Neytendablaðið - 01.03.2010, Qupperneq 18
„The squeaky wheel gets the grease“, sagði faðir minn iðulega
við mig þegar ég var lítil. Ég hef lifað eftir þessu mottói síðan þá,
sérstaklega þegar kemur að neytendamálum. Fyrir mér er þetta
ósköp einfalt: Ef þú ert ekki ánægður eða ef verið er að féfletta þig
eða svíkja á einhvern hátt þá áttu að láta í þér heyra.
Vegna þessarar lexíu úr bernsku gæti ég trúað því að ég teljist
ekkert sjúklega hress viðskiptavinur. Ef brotið er á mér sem
neytanda hef ég fengið það staðfest að ég beiti ísköldu augnaráði
sem lætur hitastigið falla niður fyrir frostmark, blómin deyja og
englana á himnum gráta. Og þegar mér finnst neyðarástand blasa
við í réttindamálum mínum sem neytanda spyr ég þar að auki
rólegri og nánast sönglandi röddu hvort ég megi vinsamlegast tala
við vaktstjóra/yfirmann/deildarstjóra/forstjóra. Mér til málsbóta,
hafi ég þær einhverjar, byrjar þetta oftast mjög fallega og
kurteislega enda tel ég mig vera vel uppalda og háttvísa að upplagi.
Ég geri mér ekki sérstaka ferð í búðir bara til að taka tryllinginn.
En undir niðrir kraumar samt alveg sérstök tegund af reiði. Ég
vil kalla hana réttláta reiði eða, þegar ég vil vera nákvæmari,
„Neytendakastið“. Þetta kast er ekki daglegt brauð en það brýst
samt fram með reglulegu millibili. Um það geta mínir margþjáðu
nánustu aðstandendur vottað, sem, og – jú jú –, sennilega slatti af
afgreiðslufólki verslana, veitingastaða og flugvalla, auk nokkurra
læknaritara og leigubílstjóra.
Þegar mér finnst freklega vaðið yfir neytendalínu mína getur allt
gerst. Ég hef beðið ungling á vídeóleigu um að tala skýrar og standa
beinan í baki. Ég hef fengið endurgreitt þrisvar í röð á skyndibitastað
því það var alltaf eitthvað sem klikkaði. Ég hef tafið raðir í Bónus
eða Krónunni oftar en ég hef taugar í að rifja upp vegna rangra
verðmerkinga. Ég fékk einu sinni ókeypis í Bláa lónið því ég tók
„við ollum ekki hruninu”fyrirlesturinn á þrjá skelfda starfsmenn
þegar ég sá að verðið var komið í 4.150 kr. á mann úr 1.800 kr.
Ég hélt einu sinni stutta tölu um sláturgerð þegar ég var dregin
í sultudeildina af starfsmanni Nettó þegar ég bað um sviðasultu.
Þegar ég var ung og mjó og pantaði pizzu þrisvar sinnum í viku
fékk ég verðið oft lækkað um helming ef hvítlauksolían gleymdist.
Ég hef neitað að yfirgefa röðina í Hans Petersen á Þorláksmessu
þegar ég mætti til að sækja myndir úr framköllun og þær voru ekki
tilbúnar. Yfirmaðurinn var sóttur og mér tilkynnt að myndirnar
yrðu keyrðar heim til mín mér að kostnaðarlausu. Vitið þið hvað
kom einu sinni fyrir mig á ónefndum veitingastað ofarlega á
Laugaveginum sem kennir sig við rauðan tómat? Þjónninn braut
glas og glerbrotum rigndi yfir mig og matinn minn. Við þessi
ósköp valt brauðkarfan og það kviknaði í henni. Skaðabætur? Eitt
límonchello skot. Skál. Ég sagði þjóninum að skilja flöskuna eftir á
borðinu eða hann hlyti verra af.
Og ef þið haldið að þetta sé eitthvað, hvernig haldið þið að ég
bregðist við þegar mér finnst brotið á syni mínum í þrautagöngu
þeirri sem líf neytandans er? „Farðu bara sjálfur úr skónum og
KOMDU MEÐ HÓSTAMIXTÚRUNA HANS”, gólaði ég einu sinni
á öryggisvörð í Keflavík þegar hann reyndi að fá son minn til að
fara úr skónum þegar við vorum að koma heim frá Bandaríkjunum
eldsnemma um morgun. Í ónefndri húsgagnabúð (Hæ Habitat!) var
hastað á son minn, þá 4 ára, sem fór of nærri hvítum sófa. og við
það fór hann að gráta. Einmitt það. Viðkomandi starfsmaður var
heppinn að enda ekki á slysadeild og ég álíka heppin að enda ekki
á lögreglustöðinni.
Það þarf því ekki að taka fram hversu stórkostlegur heiður það er
fyrir mig að fá að skrifa í Neytendablaðið. Það mætti líkja þessu við
það að Vesturport fengi sérstakt leyfi borgaryfirvalda í París til að
sveifla sér í Eiffelturninum, að prestur fengi að skrifa nýjan kafla í
Biblíuna, eða að Liverpoolbullur fengju að tjalda á Anfield og halda
náttfatapartí með Gerrard og Torres.
Auðvitað eigum við neytendur ekki að þurfa að enda undir borði
á veitingastöðum með limonchelloflöskur og starfsfólk á heldur
ekki að þurfa að enda á slysadeild. En að gefnu tilefni vil ég minna
eigendur verslana og veitingastaða á að nú á tímum verðhækkana
og versnandi tíðar er nauðsynlegt að muna að við neytendur erum
meðvitaðir um rétt okkar og að við gleymum því aldrei að „the
squeaky wheel gets the grease”.
Lára Björg Björnsdóttir
Neytendakastið
18 NEYTENDABLA‹I‹ 1. TBL. 2010