Morgunblaðið - 23.07.2012, Side 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. JÚLÍ 2012
BAKSVIÐ
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Við erum komin með nokkuð góða
mynd af því hvernig verbúðir voru á
fimmtándu öld,“ segir Lilja Björk
Pálsdóttir fornleifafræðingur sem
stjórnar rannsókn á mannvirkjum
við Gufuskálavör á Snæfellsnesi. Ef
vísbendingar sem fram hafa komið
um aldur hússins verða staðfestar
við frekari rannsóknir er þetta
fyrsta verbúðin frá fimmtándu öld
sem grafin er upp í heilu lagi hér á
landi.
Mikið útræði var frá Gufuskálum
og stóð að minnsta kosti frá þrett-
ándu öld og fram á þá tuttugustu.
Miklar minjar eru á svæðinu og
langt upp í hraun en þær hafa lítið
verið rannsakaðar. Ekki er vitað um
byggingartíma hverrar byggingar
eða hlutverk.
Verbúðahólarnir eru við sjóinn og
minjarnar hafa verið í hættu. Þess
vegna er rannsókn Lilju Bjarkar og
samstarfsfólks hennar björgunar-
uppgröftur sem unninn er í kappi við
náttúruöflin.
„Okkur datt aldrei í hug að þessir
sandhólar væru annað en sandhólar
sem hefðu orðið til vegna tilflutnings
á landi. Það kom mér að minnsta
kosti á óvart að sjá þessar minjar
koma í ljós,“ segir Skúli Alexand-
ersson, fyrrverandi alþingismaður
og oddviti á Hellissandi og áhuga-
maður um sögu svæðisins, en hann
hefur fylgst grannt með rann-
sóknum fornleifafræðinganna og
stutt þá með ráðum og dáð.
Aukið við þekkinguna
Á síðasta sumri var grafinn könn-
unarskurður í einn verbúðahólinn og
var haldið áfram að rannsaka hann í
sumar. Inngangurinn er fundinn í
rofsárinu og bendir það til þess að
húsið sé inni í hólnum. Stóra verk-
efnið í sumar var þó að grafa upp
mannvirki í öðrum hól og reyndist
það vera verbúð sem Lilja hefur vís-
bendingar um að sé frá fyrri hluta
fimmtándu aldar. Hún hefur þá
væntanlega verið byggð í tengslum
við skreiðarverkun og sölu afurð-
anna til Evrópu. Lilja á þó eftir að fá
tilgátu sína sannreynda með frek-
ari aldursgreininum.
Búið hefur verið í hús-
inu, þar er eldhús og herbergi sem
dvalið hefur verið í og eitt herbergi
til viðbótar sem eftir er að rannsaka.
„Þetta hús hefur nokkur bygging-
arstig. Þannig hefur verið hlaðið fyr-
ir inngang og bætt við nýjum og
hlaðið við húsið,“ segir Lilja. „Með
þessari verbúð erum við búin að fá
upplýsingar um fyrri hluta starfs-
tíma verstöðvarinnar.“
Nokkur lög eru í gólfinu, þunn lög
með sandi á milli en undir eru þykk
jarðvegslög sem Lilja segir benda til
þess að fólk hafi búið í húsinu um
lengri tíma en ekki aðeins dvalið þar
á vertíð.
Það kom Lilju einna mest á óvart í
sumar að sjá hversu vel húsið hefur
varðveist í nábýli við náttúruöflin.
Veggirnir hafa staðið ótrúlega vel.
Telur hún að sandurinn sem fokið
hefur fljótt inn í húsin og yfir þau
eigi sinn þátt í því.
Lilja segir að ef tilgáta hennar
reynist rétt sé þetta fyrsta íslenska
verbúðin frá fimmtándu öld sem
grafin er upp í heilu lagi. Með rann-
sókninni sé því verið að auka mjög
við þekkingu á verstöðvum fyrri
alda.
Flestir munirnir sem fundist hafa
í sumar tengjast sjósókn, svo sem
önglar, vaðsteinar og fiskisleggjur.
Þá hafa verið að koma upp litlir
prjónar úr koparblöndu, heilir. Ekki
er vitað um not þeirra en væntan-
lega tengjast þeir fatnaði kvenna.
Áður hefur komið fram að forn-
leifafræðingarnir fundu ófullgerðan
tening úr rostungstönn. Lilja Björk
segir þetta dýrt efni og veltir því fyr-
ir sér hvort fólk sem bjó þarna hafi
haft efni á slíku hráefni til að smíða
sér hluti eða hvort eigandi verstöðv-
arinnar hafi lagt það til og starfs-
fólkið unnið við framleiðslu muna
þegar ekki gaf á sjó.
Skrá minjar við ströndina
Fornleifastofnun Íslands vinnur
að rannsókninni í samvinnu við
Cuny-háskóla í Bandaríkjunum,
Stirling-háskóla í Bretlandi, Forn-
leifavernd ríkisins og Þjóðgarðinum
Snæfellsjökul. Verkefnið nýtur
styrks bandarísks vísindasjóðs.
Uppgreftri sumarsins er lokið og
segir Lilja að nú taki við úrvinnsla
úr gögnum sumarsins.
Lokaverk hópsins var að mæla
mannvirkin sem grafin voru upp og
skrá. Í fyrra voru mæld upp og
skráð tæplega 50 mannvirki í bæjar-
hólnum og verbúðahólunum auk
þurrabúða. Lilja hefur áhuga á að
láta skrá minjar við strandlengjuna
til að fá betri heildarmynd af ver-
stöðinni og hversu stór hún hefur
verið.
Tryggt er fjármagn til rannsókna
í tvö ár til viðbótar. Stefnt er að því
að skoða betur þau mannvirki sem
grafið hefur verið í og liggja undir
skemmdum. Einnig er ofarlega á
dagskrá að rannsaka minni mann-
virki, reiti sem væntanlega hafa ver-
ið notaðir til að skipta aflanum og
vinna fiskinn.
„Eftir því sem ég hef skoðað þetta
svæði betur hef ég séð hvað mikið er
af ólíkum minjum og hvað lítið er
vitað um þær,“ segir Lilja.
Fyrsta 15. aldar verbúðin
sem grafin er upp í heilu lagi
Verbúð sem talin er frá fyrri hluta fimmtándu aldar fannst við fornleifarannsóknir við Gufuskála-
vör á Snæfellsnesi í sumar Innihald verbúðahólsins við sjóinn kom heimamönnum á óvart
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Verbúð Það kom fornleifafræðingum á óvart að finna heillega verbúð inni í sandhólnum. Lokið verður við að rann-
saka mannvirkið næsta sumar. Mikið útræði var frá þrettándu öld og fram á þá tuttugustu.
Stjórnandi Lilja Björk Pálsdóttir
fornleifafræðingur við mælingar.
„Það er óskaplega mikils virði að
grafa þessi mannvirki úr jörðu og
leiða líkur að því hver byggði þau
og hvernig þau voru notuð,“ segir
Skúli Alexandersson. Hann segir
mikilvægt að verja minjarnar og
halda áfram að rannsaka þær.
„Á sama tíma og grafið er upp
mætti athuga hvort sambærileg
mannvirki og fiskbyrgin eru á Ír-
landi og skosku eyjunum og hvort
þessi mannvirki í hrauninu eru
kannski allt annað en fisk-
byrgi,“ segir Skúli. Hann
er að ræða um leifar tæp-
lega 200 mannvirkja
sem eru í hrauninu
ofan þjóðvegarins,
fiskbyrgin sem talin
hafa verið notuð til
að geyma og þurrka
fisk. Skúli segir eng-
ar sagnir um svo stóra
verstöð á Gufuskálum
en hugsanlegt að eig-
endur jarðarinnar á einhverjum
tíma, Sturlungar, kirkjan eða kóng-
urinn, hafi byggt fjölda fiskbyrgja
en aldrei komið þeim í notkun. Þá
rifjar hann upp kenningar um að
þetta kunni að vera forn papa-
byggð og vill að sá möguleiki verði
einnig kannaður.
Til tals hefur komið að láta verja
minjarnar. Kristinn Jónasson bæj-
arstjóri segir að við rannsóknirnar
hafi komið í ljós það mikil menn-
ingarverðmæti að full ástæða væri
til að athuga það. Hann vísar á sér-
fræðinga um það hvernig best
væri að haga því en segir sjálfur að
vel sé hægt að bjarga þeim frá
sjónum með varnargarði.
Jafnframt hefur komið til tals
að hafa verbúðirnar opnar. „Það
væri gaman að byggja þetta upp
og tengja ferðaþjónustunni. „Það
gefur minjunum mun meira gildi
að hafa þær fólki aðgengilegar,“
segir Kristinn.
Vilja verja minjarnar
og sýna gestum
GUFUSKÁLAVÖR Á SNÆFELLSNESI
Skúli
Alexandersson
Verð á metaneldsneyti hækkaði síðastliðinn
föstudag um 18 krónur á hvern rúmmetra.
Þannig kostaði einn rúmmetri af metani 131
krónur fyrir hækkunina en nú kostar hann
149 krónur.
Eggert Þór Kristófersson, framkvæmda-
stjóri fjármálasviðs N1, segir ástæðuna vera
nýjan samning á milli fyrirtækisins og
Sorpu, sem framleiðir metanið. „Nýr samn-
ingur var gerður 20. júlí á milli N1 og Sorpu
sem, sem selur okkur metanið. Verðið til
okkar hækkaði talsvert í þessum samningi
og þarafleiðandi hækkar verðið á dælunni.“
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri
FÍB, segir þetta vera aðra verðhækkunina á
metani á stuttum tíma. „Verðið hækkaði
einnig núna í vor, þá var töluvert mikil
hækkun. Á síðastliðnum tveimur árum hefur
verðið hækkað um tugi prósenta,“ segir
Runólfur.
Hækkar vegna aukinnar eftirspurnar
Að sögn Björns H. Halldórssonar, fram-
kvæmdastjóra Metan hf. og Sorpu bs., á
hækkunin rætur sínar að rekja til aukinnar
eftirspurnar eftir metani „Eftirspurnin er
orðin það mikil að við þurfum að auka fjár-
festingu til þess að anna henni,“ segir Björn
og bætir við: „Þetta er dæmigert fyrir fram-
boð og eftirspurn. Það er auðveldast og
ódýrast að ná fyrstu dropunum og svo verð-
ur það erfiðara eftir því sem meira er sótt
á.“
Aðspurður hvernig fjárfestingar sé um að
ræða segir Björn: „Við þurfum að fara hrað-
ar í söfnunarkerfið og auka hreinsigetuna í
hreinsistöðinni okkar.“
Hann bendir á að þótt verðið á metani
hafi nú hækkað um 18 krónur þá sé það
ennþá um 30% ódýrara en bensín. Spurður
út í hækkunina sem átti sér stað í vor segir
Björn að þá hafi verið um ræða vísitölu-
hækkun. skulih@mbl.is
Metanverð hækkað tvisvar á stuttum tíma
Aukin eftirspurn og nýjar fjárfestingar eru
sagðar vera ástæður nýjustu hækkunarinnar
Morgunblaðið/Frikki
Metan Nýlega hækkaði rúmmetraverð á met-
an eldsneyti um 18 krónur á einum degi.