Monitor - 19.12.2013, Blaðsíða 13

Monitor - 19.12.2013, Blaðsíða 13
D egi fyrir áramót gefst dans- þyrstum almúganum síðasta tækifæri ársins til að dansa af sér tærnar á tónleikum Retro Stefson, Sísí Ey og Hermigervils. Þau Elísabet (Sísí Ey), Unnsteinn (Retro Stefson) og Sveinbjörn (a.k.a. Hermigervill) eru reyndar á því að Síðasti sjens sé frekar tónlistarhátíð en einfaldir tónleikar enda verði mikið um dýrðir í Vodafone–höllinni 30. desember. Blaðamaður Monitor tyllti sér með tónlistarfólkinu á Sushi Samba og skeggræddi hátíðarnar, ferðalög og árið sem er að líða. Hvernig leggst desember í ykkur? E Rosalega vel. U Já, mjög vel. Ég var að klára Jólagesti Bó og það var eins og adrenalínsprauta af jólum. Það var alveg geggjað að vera í svona mega „show-i“. Það kom mér í gírinn. Hvað með ykkur hin? Hvenær komist þið í jólaskap? E Jólin byrja hjá mér þegar ég fer á jólatónleika með Borgardætrum. Ég er samt alveg í jólaskapi þangað til en það brýst betur fram á þessum tónleikum. S Jólaskapið byrjaði eftir afmælið mitt í nóvember. Það gerir það alltaf. Jólin eru best! Er mikið að gera hjá ykkur í tónlistinni í kringum jólin? E Það er misjafnt. S Þú (Unnsteinn) ert alltaf með heilt jólaprógramm. U Já já, en eins og í fyrra þá vorum við að gefa út plötu og þá var brjálað að gera. Þá vorum við að árita allar helgar í desember í nokkrum verslunarmiðstöðv- um en núna erum við bara að kynna Síðasta séns. Það er mjög fínt að tóna þetta aðeins niður en á næsta ári kemur kannski ný plata og þá verður eflaust aftur brjálað að gera. Í kringum jólin er oft eins og ákveðnir tónlistarmenn spretti upp úr gleymskunni og verði það allra vinsælasta af því að þeir eiga vinsæl jólalög frá níunda áratugnum. Sjáið þið fyrir ykkur að verða jólastjörnur eftir tíu eða tuttugu ár? S Ekki ég allavega. E Nei, ég held ekki. U Ég verð alveg pottþétt þannig! E (Hlær) Já, Unnsteinn sér um það. Hafið þið gefið út jólalag? S Við höfum ekki gefið það út en við fluttum jólalag í fyrra. U Svo við ætlum mögulega að gefa út eitt jólalag núna. S Málið er að í sumar vorum við Unnsteinn að stúdera jólalög því við ætlum að gefa út jólaplötu á næsta ári. E Má ég vera með? S Já já, það verða gestir. Jólagestir Unnsteins og Hermigervils. Eruð þið fastheldin á hefðir í kringum jólin? U Ekkert sérstaklega. Það eru mikil kaosjól hjá mér. Ég er með allri afrísku fjölskyldunni og í henni eru sex hálfbrún börn, tvær frænkur okkar og mennirnir þeirra. Svo er verið að Skype-a til Portúgal og Skype- a til Afríku. Sjónvarpið er í gangi í einu herbergi og angólskt teknó í því næsta. Einhver er öskrandi af því að hann fékk ekki sama bíl og hinn svo við Logi erum í svona „damage control“ allan tímann. Nema hvað að svo er þetta ekkert búið þegar maður vaknar á jóladag því þá byrjar þetta aftur, nákvæmlega sama boð, bara með smáhléi á milli. Svo já, jólin eru kaotísk en maður fer bara inn í ákveðinn geim þar. Um áramótin eru hinsvegar alltaf miklar hefðir. Þá förum við að Hallgrímskirkju og svo förum við alltaf ákveðinn rúnt milli vina okkar. S Þrátt fyrir það sem á undan hefur verið sagt þá er ég ekki mikið jólabarn. Og allar svona hefðir og þannig... U (Grípur frammí) Þú ætlar bara að viðurkenna það? Kom eitthvað fyrir þig á jólunum? S Nei, það kom ekkert fyrir á jólunum. E En þú ert í jólapeysu. S Já, en ég tek þetta samt ekki hátíðlega. U En þú ert með jólasveinahúfu. S Ókei, ég er gríðarlegt jólabarn! Ég þarf bara að sætta mig við það. En hefðir og þannig skipta mig ekki miklu máli og ég hef alveg eytt jólum annars staðar, til dæmis í Hollandi. U Ha? Með Svarta Pétri? S Ég er reyndar á móti Svarta Pétri. U Af því hann er afríkanskur? Karabískur? S Úff, það er bara best að sleppa þessu. Svarti Pétur er semsagt Hollenski jólaveinninn og hann er með hundrað svarta þræla. U Og þar er allt skreytt með svörtum þrælum. S Þetta er svo hræðilega mikið á brúninni og sérstaklega þegar það hefur orðið þetta mikil breyting á vestrænu löndunum og það sem þótti sjálfsagt þykir alls ekki sjálfsagt lengur.Við (Unnsteinn) höfum rætt þetta, þetta er vissulega einhver menning og hefð en á maður að halda leifum nýlendustefnunnar bara út af hefðinni? Um daginn kom einmitt upp umræða í Bandaríkjunum um það afhverju jólasveinninn þyrfti endilega að vera hvítur og hvað þá Jesús sem var frá Mið-Austurlöndum. U Jólasveinninn er samt bara hvítur, það var einhver gæi í kristinni trú sem hét Sankti Nikulás. Jesús var aftur á móti svartur eða svona arabískur í útliti. S Ef þú segir Sankti Nikulás nógu oft þá hljómar það eins og Santa Clause (endurtekur nafnið hratt). U Já, svona eins og þú segir „eina með öllu“. S Já, nákvæmlega. En ef við snúum okkur aftur að upprunalegu umræðunni, þá ert þú sumsé ekki mikið jólabarn, Sveinbjörn. S Nei, aðfangadagskvöld í Evrópu er ekki neitt. Maður borðar bara hafragraut eða eitthvað. Mér fannst það pínu-skrítið af því ég hafði farið til Hollands með öðruvísi væntingar. E Af því að þú ert svo mikið jólabarn. S (Dæsir) Við fjölskyldan erum samt með skemmti- lega hefð pabba míns megin. Á sumrin förum við á Vestfirði og veiðum lunda í jólamatinn.Við lentum reyndar í því í fyrra að við áttum tvo poka af lunda í frysti. Annar var frá því fyrir tveimur árum eða eitthvað en við sáum ekki muninn. Það endaði þannig að við elduðum allt kjötið og sáum hvort var betra. Síðan fundum við engan mun svo maður hugsaði „Ókei, ætli þetta sé eitraður lundi? Nei, bíddu þetta er nýr, nei oh,“ og þannig fór þetta í hring. E Varð enginn veikur? S Jú jú, það voru bara uppköst og með því öll jólin. Hvað með þig, Beta? E Við borðum alltaf saman fjölskyldan klukkan sex. Það er mikið af börnum, við erum öll með athyglis- brest svo það eru allir að tala og enginn að hlusta en það er samt alltaf mjög gaman. Ég gæti ekki ímyndað mér róleg jól þar sem við sætum bara róleg. Mamma gerir sykraðar kartöflur og pabbi gerir rauðkál, besta rauðkál í heimi, og hann sér síðan eiginlega bara um allt á meðan við hin erum bara að gjamma og borða konfekt. Hvað hefur staðið upp úr fyrir ykkur á árinu? S Mér finnst túrinn sem við Retro Stefson tókum standa upp úr. U Við vorum í þrjá mánuði og enduðum á Kanarí- eyjum á vínekru.Við höfum oft spilað fyrir fólk sem hefur aldrei heyrt í okkur áður en þetta suðræna fólk fór strax að dansa geðveikt mikið og eftir fyrsta lagið þakkaði ég fyrir okkur á spænsku og þá trylltust allir. Þetta var uppi á fjalli á miðri eyjunni og þarna voru eiginlega bara innfæddir sem hittast annars lítið af því að þeir eru að vinna á hótelum allt sumarið. Svo þetta var eins og Aldrei fór ég suður á Kanaríeyjum. S Þetta var í svona eldfjallagíg og við vorum þarna í viku með hús og sundlaug. U Já, mér finnst þetta hafa verið hápunkturinn. E Sísí Ey er auðvitað rosalega nýtt band svo það er mikill hápunktur fyrir mig að hafa yfirhöfuð verið að spila svona mikið úti. Við erum búin að fara til Noregs og Danmerkur, Færeyja og til Barselóna. Barselóna var samt kannski hápunkturinn en mér fannst þetta allt svo skemmtilegt. Ég er ótrúlega spennt fyrir öllu því sem við erum að fara að gera á næsta ári. Við höfum ekki farið í svona langan túr þar sem við ferðumst mikið og spilum ítrekað, ég hlakka mikið til þess. Þið í Sísí Ey eruð að ljúka ykkar fyrsta heila starfsári sem hljómsveit. Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við tónlistarbransann eða menninguna í kringum hann? E Nei, ég held ég geti ekki beint sagt það. Mér finnst reyndar ótrúlega skemmtilegt hvað það er fjölbreyttur hópur sem hlustar á tónlistina og fílar okkur. Það er ekki bara ein týpa eða einn aldur. U Við vorum að ræða það um daginn hvað gellurnar sem voru á Hollywood í gamla daga hljóta að vera ánægðar meðð að danstónlist sé komin aftur í tísku. Nú er aftur að koma fram einhver flott tónlist sem er hægt að dansa við. S Mér finnst svo flott heildar-„sound-ið“ á Sísí Ey. Við skulum ekki gleyma vini okkar honum Friðfinni Oculus sem ber ábyrgð á því. E Hann er alger snillingur sko. Já, það er einmitt svo ríkt í fólki að tala um Sísí Ey sem systraband. E Friðfinnur er alveg einn af systrunum. Hann kallar sig stundum Friðfinna (hlær). Fyrir okkur erum við bara ein heild, það gengur ekkert öðruvísi. Koma aldrei upp neinar systkinaerjur innan hljóm- sveitarinnar? E Auðvitað kemur stundum eitthvað upp en það er ekkert í kringum tónlistina.Við erum bara frekar róleg og góð á því. Hvað með Retro Stefson, þið eruð búin að spila saman frá blautu barnsbeini, verðið þið ekkert þreytt hvert á öðru? U Já ég var mjög þreyttur á Sveinbirni í Svartfjalla- landi (Sveinbjörn hlær), það er of löng saga, maður. Það var bara einn dagur, þetta var mjög þægilegur túr þó hann væri langur. Stemningin var í hávegum höfð. S Við erum rosalega góð í að vera kurteis við hvort annað. U Já, það var líka mjög gott að fá Sveinbjörn inn, fá nýtt blóð. Maður er í raun og veru í rútu með fólki sem maður veit allt um og þarf ekki að spyrja um neitt. Þetta eru bara hugskeyti. Svo er kominn nýr gæi og þá breytist það. S Flóðið af spurningunum sem ég var að fá. Það eru alltaf að koma í ljós einhver leyndarmál sem seytla inn í almenna vitund hljómsveitarmeðlima. Hvernig var það fyrir þig að koma inn í band sem hefur spilað svona lengi saman? S Fyrst var ég bara í ruglinu, ég vissi ekki hvernig dýnamíkin var. Fyrst var ég að reyna að passa mig að stíga ekki á neinar tær. Mér fannst ég vera að koma inn í svo þéttan hóp sem var algerlega samstiga, maður þurfti að nota sín „social skills“ til hins ýtrasta til að detta inn í það. Þú hefur þó verið duglegur að vinna með allskonar listamönnum sem Hermigervill. S Já, pælið í öllum tengingunum hér. Tengingin milli mín og Unnsteins, nú er ég dottinn inn í Retro Stefson. Unnsteinn er að syngja með Sísí Ey í nokkrum lögum... E Við (Hermigervill) erum að fara á sama festival. S Það er svo gaman hvernig öll tónlistarsenan tengist saman, þessi tengsl eru svo æðisleg. E Nákvæmlega (gefur Sveinbirni fimmu). S Pabbar okkar voru meira að segja saman í Mezzof- orte. Mezzoforte æfði meira að segja í bílskúrnum hjá pabba mínum þegar þeir voru krakkar. Svo hætti pabbi náttúrlega í hljómsveitinni viku áður en Garden Party kom út. Þið eigið þá bæði tónlistarfólk fyrir foreldra, var pressað á ykkur að fara út í tónlist? S Alls ekki. E Engan veginn. U Oft er það nefnilega öfugt og sagt „Þú þarft ekkert að gera þetta“. S Ég held þetta sé bara mjög algengt. Þegar maður er krakki lítur maður upp til foreldra sinna. U Foreldrar mínir eru einmitt mjög kúl svo við bræðurnir ákváðum að við vildum líka verða mjög kúl. Þess vegna erum við í músík, sko. Það átti alltaf að reka okkur úr tónlistarskólanum því við lærðum aldrei heima og það var sagt að við gætum aldrei orðið neitt í tónlist. Þá byrjuðum við í hiphop-hljómsveit því það var svo kúl. S Þetta er rosa fyndið því að ég er einmitt í tónlist af því að ég er ekki kúl. Þegar þið lítið til baka yfir árið 2013, hvað stendur þá upp úr í íslensku tónlistarlífi? S Flottasta platan sem hefur verið í gangi finnst mér vera Hjaltalín-platan. Ég held reyndar að hún hafi komið út á endasprettinum 2012 en hún er búin að fá vængi í ár. Mér finnst Hjaltalín æðislegt band. U Emmsjé Gauta-platan, mér finnst hún ekki fá nógu mikla athygli. Það er eins og Íslendingar séu mjög lengi að taka við sér með hiphop. Það er litið á það sem einhverja unglingatónlist. En það frumlegasta sem er að gerast í popptónlist í dag er hiphop. Svo má nefna Múm. S Þetta er ein besta Múmplata sem hefur komið út og hún fær enga athygli. Það er eins og hún hafi verið þögguð niður. U Svo er Steinar að koma mjög sterkur inn með útvarpshittara. 13fimmtudagur 19. desember 2013 Monitor Texti: Anna Marsibil Clausen annamarsy@monitor.is Myndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is „Ókei, ég er gríðar- legt jólabarn! Ég þarf bara að sætta mig við það.“

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.