Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 13

Neytendablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 13
Jóhannes Gunnarsson forma›ur Neytendasamtakanna Vörugjald er óréttlát skattheimta Á síðasta þingi samþykkti Alþingi lög um ráðstafanir í ríkisfjár­ málum (hinn svo kallaða bandorm) þar sem m.a. er að finna ákvæði um vörugjald á ýmsar matvörur. Lög þessi tóku gildi 1. september sl. og leggst því vörugjaldið á heildsöluverð birgja og innlendra framleiðenda frá þeim tíma. Samkvæmt heimildum Neytendasamtakanna birgðu verslanir sig upp af þeim vörum sem vörugjald er nú lagt á þannig að ljóst er að það tekur nokkurn tíma að það skili sér að fullu út í vöruverð til neytenda. Í flestum tilvikum er nú á nýjan leik verið að leggja á fjölmargar matvörur vörugjald sem fellt var niður 1. mars 2007 þegar gripið var til aðgerða til að lækka matvælaverð. Vörugjaldið er lagt á sem ákveðin krónutala á kíló eða lítra vöru. Það gleymist hins vegar oft í umræðunni að um leið og verð vörunnar er hækkað með þessum hætti hækkar einnig stofninn sem virðisaukaskatturinn er lagður á. Því þurfa neytendur að sætta sig við meiri verðhækkun en sem nemur sjálfu vörugjaldinu. Það sama á við ef verslanir leggja á vöruna í prósentum talið. Neytendasamtökin hafa lengi gagnrýnt vörugjaldið og talið það rang­ láta skattlagningu sem leggst með fullum þunga á heimilin. Oftar en ekki er einnig um mjög handahófskennda álagningu að ræða sem jafnvel mismunar samkeppnisvörum. Loks er sá stóri galli á vörugjaldinu að það hækkar verðlag og eykur þar með verðbólguna sem aftur leiðir til hækkunar á verðtryggðum lánum. Því má segja að heimilin greiði tvöfalt, fyrst í formi hærra vöruverðs og síðan vegna hækkunar á afborgunum lána. Eins og nefnt var hér fyrir ofan er oftar en ekki um rangláta skatt­ lagningu að ræða. Það eru t.d. engin rök fyrir því að á sama tíma og lagt er vörugjald á vörur sem framleiddar eru úr soja, þar með talda sojamjólk, er ekki er lagt gjald á mjólk. Hvers eiga þeir að gjalda sem eru með mjólkuróþol og geta því ekki drukkið kúamjólk? Vörugjaldið er nú lagt á flest allar drykkjarvörur, þar á meðal á kolsýrt vatn. Hvaða rök eru fyrir þeirri álagningu? Alla vega ekki heilbrigðissjónarmið. Minnt er á að vörugjald er lagt á fjölmargar aðrar vörur, eins og t.d. raftæki. Spyrja má hvaða rök séu fyrir því að hafa vörugjald hærra á samlokugrillum en brauðristum. Og þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Neytendasamtökin höfðu vonað að þegar vörugjald á matvælum var lagt af 1. mars 2007 væri um að ræða fyrsta skrefið til þess að losna við þennan rangláta og handahófskennda skatt. Því miður fjarlægjumst við nú markmiðið. Neytendasamtökin hafa skilning á því að auka þurfi tekjur ríkissjóðs við þessar erfiðu aðstæður. Að mati samtakanna eru óbeinir skattar hins vegar ekki rétta leiðin til þess. Eins og vikið var að hér að framan leiðir upptaka vörugjalds til hærri skulda heimilanna vegna áhrifa þess á verðtryggð lán. Því telja Neytendasamtökin réttari leið að hækka að beina skatta. Slíkt hefur ekki áhrif á verðtryggðu lánin. Þegar Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra byrjaði að tala fyrir sérstökum sykurskatti bentu Neytendasamtökin m.a. á þau áhrif sem slík aðgerð hefði á verðtryggðar skuldir heimilanna. Ögmundur benti þá á að hægt væri að haga því svo að slíkar álögur kæmu ekki inn í vísitölu þá sem lögð er til grundvallar verðtryggingu lána. Í umsögn Neytendasamtakanna um þetta frumvarp var tekið undir þetta sjónarmið Ögmundar. Því lögðu samtökin til í umsögn sinni að Hagstofu Íslands yrði falið „við útreikning vísitölu sem notuð er varðandi verðtryggð lán, að taka út hækkanir á óbeinum sköttum þannig að að skattahækkanir á vörum og þjónustu komi ekki inn í þann útreikning. Að sjálfsögðu myndi þetta koma áfram fram í vísitölu neysluverðs en myndi ekki vera tekið inn í útreikning sem lagður er til grundvallar varðandi breytingar á verðtryggðum lánum.” Það hefði einnig komið skuldurum til góða að það sama hefði verið gert þegar hækkaðir voru skattar á eldsneyti, áfengum drykkjum og tóbaki. Þetta var ekki gert og því þurfa heimilin í landinu að greiða meira af verðtryggðu lánunum vegna þessara skattahækkana. Og sá sem þetta skrifar á erfitt með að skilja hvers vegna lánveitendur eigi að hagnast á slíkum skattaálögum. Nóg þurfa skuldarar að greiða af lánunum þó ekki sé verið að íþyngja þeim með hærri afborgunum og hækkun höfuðstóls vegna hækkana á óbeinum sköttum. 1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2009

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.