað til hefur mér gengið best,“ svarar hún og dæsir,
„þegar mér líður illa. Þá er ég að hugsa og velta fyrir mér
hlutum, það hjálpar mér að skrifa þá niður, og ég skrifa
heilu handritin að samræðum sem ég á við annað fólk um
það sem mig langar til að segja en segi aldrei – af því að ég
er svo mikil gunga! Þegar ég skrifaði fyrstu bókina og
sendi handritið í keppni var það vegna þess að ég var orðin
leið á sjálfri mér og lífinu, af því að ég gerði aldrei neitt
með skrifin. Ég uppskar verðlaun Tómasar Guðmunds-
sonar og hef haldið uppteknum hætti síðan, skrifað um
lífið eins og það blasir við mér. Ég er með minn útgefanda
og samt er ég með hnút í maganum í hvert skipti sem ég
sendi henni handrit, að hún segi við mig að enginn nenni
að lesa þetta – en hún segir alltaf að þetta sé flott og fínt.“
Hún hugsar upphátt.
„Reyndar er það alveg spurning hvað fólk nennir lengi
að lesa um mína persónulega angist. En maður verður að
vera trúr sjálfum sér.“
– Sækirðu í smiðju annarra höfunda?
„Nei, en ég dáist að mörgum af þessum eldri skáldum,
ég nefni sem dæmi Þorstein frá Hamri, ég vildi geta ort
eins og hann. En ljóðin mín eru ekki þannig, þau eru dæg-
urmálanútímapopp, en með alvarlegum undirtón. Ég get
ekki ort eins og neinn annar. Ég hugsa oft þegar ég ber
mínar bækur saman við annarra: Djöfull er þetta klént hjá
mér. – En ég vil samt gera ljóð á minn hátt.“
– Og þráhyggja hnýtir ljóðin saman?
„Þráhyggja er nokkuð sem við þekkjum öll. Það getur til
dæmis falist í því hvernig maður tekst á við höfnun, hvort
sem er í einkalífi eða vinnu. Og ég bregst við höfnun með
þráhyggju! Þegar við vinkonurnar tölum saman ráðleggja
þær mér kannski að taka þetta á kúlinu: „Nú hefurðu ekk-
ert samband við hann!“ Ég tek kannski undir það, en áður
en ég veit af er ég komin í símann. Svona erum við allar.
Sumar eru reyndar farnar að vera með símaöryggisventil,
þannig að áður en þær senda SMS, þá bera þær það undir
að minnsta kosti þrjár vinkonur. Það minnkar líkurnar á
að gera afdrifarík mistök. En það virkar ekki á mig. Ég sýni
kannski vinkonum mínum skilaboðin og þær grípa and-
ann á lofti og segja: „Nei, ertu klikk!?“ En ég sendi þau
samt! Ég hef brjálaðan húmor fyrir því hvað
ég get verið ömurleg. Það er ein leið til að
takast á við lífið.“
Hún fær sér bita af eggjabökunni.
„Segðu mér að þú kannist ekki við
þetta,“ bætir hún við og hlær. „Ég veit ekki
um ykkur strákana. En núna erum við
flestallar fráskildar, það er að hefjast nýr
kafli og hann er ótrúlega svipaður þeim
fyrsta!“
– Ljóðin taka á spennunni milli sveitar
og borgar?
„Já, ég er úr sveit, ólst upp í sveit til 16 ára aldurs og
flutti þá til Reykjavíkur. Það brennur á mér að sætta þetta
tvennt. Stundum upplifi ég ótrúlega dreifbýlisfordóma í
Reykjavík og svo kem ég í sveitina og þá eru sömu for-
dómar gagnvart þessu liði fyrir sunnan.
Einhvern veginn tilheyri ég báðum samfélögum, maður
fer suður í skóla, af því að þannig er það bara, og svo þegar
komið er austur í frí, þá er spurt: „Hlakkarðu ekki til að
koma heim?“ Ef maður svarar: „Það er bara fínt að vera í
Reykjavík“ verður fólk eitt spurningarmerki – það á ekki
að vera fínt að vera í Reykjavík!
Svo þegar komið er til Reykjavíkur, þá er spurt: „Hve-
nær ætlarðu eiginlega að flytja í bæinn?“ Það er erfitt að
útskýra það fyrir vinkonum sínum sem hafa alist upp í
Vesturbænum, að ég sé frá jörð sem fjölskylda mín hefur
átt í hundrað ár og gengið hefur mann fram af manni. Það
er bæði bölvun og blessun. Þær ólust kannski upp í íbúð í
Vesturbænum, sem er löngu búið að selja. Mér fyndist ég
óttalega rótlaus ef ég væri úr einhverri óskilgreindri íbúð í
Vesturbænum, en það hefði líka sína kosti. En mig langar
til að skrifa um sveitina, kannski af því að færri þekkja
hana. Núna eru allir Reykvíkingar.“
Hún lítur í kringum sig í þessu hjarta borgarinnar, 101.
„Það þyrftu eiginlega allir að prófa að búa úti á landi, að
minnsta kosti einn vetur. Það er erfitt að lýsa því fyrir fólki
sem ekki hefur reynt það. Stemningin er allt önnur. Margt
hryssingslegra.“
– Og nærgöngulla?
„Hver og einn kemur nær þér og þú veist óþarflega
mikið um nágranna þína, meira en ef þú byggir í Reykja-
vík. Þeir vita líka meira um þig, svo telja menn sig líka vita
hitt og þetta! En ég byggi ekki þar nema af því að ég nýt
þess. Einn aðalkosturinn við að búa úti á landi er að maður
skiptir raunverulega máli. Í Reykjavík skiptir engu máli
hvort maður sækir dansnámskeið í Kram-
húsinu, en fyrir austan þurfa allir að vera
með á dansnámskeiðinu, annars fellur það
niður! Og merkilegt nokk, þá felst í því
tækifæri til að umgangast fólk af fjöl-
breyttara tagi. Í Reykjavík umgengst
maður bara sína líka, en úti á landi er flór-
an fjölbreyttari, bæði aldur og störf.“
– Orðaforðinn er líka annar í Jök-
uldalnum?
„Já, það eru allt önnur orð notuð um
hlutina þar og það væri raunar spennandi
rannsóknarefni. Lúði í kirkjugarðinum er til dæmis gras-
órækt og ræfill í fjallinu þýðir lítill snjór.“
– Og þú lifir auðvitað á skriftum?
„Ertu brjálaður!“ svarar hún agndofa. „Nei ég er kenn-
ari. Allt tal um metsöluljóðskáld er skemmtilegt, en ljóða-
bækur seljast ekki í mörg þúsund eintökum. Eins og hinir
rithöfundarnir segja: Farðu nú að skrifa skáldsögur. Nei,
nei, nei, engan veginn. Ég er kennari og berst eins og aðrir
við að ná endum saman, einstæð móðir í láglaunastarfi og
skrifa mest á kvöldin þegar ég er að reyna að sofna eða get
ekki sofnað, því að ég er í svo mikilli angist.“
Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið …
Ingunn Snædal
Dægurmálanútímapopp
’
Það þyrftu
eiginlega
allir að
prófa að búa úti
á landi.