Morgunblaðið - 15.10.2012, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 15.10.2012, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 15. OKTÓBER 2012 ✝ Níelsína ÁstaJónsdóttir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 21. apríl 1922. Hún lést á LSH í Fossvogi þann 8. október síð- astliðinn. Foreldrar henn- ar voru Jón Guð- mundur Jóhanns- son, f. 13.6. 1883, d. 28.4. 1954 og Guð- rún Gísladóttir, f. 18.10. 1883, d. 3.1. 1946, Lækjartungu í Dýra- firði. Systkini Ástu voru 12, ein hálfsystir, Guðmunda, samfeðra, alsystkini hennar voru Gíslína Sigrún, Jóhanna Þorbjörg, Jó- hann Helgi, Björn, Gísli, Sigríð- ur, Guðmundur, Elísabet Stein- unn, Jóhannes Helgi, Ósk, og Kristján. Ósk lifir systkini sín. Ásta eins og hún var alltaf kölluð, kvæntist árið 1952 Daníel G. Guðmundssyni frá Bíldudal f. 10. ágúst 1916, d. 22. mars 2005. Bjuggu þau hjónin fyrst í Reykja- vík en lengst af í Kópavogi. Börn þeirra eru tvö: Þorbjörn Daní- elsson, fluggagnafræðingur, kvæntur Önnu Jónu Guðjónsdóttur, sjúkraliða, og eiga þau sex börn. Guð- rún Daníelsdóttir, skurðhjúkr- unarfræðingur, áð- ur gift Herði Reim- ari Óttarssyni iðnaðarmanni og eiga þau þrjú börn. Barnabörn Daníels heitins og Ástu heit- innar eru níu talsins og barna- barnabörnin eru níu. Ásta ólst upp að Lækjartungu á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún fluttist svo til Reykjavíkur og vann ýmis störf, m.a. á Hvíta- bandinu, en eftir að þau Daníel stofnuðu heimili vann hún að mestu við heimilisstörf en sein- ustu ár starfsævinnar hjá Sölu- félagi garðyrkjumanna. Ásta tók þátt í félagsstörfum og starfaði í Styrktarfélagi lamaðra og fatl- aðra í mörg ár. Útför Ástu verður gerð frá Kópavogskirkju mánudaginn 15. október 2012 og hefst athöfnin kl. 13. Ég er þakklát fyrir að hafa átt elsku ömmu mína, sem var ekta amma barnabarna sinna. Ég minnist allra þeirra skipta sem ég gisti hjá ömmu og afa sem barn. Amma var alltaf tilbúin að spila á spil og það var mikils virði fyrir spilasjúkling eins og mig. Við fengum að vaka lengi frameftir, horfa á laugardagsbíómyndina og svo á síðustu myndina á skjánum sem var mynd frá einhverjum kaupstað eða af landslagi og amma og Ósk frænka voru að giska hvar þetta var. Það var svo notalegt alltaf að fá kvöldkaffi hjá ömmu, enda mátti maður aldrei fara svangur í rúmið. Mikið var hlýtt og notalegt að fá að sofa uppi í hjá ömmu. Svo má ekki gleyma morgun- og kvöldbænunum sem amma fór alltaf með ásamt því að signa okkur, það var dýrmætt. Ég man alltaf eftir 7 ára afmælisdeginum mínum þegar ég fékk að gista hjá ömmu og afa. Ég vaknaði um morguninn og fékk fyrsta úrið mitt, rauða úrið sem ég á enn í dag. Og svo var svolítið gott að vera fylgt af afa í skólann þenn- an morgun. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu og afa. Þegar við komum á sunnudögum man ég eftir hversu notalegt það var að liggja á gólfinu og horfa á Stund- ina okkar og Húsið á Sléttunni á meðan matarilmurinn fyllti vitin. Það var líka notalegt að koma sem unglingur og fá að henda sér á beddann og næla sér í bráðnauð- synlegan unglingalúr. Ósjaldan sagði amma mér að næla mér í eina kók frá afa úr ísskápnum, en afi átti alltaf lager af lítilli kók í gleri. Amma gerði heimsins besta grjónagraut sem var alltaf í boði í hádeginu á laugardögum og reyndar oftar ef svo bar undir. Hjá ömmu þurfti heldur aldrei að klára matinn til að fá eftirrétt, það voru forréttindi í huga barns. Rommfrómas hennar ömmu gleymist aldrei. Alltaf voru amma og afi tilbúin með sumargjafirnar á sumardag- inn fyrsta. Það var sérlega skemmtilegur siður og mikil spenna að upplifa. Ég var svo lánsöm að fá að upp- lifa það að búa hjá ömmu og afa fyrsta árið mitt í Menntaskólanum í Kópavogi. Það var góður tími og gott að búa í dekrinu hjá ömmu og afa heilan vetur. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa ömmu mína sem hluta af lífi mínu svona lengi, þó svo að ég hafi ekki verið undir það búin að missa hana svona snögg- lega. Það er alltaf skarð þegar fólk fellur frá og ég mun sakna þess að geta ekki kíkt til ömmu eða að hún hringi í mig. En ég ann elsku ömmu hvíldarinnar sem hún var tilbúin að taka á móti og kveð með þakkarljóði fyrir bænirnar hennar sem og með hennar eigin kveðju: „Guð geymi þig!“ Bænin er það fegursta og besta sem í brjósti mínu bærist. Háleitari en sú hugsun sem í höfðinu hrærist. Sem andvörp til himneskrar fegurðar þær flögra. Um loftið þær líða sem friðarins fuglar og brúa þar bil. Hjartað mýkist og sjónarhornið verður í senn skýrara og mildara. Þá kærleikurinn ljúflega mig tekur að aga og benda mér á leiðir sem best er að fara. (Sigurbjörn Þorkelsson.) Þín Helga Magnea. Það eru aðeins örfáir dagar síð- an ég kíkti til þín með Flóvent og við sátum saman og spjölluðum eins og við gerðum svo oft og nú þetta. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja núna, amma. Þú varst stór hluti af mínu lífi og ert enn. Þú hverfur ekki eina stund úr huga mínum. Ég er alveg ofboðslega þakk- látur fyrir að hafa átt þig sem ömmu. Ég er líka alveg ofboðslega stoltur af því. Ég man alltaf eftir því, þegar við komum einu sinni að heimsækja þig á Álfhólsveginn að strákur í götunni kom hlaupandi til mín og spurði hvort þú værir virkilega amma mín. Þegar hann vissi það varð hann svolítið öfund- sjúkur, það vildu allir krakkarnir í götunni eiga þig sem ömmu. Þú varst fullkomin amma. Ég er alveg ofboðslega þakk- látur fyrir þau skipti sem ég gisti hjá ykkur afa. Ég gleymi því aldr- ei þegar ég vaknaði eitt sinn upp úr martröð og þú varst þegar komin og sast hjá mér. Þú spurðir mig hvort ekki væri allt í lagi. Þeg- ar ég sagðist hafa fengið martröð brostir þú bara til mín og sagðir. „Nú jæja, það er sko ekkert vandamál, þegar ég fæ martröð þá sný ég mér nefnilega á hina hlið- ina, því á þeirri hlið dreymir mann bara fallega,“ og svo hummaðir þú mig aftur í svefn. Og alla tíð síðan hefur þetta virkað og nú virkar það líka hjá Flóvent því þú varst ekki bara fullkomin amma, þú varst fullkomin langamma. Ég á ótal minningar frá okkur, amma, frá því þegar ég var barn. Þær eru allar fullar hlýju og líka góðri lykt. Það sem situr hvað fast- ast í minni mínu er hversu gott það var að sitja í fanginu á þér sem barn og faðma þig sem fullorðinn. Ég er líka ofboðslega þakklátur fyrir vinskap okkar þegar ég varð svo eldri. Ég er þér ofboðslega þakklátur fyrir að þú hringdir alla sunnudaga í mig þegar ég bjó einn fyrir norðan með Flóvent. Og þeg- ar þú skammaðir mig fyrir að láta líða of langt milli heimsókna. Ég er svo glaður fyrir allar þær stundir sem við sátum og spjölluðum sem vinir um alls kyns sögur. Sögur um hvernig þið afi kynntust. Um böll, um langömmu og langafa. Ég gat sagt þér frá hlutum sem ég segi vinum mínum og við hlógum sam- an af sögum frá þinni fortíð. Þú varst fullkominn vinur. Ég sakna þín sárt. Ég var ekki tilbúin að missa þig strax, amma. Ég þarf að venjast því að geta ekki komið og heimsótt þig eða fengið frá þér símhringingu. Ég sakna þess að faðma þig og finna lyktina þína sem vakti allar góðu minning- arnar úr æsku. Þú ert í hjartanu mínu og ferð með mér í gegnum endalausar hlýjar minningar. Það er þér að þakka að mig dreymir fallega á nóttinni, hversu dýrmæt- ari gjöf er hægt að gefa? Ég elska þig, amma. Marinó Muggur Þorbjarnarson. Að kveðja ömmu sína er alltaf erfitt, sér í lagi þegar andlátið ber skjótt að. Ekki er langt síðan við fjölskyldan kvöddum móðurömm- una og ekki grunaði mig þá að ég þyrfti að kveðja Ástu ömmu innan skamms. Ég man að ég hugsaði eftir jarðarför Möggu ömmu að ég væri heppin því ég ætti ennþá eina ömmu. Ég hlakkaði til að eiga fleiri ár með Ástu ömmu. En svo verður því miður ekki og hjartað mitt grætur af sorg. Ég er ekki tilbúin að sleppa/kveðja ömmu, ekki enn. Mig langar að hitta hana og Ósk frænku í kaffi á Hrafnistu eins og við gerðum oft. Spjalla um daginn og veginn. Heyra ömmu og Ósk gantast. Amma var góð amma og dugleg að hafa samband. Oft hringdi hún í mig og sagðist vilja sjá mig og krakkana. Mér þótti vænt um þessi símtöl. Oft stoppaði ég með krakkana hjá ömmu á Hrafnistu og við drukkum kaffi. Amma var iðulega með eitthvert góðgæti sem hún laumaði að krökkunum. Þegar ég var lítil var ég oft hjá ömmu. Svaf á milli hjá ömmu og afa. Amma var alltaf að baka eitthvert góðgæti handa okk- ur og grjónagrauturinn hennar var og er sá allra besti. Hjá ömmu lærði ég að meta falleg blóm því oft sendi hún mig út í garð til að klippa blóm í vasa til að setja á eldhús- borðið. Ramfang var uppáhaldið mitt og fékk ég mér það seinna í garðinn minn því það minnti mig alltaf á ömmu. Nú er það ég sem sendi börnin mín út í garð að klippa blóm í vasa. Um ókomna tíð mun ég minnast ömmu þegar ég finn ilminn af ramfangi eða rósum. Amma var með svo hlýjar hendur og ósjaldan hefur hún hlýjað mín- um höndum. Kvöldið sem amma fór í aðgerð- ina var ég hjá henni. Amma var með miklar áhyggjur af mér og að ég væri að keyra seint heim. En ég náði að fullvissa hana um að ég væri ekkert á förum heldur vildi vera hjá henni. Þetta var ömmu líkt. Vorkenndi ekki sjálfri sér og hafði áhyggjur af öðrum. Amma var algjör hetja uppi á spítala. Hún gerði ekki annað en að hæla starfs- fólkinu þegar ég var hjá henni, og hún lét ófá falleg orð falla um okk- ur barnabörnin sem hún sagðist vera svo óendanlega stolt af. Kannski grunaði ömmu að hún væri að fara að kveðja en ef mig hefði grunað það hefði ég aldrei sleppt hendinni hennar. Ég trúi því ekki enn að hún sé farin. Ég var heppin að eiga Ástu ömmu að og hefði ekki valið mér aðra ömmu sjálf. Það er stórt tómarúm í hjarta mínu núna, þar sem amma er sofnuð. En ég hef sem betur fer allar minningarnar ennþá ljóslif- andi í huganum og hlýju orðin sem amma kvaddi mig iðulega með „Guð blessi ykkur“. Já Guð blessi okkur, elsku amma mín, í sorginni og hjálpi okkur að lifa lífinu með enga ömmu. Anna Margrét Þorbjarnardóttir. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að segja henni ömmu minni áður en hún fór í áhættusama að- gerð, að mér þætti vænt um hana. Ég er þó ekki viss um að hún hafi verið að hlusta, því hún var upp- tekin af því að segja mér að hafa ekki áhyggjur af sér. Það sem ég óska að ég hefði gert er að hafa látið verða af því að gefa henni minningar mínar um tímana sem við áttum saman á blaði áður en hún sofnaði. Bréfið myndi byrja svona: Ég vil byrja á því að segja að ég elska þig. Elsku amma, það dýrmætasta sem þú gafst mér fyrir utan pabba minn, er tíminn sem við áttum saman. Þú leyfðir mér að vera hluti af þér í mínum uppvexti. Þú opnaðir heimili þitt, fortíð þína og samtíð fyrir mér. Minningarnar um þig sem mér þykir vænst um áttu sér allar stað þegar ég fékk að gista hjá þér. Hvernig upplifði ég þessar heim- sóknir? Það var yfirleitt einhvern veginn svona: Við vorum komin í bæinn og nú var setið við eldhúsborðið þitt. Stundum hafði ég verið bílveik svo heimsóknin byrjaði á kóki í gleri. Eftir að ég var aðeins búin að jafna mig kom oft í ljós að í ís- skápnum var sérríterta. Þú sagðir að það væri hægt að skrifa það á þig, ef ég yrði alkóhólisti, svo elsk- aði ég þessar tertur. Þegar mamma og pabbi ætluðu að sigla af stað þá var því komið í gegn að fá að gista. Oft gekk það upp. Fyndnast var þegar við spiluð- um hægosa. Þú sást um skemmti- atriðin. Þú varst svo fyndin að ég átti erfitt með mig. Inni í stofu var svo kristalskálin með brjóstsykrinum. Ég reyndi oft eins og ég gat að lyfta lokinu af án þess að í heyrðist en það tókst ekki einu sinni. Svo var það eitt uppáhaldið mitt. Þá lagðist ég á gólfið með lappirnar í kjöltu þína og þú kitl- aðir mig undir fótunum. Ég skil nú hvers vegna þú endaðir daginn alltaf á því að þvo sokkana mína. Tilhlökkunin við að gista lá ekki síst í því hvað yrði í kvöldmatinn. Grjónagrautur, sérútbúinn með engum rúsínum. Amma, ég elskaði að vaska upp með þér í lokin og hlusta á þig segja mér frá því þegar þú varst ung. Þannig fékk ég svo skemmti- lega og heilsteypta mynd af þér. Með þessar sögur í huga horfði ég oft dreymin á myndina af þér sem hékk inni í svefnherbergi. Falleg mynd af ungri konu sem var áreið- anlega á leiðinni á ball, þar sem dansað yrði fram á nótt. Ég naut kvöldgönguferðanna þar sem sögurnar héldu áfram. Að lokum var farið í háttinn undir rúmfötum sem líktust helst rúm- fötum sem sjást aðeins á hótelum og að sjálfsögðu var boðið upp á heimatilbúna sögu sem hafði skemmtanagildi sem og eitthvað gott til eftirbreytni. Mér er efst í huga tröllskessan sem missti af Akraborginni og endaði með mikla tannpínu því hún átti ekki tannbursta. Elsku amma, um leið og ég græt yfir því að þú verður ekki heima þegar ég kem til Íslands næst, eins og ég var svo viss um, vona ég að fá að njóta framtíðar- innar á himnum með þér. Nú kveð ég þig eins og þú varst vön að kveðja mig fyrir svefninn. Elsku hjartans amma: Góða nótt, sofðu rótt, í alla nótt. Guð geymi þig. Amen. Þorbjörg Ásta Þorbjarnardóttir. Níelsína Ásta Jónsdóttir Í dag kveðjum við hana Maríu Pétursdóttur, þá heiðurskonu og fósturömmu, með sorg í hjarta en þó með miklu þakklæti fyrir góð og yndisleg kynni í gegnum árin. Mæja amma var yndisleg kona með stórt hjarta og góðsemina að leiðarljósi og sá alltaf það bjarta og fallega í öllu og öllum. Aldrei man ég eftir að hún hafi nokkurn tíma sagt neitt ljótt eða rætt um aðra manneskju á neikvæðan hátt. Nú þegar Mæja amma er farin á annan stað, þar sem hún hittir Svenna afa sem var henni alltaf svo góður og þau góð hvort við annað, þá renna nokkrar skemmtilegar og fallegar minn- ingar um huga okkar Friðþórs. Aðvitað fyrst allar þær skemmti- legu heimsóknir og hittingar í gegnum árin hjá mömmu og Sæv- ari, en þó eru efst í huga okkar all- ar heimsóknirnar hennar til okkar í Bessahraunið í Vestmannaeyjum þegar við fluttum heim til Eyja um árið. Einn daginn hringir Mæja amma sem hún gerði svo oft og sagðist nú ætla að fá sér göngu og kíkja yfir til okkar. Mikið rok og hellirigning var þennan dag, en þrátt fyrir það og hún þá orðin 83 ára vildi hún ekki sjá það að við myndum sækja hana, ég ætla að ganga til ykkar, ég hef gott af því, sagði hún og gerði. Við vorum nú ansi hrædd við að hún færi ein, en hún vildi nú ekki sjá annað en að fara sjálf, hún væri nú engin elliær og gæti þetta vel, sagði hún með sínum skemmtilega húmor. Tengdafaðir minn hafði ákveðið að kíkja um sama leyti sem betur fer, því þegar hann kemur leiðir hann Mæju ömmu inn til okkar og segir, hvern haldiði að ég hafi nú fundið hangandi hér við einn ljósa- staurinn? Þetta var auðvitað engin önnur en hún Mæja amma, sem sagði strax, þetta var bara ansi hressandi en rokið tafði mig. Ég trúi því að nú svífi þau heið- urshjón um í fallegum dansi, ánægð með endurfundina og hvort annað sem aldrei fyrr. Elsku fjölskylda, megi minning Mæju ömmu og Svenna afa lifa og sá kærleikur sem við fengum að kynnast dafna og styrkjast í fram- tíðinni Ragnheiður (Ragga), Friðþór, Fríða Rún og Ingi Steinn. Elskuleg ömmusystir, María Pétursdóttir eða Maja frænka eins og hún var alltaf kölluð á mínu heimili, er látin. Margs er að María Pétursdóttir ✝ María Péturs-dóttir, hús- móðir í Vest- mannaeyjum, fæddist í Neskaup- stað 8. nóvember 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Vest- mannaeyja 4. októ- ber 2012. Útför Maríu fór fram frá Landa- kirkju 13. október 2012. minnast þegar horft er yfir farinn veg en það sem eftir stend- ur er þakklæti fyrir að hafa átt því láni að fagna að eiga hana að. Það var eftir- minnilegt fyrir mig sem ungan dreng að koma til Vestmanna- eyja, eigandi þar stóran frændgarð þar sem heimsóknir á Brimhólabrautina voru sérstakt tilhlökkunarefni. Ég sé Maju fyrir mér með opinn faðm og bros á vör, umkringda stórum barnahóp og Svenna sinn sér við hlið. Maja var fædd í Neskaupstað 8. nóvember 1923, yngsta barn lang- afa míns og langömmu af tólf sem komust á legg. Öfugt við flest eldri systkini sín naut hún þeirrar gæfu að fá að alast upp hjá foreldrum sínum í Garðshorni. Þannig hátt- aði til að móðir mín og amma bjuggu í næsta húsi og var nábýli mikið. Lítill aldursmunur var á þeim frænkum og ríkti ávallt vin- semd og væntumþykja í samskipt- um þeirra. Örlög réðust þannig að báðar fluttu þær til Vestmanna- eyja, eignuðust þar fjölskyldur og var samgangur alltaf mikill. Eig- inmaður Maju, Sveinn Matthías- son lést fyrir mörgum árum en hjónaband þeirra einkenndist af einstöku ástríki og samheldni. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um frænku mína en hún átti auðvelt með að gleðjast yfir velgengni annarra. Þegar á móti blés hélt hún ætið reisn og studdi við bakið á sínu fólki. Aldrei heyrði ég Maju hallmæla nokkrum manni og fór ávallt betri maður af fundi við hana. Ég kveð Maju frænku með þakklæti fyrir þá hlýju og vænt- umþykju sem hún sýndi mér og mínum alla tíð. Við hjónin og börn okkar vottum aðstandendum hennar innilega samúð. Sigurður Guðjónsson. Góð kona og ekki hvað síst góð- ur nágranni, hún Maja, er farin frá okkur. Í bernskuminningunni er Brimhólabrautin besti staður í heimi. Og hvað sem aðrir um það segja, þá teljum við að textinn „Gamla gatan“ eftir Ása í Bæ sé saminn um þann dýrðarstað. Þar undu saman góðir grannar og þar voru leikir og söngur. Hún Maja fékk sinn skammt af erfiðleikum í lífinu, en söngurinn og einlæg trú á allt hið góða hjálp- uðu henni. Hún söng burtu erfið- leikana og hún söng til sín gleðina. Hún Maja söng með sinni hlýju, fallegu rödd og allt varð bjart og gott í kringum hana. Það var því svo sannarlega gott og Guði þægt verk, þegar eitt okkar systkin- anna fékk hana til þess að koma og syngja í Kór Landakirkju. Það hefði hún átt að gera miklu fyrr. Kæru vinir, krakkarnir á Brim- hólabraut 14, Guð blessi minn- inguna um hana Maju okkar. Systkinin á Brimhólabraut 13, Hjálmar, Ólafur, Sigurjón, Guðni og Sigrún. Að skrifa minningagrein Ekkert gjald er tekið fyrir birtingu minningagreina. Þær eru einnig birtar á www.mbl.is/minningar. Skilafrestur minningagreina er á hádegi tveimur virkum dögum fyrir útfarardag, en á föstudegi vegna greina til birtingar á mánudag og þriðjudag. Fjöldi greina í blaðinu á útfarardag ræðst af stærð blaðsins hverju sinni en leitast er við að birta allar greinar svo fljótt sem auðið er. Hámarkslengd minningagreina er 3.000 tölvuslög með bilum. Lengri greinar eru vistaðar á vefnum, þar sem þær eru öllum opnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.