Monitor - 19.12.2013, Blaðsíða 21

Monitor - 19.12.2013, Blaðsíða 21
21fimmtudagur 19. desember 2013 Monitor Hrunið og áfengið komu mér á götuna Hvað varð til þess að þú lentir á götunni? Ég fór á götuna núna í ágúst. Ég var með íbúð en ég missti hana og þá var í rauninni ekkert annað í stöðunni. Ég er líka alkóhólisti og er á sífelldu flakki milli þess að drekka mikið og ná síðan edrútímum á milli. Stærsta vandamálið hjá mér var ekki að geta ekki borgað leiguna heldur eru það fyrir- framgreiðslurnar á leigunni sem eru mjög erfiðar. Ef maður getur ekki borgað strax þá er bara fullt af fólki sem bíður tilbúið með peninga. Það er líka allt orðið svo harkalegt, fólki er hent út alveg miskunnarlaust. Háir alkóhólismi ekki flestum í þinni stöðu? Jú, langflestum, held ég. Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi? Við erum ræstir niðri í skýli klukkan átta á morgnana, en megum vera inni til tíu þó að sumir fari bara strax út. Við göngum oftast yfir í næsta hús þar sem regla Móður Theresu er á móti Bónus og getum fengið þar kaffi og slíkt og síðan koma borgarverðirnir klukkan tíu og skutla mönnum í dag- skýlið. Í dagskýlinu höfum við vinnuaðstöðu á vegum Hjálp- ræðishersins og getum unnið þar ef við viljum, það koma t.d. inn húsgögn sem þarf að lagfæra og slíkt. Ég starfaði einmitt sem smiður þannig að það hentar mér vel. Ég kem hins vegar hérna inn í mismunandi ástandi þannig að ég er ekki alltaf vinnufær, það fer mikið eftir dagsforminu. Hver er þinn bakgrunnur í lífinu? Ég er 47 ára gamall og kem úr Reykjavík. Fjölskyldustaða mín er þannig að ég var í sambúð í nokkur ár og á dóttur sem býr erlendis. Ég var líka kvæntur og var þá með eigin rekstur, einbýlishús og lifði eins og eðlilegur maður. Einn daginn hrundi það bara allt saman, efnahagshrunið og alkóhól- isminn sáu til þess. Síðan þá hef ég ekki fengið neina vinnu nema bara hér og svo hef ég tekið nokkrar vaktir á kaffistof- unni hjá Samhjálp. Ég reyni samt að finna mér alltaf eitthvað að gera, ég þoli ekki að hanga bara allan daginn. Hvenær byrjaðir þú að drekka og hvernig þróaðist þinn alkóhólismi? Ég byrjaði nú bara sem unglingur niðri á Hallærisplani eins og flestir á þeim tíma. Það tók mig hins vegar langan tíma að þróa með mér áfengissýkina og ég fór ekki í mína fyrstu meðferð fyrr en ég var 33 ára. Það er svo einstaklingsbundið hvernig þetta kemur fram og þróast. Það er mikill alkóhól- ismi í minni fjölskyldu en svo eru líka til menn sem eru einu alkóhólistarnir í ættinni. Hvernig upplifir þú viðmót almennings gagnvart þér sem útigangsmanni? Það er mjög misjafnt, en ég held að það hafi verið að breytast til hins betra á undanförnum árum. Fólk er farið að skilja þetta meira, en áður fyrr var mikið talað um að þetta væri „aumingjaskapur“ og fólk ætti bara að fá sér vinnu o.s.frv. SÁÁ hefur hins vegar verið að kynna þetta mikið og það er meiri almenn umræða en áður. Ég upplifi það líka þannig í skýlinu að fjöldi fólks á götunni sé að aukast, mér skilst að engum hafi verið vísað frá fyrir nokkrum árum en núna gerist það nokkuð reglulega. Hvernig er að sofa í gistiskýli allar nætur? Aðstaðan er ekkert slæm.Við fengum ný rúm um daginn sem voru gefin í minningu um Loft sem dó hérna nýlega. Það er pláss fyrir tuttugu manns og menn eru náttúrlega fjórir í herbergi þannig að svefnfriðurinn er mismikill. Hópurinn skiptist nokkurn veginn til helminga í Íslendinga og Pólverja, en það geta stundum myndast vandamál á setustofunni ef við erum t.d. að horfa á sjónvarpið, en Pólverjarnir eiga það til að tala mjög hátt saman í hóp þannig að friðurinn er oft lítill. Skiptast innfæddir og Pólverjar þá í tvo hópa? Já, það skiptist eiginlega alveg í tvennt. Þetta er líka oft mismunandi milli manna, ég umgengst Pólverjana auðvitað bara sem jafningja, en sums staðar myndast rígur. Fá allir svefnpláss í gistiskýlinu eða geta menn lent í því að þurfa að gista úti? Já já, það hefur alveg komið fyrir. Nýlega var hins vegar tekið í notkun lítið hús á Vatnsstíg þar sem bættust við fimm pláss og ég held að það sé búið að leysa vandann að mestu, ég held að það ætti enginn að þurfa að vera úti í dag. Hvers vegna gistir þú í skýlinu? Er enginn fjölskyldumeðlimur sem þú gætir frekar komið þér fyrir hjá? Ég hef bara ekki möguleikann á því. Þetta er misjafnt milli manna, þarna eru margir sem vilja alveg vera í skýlinu, en aðrir bjarga sér svona nótt og nótt hjá kunningjum. Fjölskyldumeðlimir mínir búa í þannig húsnæði að það er erfitt að troða sér inn hjá þeim. Ég hef fengið inni hjá bróður mínum en þá datt ég bara í það. Hann var auðvitað ekkert kátur og mér finnst vera óþarfa álag á fjölskylduna mína að þau lendi í þessu. Hvernig er samband þitt við fjölskyldu og vini? Ég á tvö systkini, þau eru bæði með fjölskyldur og eru í góðri stöðu í dag. Þau hafa hins vegar glímt við áfengið líka og það eru mjög margir í minni fjölskyldu sem hafa þurft að fara í meðferð. Sambandið hefur minnkað og breyst eftir að ég lenti á götunni, en við höldum alveg sambandi samt sem áður. Núorðið er maður samt í mestum samskiptum við þá sem eru hérna niðurfrá. Ég á þó góðan vin sem hefur reynt að hjálpa mér og hef verið í miklu sambandi við hann. Þegar maður fer í meðferð þá hittir maður hins vegar fullt af vinum, það er mikil samkennd meðal AA-fólks. Kynnist fólk annars vel á götunni? Er gott samband innbyrðis? Já já, það er svona allur gangur á því. Stundum getur myndast kýtingur milli Íslendinga og Pólverja, en ég hef aldrei verið neitt inni í því. Við Loftur urðum t.d. mjög góðir vinir, hann var yndislegur strákur og við náðum vel saman. Hefur þú lent í því að þurfa að gista úti? Ég hef lent í því einu sinni og sú reynsla var mjög slæm. Það er voða misjafnt hvernig menn leysa þetta og hvar þeir koma sér fyrir. Hjá mér var mjög kalt þannig að ég gekk bara um mestalla nóttina til þess að halda á mér hita. Nú verða þetta fyrstu jólin sem þú upplifir á götunni, ekki satt? Já, hingað til hef ég getað verið hjá fjölskyldunni. Um tíma bjó ég niðri á Hjálpræðisher, en það er kvöldverður þar á aðfangadag. Ég hef lengi verið mikið inni í starfi Hjálpræð- ishersins, var m.a. hljóðmaður á samkomum og hef líka þjónað í jólamatnum. Þangað kemur alltaf gífurlegur fjöldi af fólki á aðfangadagskvöld, sérstaklega mikið af einstæðingum sem hafa enga fjölskyldu og engan til þess að vera hjá. Þarna líður fólki samt almennt vel og myndast hátíðleg stemning þó að það sé erfitt að eyða jólunum svona. Hvernig finnst þér jólin vera í dag miðað við það sem áður var? Finnst þér of mikil áhersla á veraldlega hluti miðað við þá mannlegu? Mér finnst jólin að mörgu leyti vera komin út í algjört rugl. Litlir krakkar eru jafnvel að fá iPhone og spjaldtölvur frá jólasveininum. Jólin hafa alltaf verið mjög hátíðleg fyrir mig, en ég hef aldrei fengið eða getað gefið stórar gjafir. Það er líka verið að auglýsa jólagjafir upp á mörg hundruð þúsund, ég skil það engan veginn. Ég sá í einhverju blaði að nokkrir krakkar voru spurðir hvers vegna jólin væru haldin og það vissi enginn um Jesú og þá sögu alla, það voru bara pakkarnir og jólasveinarnir. Hvernig sérðu framtíðina núna næstu misseri? Ég er að fara í sex mánaða meðferð á Krýsuvík eftir áramót. Félagsráðgjafinn minn nefndi það við mig um daginn og ég ákvað að það væri best að drífa bara í því. Ég hef farið í meðferðir áður og náð tímabilum þar sem mér gengur vel, en þau hafa verið mislöng. Hvernig fer svona meðferð fram? Á Krýsuvík, þar sem ég er að fara, þá er maður uppi í sveit í prógrammi í langan tíma og allt er mjög heimilislegt og léttar reglur. Við höfum verið þar í smíðavinnu og útivinnu og slíkt og það er mjög mikil upp- bygging. Eftir vissan tíma færðu bæjarleyfi og getur skroppið til Reykjavíkur í einn eða fleiri daga til þess að heimsækja fjölskylduna, ef hún er til staðar. Það finnst mér mjög nauðsynlegur hlutur til þess að komast aftur út í lífið. Þegar ég fór í mína fyrstu meðferð fór ég á Staðarfell, en þar er algjör einangrun, og svo kom ég í bæinn á Þorláksmessukvöld. Það var svolítið mikið stökk. Lítur almenningur á alkóhólisma sem sjúkdóm? Hvernig upplifir þú það? Ég hef alltaf litið á þetta sem sjúkdóm. Mér finnst gott dæmi um þetta vera mæður sem glíma við áfengissýki, fá viðvaranir frá barnaverndarnefnd og missa börnin jafnvel ítrekað en geta samt ekki hætt að drekka. Þegar þetta yfirvinnur svona móðurástina þá hreinlega hlýtur að vera um sjúkdóm að ræða. Er eitthvað sem þér finnst að mætti bæta við ykkar aðstæður og aðstöðu? Meðferðarheimilin, starfsemin á dagsetrinu og slíkt er með því betra sem gerist í heiminum. Það sem mætti gera væri kannski að bæta húsnæðismálin, gera fólki kleift að fá sín eigin heimili. Það þarf ekki að vera neitt mikilfenglegt, bara að fá sitt svæði. Síðan er margt svolítið sérstakt, núna er t.d. verið að opna nýtt gistiskýli í Lindargötu sem mér skilst að verði með með tuttugu rúmum, en þá verður gamla skýlinu lokað þannig að staðan breytist ekki neitt. Mér finnst frekar skrýtið opna nýtt hús fyrir margar milljónir ef fjöldi gisti- plássa á ekkert að breytast. Nú hefur verið deilt svolítið um ákveðin nafntoguð öldur- hús sem draga að sér útigangsfólk og byggja jafnvel mikið á slíkum viðskiptum. Hvað finnst þér um þessa starfsemi? Verða ekki einhversstaðar vondir að vera? Útigangsfólk þarf sinn samastað, þó auðvitað séu ekki næstum því allir útigangsmenn á þessum stöðum. Þeir hins vegar fá allavega að vera þarna inni á meðan margir aðrir staðir henda fólki bara út. Það þurfa að vera til mismunandi staðir og það þýðir ekki að vera bara með fína kokkteilbari. Hvað sérð þú sjálfan þig eftir fimm ár? Hver er þín framtíðarsýn? Fyrst og fremst bara að hafa verið edrú í fimm ár. Síðan vil ég auðvitað vera kominn með heimili og fasta vinnu. Hersir Aron Ólafsson hersir@monitor.is „Hjá mér var mjög kalt þannig að ég gekk bara um mestalla nóttina til þess að halda á mér hita.“ Blaðamaður ræddi við 47 ára gamlan mann sem hefur verið heimilislaus frá því í ágúst, þó að áfengissýkin hafi haft tök á lífi hans öllu lengur. Við ræddum saman á dagsetri heimilislausra við Eyjarslóð, en þar hefst hann við flesta daga vikunnar. Maðurinn var einlægur og fús til þess að miðla reynslu sinni til lesenda.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.