Vísbending


Vísbending - 23.12.2013, Blaðsíða 5

Vísbending - 23.12.2013, Blaðsíða 5
5 Stöðvið heiminn, hér fer ég út! BENEdIKT JÓHaNNESSON F yrir tæplega 50 árum sýndi Þjóðleikhúsið söngleik með þessum eftirminnilega titli. Stundum koma þeir tímar í lífi fólks að því líður eins og best sé að byrja allt upp á nýtt, nýtt líf á nýjum stað. Á Íslandi hafa margir þurft að yfirgefa heimaslóð og freista gæfunnar annars staðar. Leiðin hefur legið úr sveitum í þorp, bæi og loks borg. Spurningin er: Heldur ferðin áfram út í heim? Á undanförnum misserum hafa Íslendingar flutt hundruðum ef ekki þúsundum saman til Noregs, Svíþjóðar og annarra nágrannalanda. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar ákveða að yfirgefa heimahagana og freista gæfunnar úti í heimi. Hvað veldur? Í þessari Jólavísbendingu er farið yfir flutningana miklu innan Íslands og þeir skoðaðir frá ýmsum sjónarhornum. Vilhjálmur Hjálmarsson, sem var þingmaður og ráðherra, hefur bráðum fyllt heila öld. Hann bjó lengst af í Mjóafirði, sveitarfélagi sem er afskekkt og hefur sífellt orðið fámennara. Hann segir í viðtali frá því hvað drifið hefur á dagana. Sums staðar býr enginn nú orðið. Jökulfirðir, Aðalvík, Hornstrandir og Norðurstrandir fóru í eyði og eru nú friðland dýra og ferðamanna. Heil þorp eins og Skálar á Langanesi hafa horfið. Reykjavík hefur þróast með sínum hætti, borgarþorp sem stækkar í takt við þá fararskjóta sem fólki standa til boða. Hvað hugsaði sveitamaðurinn sem aldrei vildi koma til Reykjavíkur? Hvað hugsa þeir sem hafa með hugviti sínu skapað verðmæti sem menn ásælast víða um heim? Skálholt var á 17. öldinni höfuðstaður landsins í þeim skilningi að þar bjó Brynjólfur Sveinsson, valdamesti maður þjóðarinnar og líklega vitrasti maður landsins. En sitt er hvað, gæfa og gjörvileiki. Harmsagan um Ragnheiði dóttur hans er okkur hugstæð enn þann dag í dag. Íslendingar eru hreyknir af uppruna sínum En lítið er talað um sögur af uppruna ása í Tyrklandi. Óðinn kom samkvæmt fornum sögnum þaðan til Norðurlanda. Eigum við þar forna frændur? Einu sinn var sagt að fyrr kæmist úlfaldi gegnum nálaraugað en auðugur maður inn í himnaríki. Líkur þess auðuga á inngöngu hafa batnað á seinni öldum og það er ekki lengur syndsamlegt að vera ríkur, svo fremi að menn hafi unnið fyrir auðnum hörðum höndum. Nú eru 30 ár síðan Vísbending var fyrst gefin út. Á þessum 30 árum hafa verið skrifaðar um 5.500 greinar í blaðið og það er mikill fróðleiksbrunnur um efnahagsmál, viðskipti og jafnvel stjórnmál á þessum 30 árum. Öll Vísbendingarblöð fram til ársins 2010 eru nú aðgengileg ókeypis á vefnum www.timarit.is. Jafnframt hefur verið tekinn saman gagnagrunnur með heiti allra Vísbendingargreina frá fyrsta blaði til þessa sem menn lesa nú. Hann verður aðgengilegur á nýrri heimasíðu Heims, sem verður opnuð um miðjan janúar 2014. Þetta blað er 20. Jólavísbendingin, en blaðið hefur alltaf verið jólakveðja Talnakönnunar og Heims til vina sinna og velunnara. Við óskum þeim öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum og þökkum fyrir góð samskipti á árinu sem er að líða. V Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson. Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23, 105 Reykjavík. Sími: 512 7575. Netfang: visbending@heimur.is Umbrot og hönnun: Ágústa Ragnarsdóttir, agustaragnars@simnet.is Prentun: Oddi. Forsíðumynd: Kleifarvatn. Ljósmyndari Páll Stefánsson. Öll réttindi áskilin. © Ritið má ekki afrita án leyfis útgefanda.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.