Morgunblaðið - 09.01.2014, Síða 27

Morgunblaðið - 09.01.2014, Síða 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. JANÚAR 2014 ✝ Guðfinna ElínEinarsdóttir fæddist á Selfossi 14. mars 1963. Hún lést á Heilbrigð- isstofnun Suður- lands 29. desember 2013. Foreldrar henn- ar eru Sigríður Bergsteinsdóttir, f. 12. apríl 1941 og Einar P. Elíasson, f. 20. júlí 1935. Systkini hennar eru Bergsteinn, f. 1960, maki Hafdís Jóna Kristjánsdóttir, f. 1959, Örn, f. 1966, maki Steinunn Fjóla Sig- urðardóttir, f. 1973 og Sigrún Helga, f. 1970, maki Sverrir Ein- arsson, f. 1967. Guðfinna Elín giftist 9. júní 1984 Einari Jónssyni, f. 28. janúar 1958. Foreldrar hans eru Þórunn Einarsdóttir, f. 15. maí 1931, og Jón Guðbrandsson, f. 18. mars ín og Einar kynntust árið 1979 og stofnuðu heimili á Selfossi 1981. Byggðu þau sér hús á Spóarima 17 og fluttu þar inn 1987 og hafa búið þar síðan. Elín hefur unnið á ýmsum stöðum í hlutastörfum í gegnum tíðina. T.d. hjá fjölskyldufyrirtækinu Set, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suður- lands. Hún stofnaði Vinnustofu Guðfinnu E sem stendur við Eyraveg á Selfossi þar sem hún var með aðstöðu. Hannaði hún t.d. fyrir Frostrósir jólakúlur úr gleri og leirskálar árið 2006. Rak hún vinnustofu sína þar til hún greindist með krabbamein í nóvember 2011. Eftir að hún greindist með krabbamein fór mesta orkan í þá glímu. Þrátt fyrir veikindi sín sótti hún námskeið í glerskurði og hannaði hún t.d. og vann lista- fagurt gluggaskraut ásamt því að hekla 4 teppi sem hún færði öllum börnunum um síðastliðin jól. Útför Guðfinnu Elínar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.30. 1929. Börn Guð- finnu Elínar og Ein- ars eru: 1. Elías Örn, f. 30. mars 1982, 2. Þórunn, f. 7. mars 1988, sambýlis- maður Christopher James Wood, f. 12. október 1983, 3. Bertha Ágústa, f. 23. apríl 1990, sambýlis- maður Jósep Helga- son, f. 21. desember 1989, fyrir átti Einar Jón Þorkel, f. 25. febrúar 1976, kvæntur Álf- hildi Þórðardóttur, f. 27. desem- ber 1972, þeirra synir eru Einar, f. 13. september 2006, Þórður Tóbías, f. 20. maí 2011 og dreng- ur, f. 13. desember 2013. Guðfinna Elín ólst upp á Sel- fossi. Eftir almenna skólagöngu lauk hún námi frá Iðnskólanum í Reykjavík sem tækniteiknari 1981 og vann við það um tíma. El- Ástkær móðir okkar hélt aldrei aftur af sér í ást og hlýju sem var endalaus. Hún var mjög skapandi kona og ýtti undir sköpunargáfu okkar systkina. Hún var ávallt tilbúin að kenna okkur allt sem hún kunni og leyfði okkur að fara okkar eigin leiðir í listum og lífi, hvort sem þær væru hugsanlega rangar eða réttar. Við höfum verið mjög heppin að eiga svona kraftmikla konu sem móður, hún hafði alltaf nóg að gera og við fengum oft á tíðum að koma með í ævintýrin hennar og atvinnu, það var aldrei leiðinlegt fyrir okkur að koma með í vinnuna vegna þess hún bjó til ævintýri fyrir okkur hvort sem það var undir teikniborði, völundarhús í Set eða frumskógur í Fjölbrauta- skólanum. Hún var ekki aðeins móðir okkar, hún var besti vinur okkar, hún var ávallt tilbúin til að hlusta á gleðistundir og sorgar- stundir okkar. Móðir okkar var alltaf mjög lífsglöð og tók alltaf á móti okkur með brosi og miklum kærleik, jafnvel meðan á baráttu hennar stóð var hún oftast bros- andi og hlæjandi og sagði okkur skemmtilegar sögur til þess að fá okkur til að brosa. Mun hennar verða sárt saknað. Mamma, elsku mamma, man ég augun þín, í þeim las ég alla elskuna til mín. Mamma, elsku mamma, man ég þína hönd, bar hún mig og benti björt á dýrðarlönd. Mamma, elsku mamma, man ég brosið þitt; gengu hlýir geislar gegnum hjarta mitt. Mamma, elsku mamma, mér í huga skín, bjarmi þinna bæna, blessuð versin þín. Mamma, elsku mamma, man ég lengst og best, hjartað blíða, heita – hjarta, er sakna ég mest. (Sumarliði Halldórsson.) Elías Örn, Þórunn og Bertha Ágústa. Hefði systir mín fengið að velja fallegasta íslenska orðið, þegar val um það stóð í haust, hefði hún val- ið orðið vellíðan. Hefði hún haft eitthvert val hefði hún kosið vellíð- an og heilbrigði, átt áfram gott líf og upplifað alla þá hluti sem hún átti eftir að upplifa og þráði svo heitt. Tilbúin að leggja mikið á sig ætlaði hún að sigrast á þeim vá- gesti sem hún barðist við í rúm tvö ár, barðist eins og hetja með já- kvæðnina og bjartsýnina að vopni. Einbeitt horfði hún fram á við, ekki til baka, ákveðin í að sigra. En hlutirnir fara ekki alltaf eins og maður ætlar. Elín var stóra systirin sem passaði mig þegar ég var lítil og kannski alla tíð. Var alltaf til stað- ar þegar mig vantaði hjálparhönd en duglegri og röskari manneskju er erfitt að finna. Samt alltaf svo róleg og yfirveguð og með ein- dæmum skipulögð þannig að verkin voru létt þegar hennar hjálpar naut við. Ég var mikið hjá henni þegar ég var unglingur og passaði hennar börn þegar þau voru lítil. Seinna voru það mín börn, þá sérstaklega strákarnir mínir, sem eyddu löngum stund- um hjá frænku sinni. Var hún þeim sem önnur mamma. Sam- gangur hefur alltaf verið á milli okkar systra og eftir því sem árin hafa liðið hefur okkar samband sí- fellt orðið meira og nánara. Við gátum rætt allt og það er erfitt að útskýra það en við þurftum ekki alltaf að segja svo margt og vera með málalengingar, við skildum hvor aðra. Ég hafði stuðning af henni og vona að ég hafi getað stutt hana þegar þurfti. Við fráfall hennar er ég ekki bara að missa systur, ég er að missa mína bestu vinkonu. Það verður verkefni að læra að lifa án hennar. Ég er heppin að eiga fjársjóð góðra minninga að ylja mér við og gleðjast yfir en um leið græt ég það sem hefði getað orðið. Við ferðuðumst saman innanlands og utan. Við fórum með mönnunum okkar á fótboltaleiki í Englandi, með fjölskyldurnar okkar í sum- arfrí í sólina, í útilegur og ferðalög innanlands. Svo eru það allar hversdagslegu stundirnar sem við áttum, sem maður hugsaði ekki frekar út í á því augnabliki en skipta svo miklu máli þegar litið er til baka. Það er ekki hægt að minnast systur minnar án þess að nefna hennar listrænu hæfileika og hvernig allt lék í höndunum á henni. Hún var með gallerí þar sem hún náði að virkja sköpunar- kraftinn og framleiða og selja leir- vörur. Hún prjónaði og saumaði og liggja ófá verkin eftir hana sem nostrað hefur verið við og spáð í hvert smáatriði. Heimili hennar og Einars ber merki um hand- bragð hennar en heimilið var þar sem henni leið best, hún elskaði að hafa fallega hluti og notalegt í kringum sig og eyddi hún ófáum stundum í að skipuleggja fallegt heimili, bæði innanhúss og utan. Elsku Einar, Elías, Þórunn, Bertha, Jón, mamma, pabbi og aðrir aðstandendur. Kveðjustund- in er ótímabær, söknuðurinn er sár og erfitt að sætta sig við hlut- skipti elsku Elínar. Við munum geyma minningu hennar í hjarta okkar og þakka fyrir að hafa átt hana að, við erum betri manneskj- ur eftir. Hvíldu í friði, elsku uppáhalds- systir, lífið verður tómlegra án þín. Þín Sigrún. Á bernskuárum okkar krakk- anna við Engjaveginn á Selfossi voru vetur oft snjóasamir. Mikill fjöldi barna var úti við og leikir oft sjálfsprottnir. Í lausamjöllina fyr- ir utan húsið númer 24 lögðust lítil stúlka og bróðir hennar. Þau bjuggu til engla í snjóinn og stúlk- an lá þar brosandi og horfði til himins stolt af englunum sínum, sem sólin bræddi eins og öll önnur forgengileg verk. Og nú þegar daginn er farið að lengja og sólin að hækka á lofti kvaddi hún. Þessi stúlka var systir mín, Guðfinna Elín Einarsdóttir. Ætlun Elínar, eins og hún var jafnan kölluð, var að komast heim um hátíðar og vera með fólkinu sínu. Það tókst henni og jólin voru síðustu dagarnir heima. Hún lést 29. desember. Foreldrar okkar voru meðal ungra frumbyggja við Engjaveginn vestan Tryggva- götu. Sjöundi áratugurinn og sá áttundi spönnuðu bernsku og ung- lingsár okkar en tæp þrjú ár skildu okkur að í aldri. Örn kom næstur þremur árum yngri en Guðfinna Elín og yngst er Sigrún Helga en tíu ár eru á milli okkar. Við áttum gott heimili og nutum öryggis, umhyggju og frelsis til at- hafna. Það voru góð ár. Elín var gædd eiginleikum dugnaðar og eljusemi. Hún hafði hæfileika til handverks, hannyrða og listrænnar sköpunar. Sat ekki auðum höndum heldur fékkst við fjölbreytt verkefni heima við og leirlistina sem var helsta áhuga- málið, en listin var hennar líf og yndi. Þar naut hún sín, enda hug- myndarík og hafði ávallt þörf fyrir að breyta, bæta og fegra umhverfi sitt og skapa nýja listmuni. Hún tók þátt í handverkssýningum og seldi leirmuni sína víða. Elín kynntist Einari Jónssyni ung að árum og saman hófu þau búskap. Byggðu sér einbýlishús við Spóarima á Selfossi sem varð heimili þeirra og barnanna þriggja. Elías Örn, Þórunn og Bertha Ágústa eru nú uppkomið fólk og upplifa erfiða lífsreynslu og söknuð. Minning um móðurást og kærleika mun ávallt fylgja þeim. Einar var stoð Elínar og stytta og eftir að veikindin komu upp, fullur baráttuvilja og hvatn- ingar og fylgdi henni hvert skref. Móðir okkar veitti henni samveru og þeim báðum stuðning en þær mæðgur hafa alltaf verið mjög nánar. Við ráðum ekki inn í hvaða að- stæður við komum í heiminn, hvaða eiginleika við erfum, hvern- ig uppeldi við fáum og hvað lagt er á okkur á lífsleiðinni af verkefn- um, sem okkur reynist misjafn- lega auðvelt að leysa. Á stundum sem þessari erum við minnt á van- mátt okkar og það að kunna að meta og njóta þess sem okkur er gefið um stund; lífið sjálft, fjöl- skyldu, vini og samferðafólk. Englar úr leir sem systir mín skóp vekja með okkur minningar um fallega og góða konu. Stúlkuna sem eitt sinn bjó til engla í lausa- mjöll. Bergsteinn Einarsson. Mig langar að minnast með nokkrum orðum mágkonu minn- ar, Guðfinnu Elínar Einarsdóttur. Ég kynntist Elínu fyrir 34 ár- um þegar hún kom fyrst á Reyni- vellina í hús foreldra minna sem kærasta Einars bróður, þá rétt að verða 17 ára gömul yngismey. Man ég hve feimin hún var, enda margt um manninn og allir spenntir að sjá kærustu hans. Upp frá því tilheyrði hún Reynivalla- hópnum og var góð viðbót við hann. Elín var einstaklega ljúf kona, prúð í fasi, listræn og skapandi. Hún naut þess að forma og fegra í kringum sig eins og heimili hennar ber merki. Fjölskyldan var henni allt og hélt hún vel utan um hana. Fyrir tveimur árum greindist Elín með krabbamein sem hún tókst á við með stóískri ró og stuðningi frá sínu fólki. Að leiðarlokum vil ég þakka El- ínu fyrir góð kynni og vináttu. Elsku Einar minn, Elías Örn, Þórunn, Bertha Ágústa, Jón Þor- kell, Sigríður og aðrir aðstandend- ur sem eiga um sárt að binda, ég votta ykkur innilega samúð. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. þig umvefur blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita að því þú laus ert úr veikinda viðjum, því veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Blessuð sé minning þín, Elín mín. Þín mágkona, Ragnhildur. Í dag kveð ég kæra mágkonu, Guðfinnu Elínu Einarsdóttur, en hún var gift elsta bróður mínum, Einari. Mínar fyrstu minningar um Elínu eru úr Miðtúninu, þegar mamma var að athuga með Einar sinn en hann var fluttur að heim- an. Ég, þá 10 ára, send inn til að kanna hvort hann væri heima, en hann var ekki einn, Elín var komin til sögunnar. Einnig kemur upp í hugann bláa Novan og þau á rúnt- inum. Þetta virðast ekki vera svo ýkja mörg ár síðan en þegar farið er að telja árin þá eru þau þrjátíu og fjögur. Einar átti Jón Þorkel fyrir, síðan fæddist Elías Örn og svo komu stelpurnar Þórunn og Bertha Ágústa og lífið var fótbolti á þessum árum. Elín var hæglát og gat verið orðheppin og hnyttin í svörum, einbeitt var hún í þeim verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur og lét lítið trufla sig við verkið. Áhugamálin voru mörg og voru Einar og Elín samstiga í áhuga sínum á ættfræði og uppruna sín- um og ferðalög voru spunnin út frá stöðum sem forfeður höfðu bú- ið á. Elín hafði mikla listræna hæfileika og gott auga fyrir fegurð og ber húsið og garður þeirra vitni um það. Einnig nýtti hún listsköp- un sína í leirlist og prýða mörg heimili muni eftir listamanninn Guðfinnu og má segja að lífið hafi verið list. Reyndar var það svo að allt lék í höndum hennar, minn- isstætt er mér þegar hún saumaði upphluti á dæturnar, þá var farið í rannsóknarvinnu og kannaði hún uppruna búninga. Það var þungt högg þegar Elín greindist með krabbamein fyrir rúmum tveimur árum, líkt og önn- ur verkefni í lífinu tókst hún á við þetta stóra verkefni af æðruleysi og með jákvæðni að leiðarljósi. Með einstakan stuðning frá eigin- manni og móður var ætlunin að sigra meinið en þeim varð ekki að ósk sinni, líkaminn gaf eftir smátt og smátt. Við fjölskyldan viljum þakka Elínu samfylgdina. Einar, Elías, Þórunn, Bertha, Jón Þorkell, Chris, Jósep, Álfhildur og ömm- ustrákarnir, foreldrar, systkini og tengdaforeldrar, við vottum ykk- ur dýpstu samúð, ykkar er mesti missirinn. Ég kveð með þessum orðum Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum: Dýpsta sæla og sorgin þunga svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra mál ei talar tunga, tárin eru beggja orð. Brynhildur Jónsdóttir. Þegar nýtt ár var rétt í þann veginn að ganga í garð og minna okkur á tímans þunga nið, kvaddi elskuleg bróðurdóttir mín, Guð- finna Elín Einarsdóttir, þennan heim langt um aldur fram, eftir harða og snarpa baráttu við illvíg- an sjúkdóm. En þegar farið er að rifja upp lífshlaupið og samveru- stundirnar kemur svo margt já- kvætt fram í hugskotið að sorgin verður léttbærari. Elín tók hlutskipi sínu af miklu æðruleysi sem ekki var annað hægt en að dást að. Þegar dóm- urinn um ólæknandi sjúkdóm féll, eyddi hún kröftunum í að hug- hreysta, hlúa að og undirbúa fjöl- skylduna sína undir hið óhjá- kvæmilega. Þegar ég hitti Elínu, eins og hún var oftast kölluð, viku fyrir jól og eftir að hafa fylgst með sjúkdómsferlinu var ljóst að stundaglas hennar væri að tæm- ast. Samt er það nú þannig að and- látsfregnin kemur manni alltaf í opna skjöldu, ef til vill vegna þess að vonin er alltaf til staðar innst inni og atburðurinn er svo afger- andi og endanlegur. Í Heimsljósi Kiljans segir á einum stað: „Dauð- inn er eitt af því fáa sem maður trúir ekki, kannski það eina.“ Á svölum marsdegi fyrir rúm- um fimmtíu árum, bíðandi eftir Laugarvatnsbíl við rútumiðstöð- ina á móti gamla kaupfélagshús- inu á Selfossi, rakst ég á bróður minn sem var að koma gangandi austanað. Án þess að heilsa til- kynnti hann mér að hann væri að koma af sjúkrahúsinu og að ég hefði verið að eignast litla frænku. Síðan þá hefur þessi stelpa, sem skírð var Guðfinna Elín eftir föð- urforeldrum sínum, verið hluti af tilverunni og stórfjölskyldunni og minningaperlurnar margar og all- ar ljúfar og góðar. Elín var glað- lynt barn og unglingur sem gott og gaman var að hafa í kringum sig og umgangast. Hún var Sel- fyssingur í húð og hár, þar sem hún ólst upp í foreldrahúsum og naut venjulegrar skólagöngu. Ung fann hún hamingjuna sem entist lífið þegar hún kynntist lífs- förunautnum, honum Einari sín- um. Saman voru þau eitt. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn. Einar stóð eins og klettur við hlið Elínar í veikindum hennar og hjúkraði af einstakri alúð, já- kvæðni og hlýju. Íslenskur málsháttur segir: Sjaldan fellur eplið langt frá eik- inni. Elín var dugnaðarforkur og mikil hagleikskona sem allt lék í höndunum á. Minnti hún mig oft í þeim efnum á ömmu sína og afa sem hún var skírð eftir. Elín var listræn og hafði unun af því að skapa. Heimili hennar bar einnig vott um sköpunargáfuna, smekk- vísina og listræna hæfileika henn- ar. Það sem samt einkenndi Elínu framar öðru var höfðinglegt og hæglátt fasið, ljúfmannlegt yfir- bragð og hlýlegt viðmót. Samt var hún langt frá því skaplaus og gat vel sagt meiningu sína og í því efni djúpt tekið í árinni, enda hafði hún oftast ákveðnar skoðanir á mönn- um og málefnum. Elín var frænd- rækin með afbrigðum og verður því skarð fyrir skildi í fjölskyldu- boðum framtíðarinnar. Lífshlaupi Elínar er nú lokið eftir erfið veikindi. Með söknuði kveð ég þig, frænka mín. Við Lóa og fjölskyldan sendum hlýjar samúðarkveðjur til eiginmanns, barna, foreldra og fjölskyldunnar allrar. Sigfús Þór. Þegar ótímabær fráföll eiga sér stað finnast fá orð sem hugga. Nú upplifir stór fjölskylda það að ein- um af máttarstólpunum hefur ver- ið kippt í burtu og hvernig hægt er að vinna úr því getur tíminn einn leitt í ljós. Fyrir rúmum tveimur árum kynntumst við mæðgur úr Hafn- arfirði elskulegum hjónum, þeim Elínu og Einari. Þá þegar hafði Elín greinst með krabbamein sem að lokum, eftir harða baráttu, sigraði líkama hennar en aldrei sálina. Styrkur þessara hjóna var ótrúlegur. Hún, eins fíngerð og hún var, dró eins og segull allt það besta að sér. Hann, sem bjarg, var stoð hennar og sama hvernig hvernig öldurótið dundi á lét hann aldrei á neinu bera, heldur talaði í hana kjark sem hún meðtók svo fallega. Ef til vill huggar minning- in um hversu tær sál Elínar var þá sem nú syrgja hana og sú minning verður jafnframt börnum hennar hvatning til að feta í hennar spor. Því hrein sál og hrein samviska eru sterk vopn í lífsins ólgusjó. Við viljum þakka ykkur hjónum fyrir samveruna og vonum að sam- bandið við fjölskylduna lifi áfram. Móður Elínar, Einari, börnum og öðrum aðstandendum sendum við allt það besta sem í sálum okkar býr. Vilfríður, Hrefna og fjölskyldur. Guðfinna Elín Einarsdóttir Kveðja frá Knattspyrnu- félaginu Þrótti Þorvarður E. Björnsson fé- lagi okkar er látinn, eftir erfið veikindi, á sjötugasta og fyrsta aldursári. Hann gekk kornung- ur í Þrótt og lék knattspyrnu upp alla flokka, þ.m.t. yfir 100 leiki með meistaraflokki. Síðar Þorvarður Ellert Björnsson ✝ Þorvarður Ell-ert Björnsson fæddist í Reykjavík 5. mars 1943. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 18. des- ember 2013. Útför Þorvarðar fer fram frá Graf- arvogskirkju 6. jan- úar 2013. starfaði hann að þjálfun yngri flokka félagsins og einnig dómgæslu, m.a. sem alþjóðadómari, en þar var hann af- ar farsæll og naut mikillar virðingar. Hann var sæmdur gullmerki Þróttar og Knattspyrnu- sambands Íslands fyrir störf sín. Þróttarar þakka Þorvarði langt og heilladrjúgt starf fyrir félagið og íslenska knattspyrnu og senda fjölskyldu hans og ættingjum innilegar samúðar- kveðjur. Blessuð sé minning hans. F.h. stjórnar Knattspyrnu- félagsins Þróttar, Sigurlaugur Ingólfsson.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.