Skessuhorn


Skessuhorn - 09.04.2014, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 09.04.2014, Blaðsíða 19
19MIÐVIKUDAGUR 9. APRÍL 2014 Af tilefni fjögurhundruð ára minn- ingar Hallgríms Péturssonar (1614-1674), eins af höfuðskáldum Íslendinga, stendur rithöfundur- inn, leikarinn og leikstjórinn Stein- unn Jóhannesdóttir fyrir upplestri Passíusálmanna í Hallgrímskirkju í Saurbæ á föstudaginn langa, 18. apríl. Hallgrímur er hvað þekktast- ur fyrir Passíusálma sína sem eru íhugun um píslarsögu Jesú Krists, fimmtíu að tölu. Bænavers úr þeim hafa fylgt íslensku þjóðinni um ald- ir frá vöggu til grafar. Segja má að Steinunn sé orðinn sérfræðingur í lífi og störfum Hallgríms Péturs- sonar en hún hefur rannsakað líf og skálskap hans um árabil. Hún skrif- aði meðal annars bækurnar Heim- anfylgju um æsku Hallgríms og Reisubók Guðríðar Símonardóttur, sem spannar ævintýralegt lífshlaup eiginkonu hans ásamt leikritinu Heimur Guðríðar. Í báðum verk- unum um Guðríði er Tyrkjaránið 1627 og afleiðingar þess meginvið- fangsefnið. Miklu veldur sá er upp- hafinu veldur Fyrstu kynni Steinunnar af hjón- unum Hallgrími og Guðríði voru fyrir þrjátíu árum „Ég lék Guðríði í Tyrkja-Guddu eftir sr. Jakob Jóns- son í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Benedikts Árnasonar. Ég hef stund- um sagt að miklu veldur sá er upp- hafinu veldur um það. Þetta hafði mikil áhrif á líf mitt enda varð ég hugfangin af persónu Guðríðar og sögu hennar í framhaldinu. Þarna má segja að okkar fyrstu kynni hafi verið,“ segir Steinunn í samtali við Skessuhorn. Á svipuðum tíma kynnist Steinunn þáverandi presti í Hallgrímskirkju í Reykjavík, sr. Karli Sigurbjörnssyni og Kristínu Guðjónsdóttur eiginkonu hans. „Í gegnum þau kynntist ég svo kirkj- unni og kirkjustarfinu sem varð til þess að Kristín fékk mig til að tala um Guðríði á kvenfélagsfundi í kirkjunni vorið 1994. Karl mætti á fyrirlesturinn og hreyfst af pæling- um mínum um Guðríði og vildi fá mig til að halda opinn fyrirlestur á vegum Listvinafélags Hallgríms- kirkju sem ég gerði. Það leiddi til þess að ég var fengin til að skrifa nýtt leikrit um Guðríði. „Heimur Guðríðar. Síðasta heimsókn Guð- ríðar Símonardóttur í kirkju Hall- gríms“ var frumsýnt á Kirkjulistahá- tíð vorið 1995. Sú sýning gekk svo vel að hún var sýnd í fimm og hálft ár í fjölmörgum kirkjum víðsvegar um landið ásamt því að vera sýnd í London og Kaupmannahöfn. Tvær af þeim konum sem léku Guðríði í þessari sýningu munu lesa Passíu- sálmana ásamt mér og einni leik- konu til sem áður hefur flutt alla sálmana í heild sinni, þá í Seltjarn- arneskirkju,“ útskýrir Steinunn. Fetaði í fótspor Guðríðar Samhliða leikferðunum byrjaði Steinunn að vinna að skáldsögu um Guðríði. „Bæði í Tyrkja-Guddu og í Heimi Guðríðar fannst mér skorta á þekkingu um tilveru Guðríðar í Algeirsborg. Ég áttaði mig auk þess á því þegar fólkið er leyst úr ánauð- inni fer það í stórkostlegt ferða- lag. Þau fara um Miðjarðarhafið, Frakkland, Ermasund, Amsterdam, Glückstadt og Kaupmannahöfn svo eitthvað sé nefnt. Guðríður verð- ur því ein víðförlasta kona Íslands á þessum tíma. Fólk var ekki mikið í langferðum en hún hafði séð heim- inn.“ Heimildir um ferðina sumarið 1636 voru fátæklegar en mikilvægar þannig að Steinunn ákvað að þræða þá staði sem Guðríður hafði kom- ið á. „Áfangastaðirnir voru kunnir ásamt dagsetningunum, fáein orð um einkenni sumra en lítið annað. Ég þurfti að skipta ferðunum nið- ur á nokkur ár því verkefnið var mjög dýrt, ásamt því að vera stórt og vandasamt. Ég vildi gera þetta allt í réttri tímaröð en það reyndist ekki hægt í einu tilviki. Á þessum tíma var blóðug borgarastyrjöld í Alsír og stórhættulegt að fara þang- að. 1999 hættu menn að berjast og ég fór loks þangað árið eftir. Ég var þá búin að vinna mestalla aðra heimildavinnu,“ segir Steinunn. Reisubók Guðríðar kom út 2001. Eftir að hafa gefið út söguna um reisu Guðríðar langaði Steinunni að halda áfram að skrifa um hjónin Hallgrím og Guðríði. „Ég ætlaði að segja sögu Hallgríms og Guðríðar á Íslandi en strandaði á því að ég vissi allt of lítið um Hallgrím, sem var stórættaður og náskyldur miklu valdafólki. Ég vildi ekki skrifa um hann sem ungan mann án þess að þekkja betur uppruna hans og þroskaferil,“ útskýrir hún. Stein- unn kynnti sér því uppvaxtarskil- yrði Hallgríms á Höfðaströnd og Hólum í Hjaltadal. Heimanfylgja er afraksturinn af þeim rannsókn- um en hún fjallar um æsku og upp- vöxt Hallgríms fram að því að hann fer einn út í heim á unglingsaldri. Valdi fjórar sterkar konur til að varðveita sálmana Eftir útgáfu Heimanfylgju hefur Steinunn þó ekki látið staðar num- ið og einbeitir sér enn að Hallgrími Péturssyni. „Ég hef verið að rann- saka afmarkaða þætti í lífi Hallgríms og Guðríðar. Það nýjasta sem ég hef skoðað er saga þessara fjögurra kvenna, ég fór að skoða hana út af afmælisárinu sem er núna.“ Stein- unn segir frá því að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að Hallgrímur hafi haft sérstaka afstöðu til sterkra kvenna. Hann kynntist sem barn á Hólum í Hjaltadal Halldóru Guð- brandsdóttur Þorlákssonar bisk- ups sem tók þar um tíma öll völd í veikindum föður síns. Hún var fyrsti kvenskörungurinn sem hafði áhrif á líf hans. Þá hafi Guðríður, eiginkona hans, líka verið mikill skörungur og minnt með ákveðn- um hætti á Halldóru. „Hallgrím- ur velur svo fjórar sterkar konur til að varðveita og koma sálmun- um á framfæri. Hann vissi að hann hafði gert vel og var reiðubúinn að hefja kynningu á verkinu. Þetta eru handskrifuð eintök og hann reynir að afla verkinu meðmælenda, vænt- anlega með prentaða útgáfu fyr- ir augum. Það fór því svo að vorið 1660 fengu þrjár konur Passíusálm- ana að gjöf frá höfundi þeirra ritaða eigin hendi með tileinkun til þeirra og ein til viðbótar ári seinna.“ Tengjast Ytra – Hólmi Ragnhildur Árnadóttir var fyrst kvenna sem fékk Passíusálmana að gjöf. Lítið er vitað um líf henn- ar en þó er vitað að hún var fædd og uppalin á Ytra-Hólmi við Akra- nes, dóttir Árna Gíslasonar lög- réttumanns og Steinunnar Hann- esdóttur. „Foreldrar Ragnhildar á Ytra-Hólmi voru bæði af voldug- ustu ættum landsins og bjuggu við mikla rausn. Þau gerðust verndarar og hjálparfólk Hallgríms og er Árni talinn hafa stuðlað að því að Hall- grímur hlyti prestvígslu í Hvalsnesi og síðar brauðið í Saurbæ. Þegar Ragnhildur fær handritið eru hjón- in látin og hún er þá búsett í Kald- aðarnesi í Flóa. Hallgrímur hefur haft góðar ástæður til þess að treysta Ragnhildi fyrstri kvenna fyrir Pass- íusálmunum en Kaldaðarnes var að auki kjörinn staður fyrir kynningu á nýju skáldverki,“ útskýrir Stein- unn. Tveim mánuðum síðar sendi Hallgrímur mágkonum sitthvort handritið, þeim Helgu Árnadóttur í Hítardal og Kristínu Jónsdóttur í Einarsnesi. „Þessar konur tengj- ast allar Árna og Steinunni á Ytra- Hólmi. Ragnhildur, séra Þórður, maður Helgu, og Kristín eru systk- inabörn, sömuleiðis Ragnhildur og Sigurður Jónsson maður Kristín- ar. Auk þess sem Helga og Kristín eru þremenningar. Það er því alveg ljóst að Hallgrímur treysti hjón- unum á Ytra-Hólmi, afkomendum þeirra og skylduliði,“ segir Stein- unn. Hún bætir því við að kon- urnar hafi allar búið á höfuðból- um þar sem bókiðja var stunduð, þó ekki væri þar prentun. „Hann er upp á sitt besta þegar hann klárar sálmana, fjörtíu og fimm ára gam- all. Markaðsmaðurinn Hallgrím- ur Pétursson veit að hann hef- ur gert vel og er með frábært verk í höndunum. Hann skrifar tveim kvennanna sameiginlegan inngang þar sem er löng guðfræðileg útlist- un á verkinu. Hann hælir þeim og leggur út af nöfnum þeirra, Helga og Kristín og tengir þau við guðs- trúna. Að lokum biður hann um að sálmunum verði ekki „varpað und- ir bekk“ og þeim ekki týnt.“ Stein- unn segir að ári seinna hafi Hall- grímur að endingu sent eitt hand- rit í viðbót til ungrar konu. „Það var til Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti. Hún fékk sálmana að gjöf aðeins nítján gömul ásamt tveimur sálmum í viðbót um fallvaltleika mannlífsins: Allt eins og blómstrið eina og Allt heims- ins glysið, fordild fríð. Þessir sálm- ar áttu eftir að verða henni til hugg- unar í þeim sáru raunum sem biðu hennar og í banalegunni má segja að Hallgrímur hafi haldið í hönd hennar í tvöföldum skilningi.“ Fjórar konur lesa í minningu fjögurra kvenna Það er í minningu þessara fjögurra kvenna sem sálmana fengu sem leik- konurnar fjórar ætla að lesa Passíu- sálmana á föstudaginn langa. „Við ætlum að minnast þess að hann setti þessi handrit í hendurnar á fjórum konum. Þær verða markaðskonur hans og aðstæður þeirra. Þetta voru fjórar kjarnakonur, þó að ein þeirra dæi ung. Þær tóku sálmana að sér og komu þeim í dreifingu. Það var strax farið í að gera afrit af hand- ritunum en þrjú frumritin voru í umferð í rúm hundrað ár. Handrit Ragnheiðar er það eina sem varð- veist hefur til okkar daga,“ segir Steinunn. Þess má geta að handrit Ragnheiðar endaði í eigu Jóns Sig- urðssonar forseta í Kaupmanna- höfn árið 1855 og var flutt til Ís- lands 1880. Ekkert ritverk eftir ís- lenskan höfund hefur verið gefið út jafn oft og Passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Passíusálmarnir verða lesnir föstudaginn langa, 18. apríl næst- komandi, af Helgu Elínborgu Jóns- dóttur, Margréti Guðmundsdóttur, Ragnheiði K. Steindórsdóttur og Steinunni Jóhannesdóttur. Flutn- ingurinn verður í Hallgrímskirkju í Saurbæ, þar sem Hallgrímur var prestur í átján ár. Lesturinn hefst kl. 13:30 og verður flutningnum skipt upp í sex hluta. Arna Krist- ín Einarsdóttir leikur á þverflautu á milli hluta. Veglegum bæklingi, „Svoddan ljós mætti fleirum lýsa“ ritsmíð Steinunnar um konurnar fjórar verður dreift til hlustenda í kirkjunni. „ Það er gert í tilefni minningarársins. Við viljum þannig bæði minnast Hallgríms og þessara fjögurra lykilkvenna í lífi sálmanna. Að öðru leyti er þetta hefðbundinn passíusálmaflutningur eins og tíðk- ast víða á föstudaginn langa” segir Steinunn að endingu. grþ Konurnar sem fram koma í Hallgrímskirkju í Saurbæ á föstudaginn langa. F.v. Arna Kristín Einarsdóttir, flautuleikari sem sér um tónlistarflutning. Þá koma leikkonurnar sem flytja sálmana: Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Helga Elínborg Jónsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir. Ljósm. Hilmar Þorsteinn. Lesa Passíusálmana til minningar um fjórar konur Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur hefur rannsakað líf Hallgríms Péturssonar og Guðríðar eiginkonu hans síðastliðin þrjátíu ár. Myndin er tekin í garðinum utan við æskuheimili hennar á Akranesi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.