Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.12.2008, Blaðsíða 11

Neytendablaðið - 01.12.2008, Blaðsíða 11
að hlusta á aðvörunarorð og sýna aðhald í ríkisfjármálum og draga úr neyslu. Fyrir 4 árum sagði ég á þingi: „Hið svokallaða góðæri sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa stært sig af er einfaldlega fengið að láni.“ Ég benti einnig á að aukning neysluútgjalda heimilanna ætti sér ekki stoð í auknum kaupmætti heldur væri hún fjármögnuð með lántökum, erlendum og innlendum. Bent var á fjölmargar aðgerðir sem ekki var ráðist í þá en eru þó komnar í farveg núna.“ Hægt að hafa vit fyrir fólki? En nú er varla hægt að banna fólki að taka neyslulán? „Nei, það á ekki að banna fólki að taka lán. Hins vegar ættu lánveitendur að gera ríkari kröfur um greiðslumat. Auðvitað er fólk ábyrgt fyrir sínum gjörðum en hins vegar er alveg ljóst að fjármálafræðslu er mjög ábótavant hér á landi.“ Eignir á bak við skuldir Þegar rætt hefur verið um slæma skulda­ stöðu heimilanna hefur iðulega verið bent á það séu eignir á bak við skuldirnar. Var ekki óábyrgt að tala með þessum hætti? „Auðvitað skipti máli að það voru eignir á móti. Menn þurfa að líta á allt dæmið. En skuldirnar voru hins vegar komnar út úr öllu korti, eins á var bent, og verðmæti eigna getur breyst hratt, eins og dæmin sýna. Þegar bankarnir lenda síðan í lausafjárkreppu hrynur spilaborgin eins og varð raunin. Þá skipti eignastaðan litlu máli. Atburðir undanfarinna vikna sýna hins vegar að reksturinn hjá mörgum þessara fyrirtækja var ekki ábyrgur því annars hefðu hlutirnir ekki þróast eins og þeir gerðu,“ segir Ágúst að lokum. Þarf að kenna þjóðinni að spara Þótt það hafi að mestu verið hlutverk stjórn­ arandstöðunnar að gagnrýna efnahags­ stjórnina höfðu einstaka stjórnarliðar einnig áhyggjur af gangi mála. Einn þeirra er Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags­ og skattanefndar. Hann hefur í gegnum tíðina verið talsmaður þess að fólk sýni fyrirhyggju í fjármálum og hefur ítrekað varað við mikilli skuldasöfnun einstaklinga. Pétur segir nokkrar ástæður fyrir mikilli skuldasöfnun þjóðarinnar. „Í 40 ár var Íslendingum kennt að það borgaði sig ekki að spara. Áður en verðtryggingunni var komið á um 1980 var staðan þannig að verðbólgan át upp sparifé landsmanna og það var hagkvæmara að eyða peningunum strax en að leggja þá til hliðar. Með tilkomu verðtryggingarinnar breyttist umhverfið algerlega og þá varð ekki lengur ódýrt að skulda. Hins vegar breyttu Íslendingar ekki fyrri háttum og héldu áfram að taka lán sem aldrei fyrr. Það hefði þurft að fara í átak og kenna þjóðinni að spara, ekki ósvipað og þegar hægri umferð var tekin upp og það þurfti beinlínis að kenna þjóðinni að keyra upp á nýtt.“ Skuldsett þjóð Gátu stjórnvöld komið í veg fyrir lántöku fólks? Pétur segir svo ekki vera því hver og einn beri ábyrgð á fjármálum sínum. Íslendingar séu þó því marki brenndir að vilja eignast hlutina strax í stað þess að spara og bíða. Á undanförnum árum hefur verið mikið framboð á lánsfé og Íslendingar hafa tekið því fagnandi. Hins vegar megi benda á að það séu ekki bara heimilin sem hafi farið of geyst það eigi líka við um ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki. Peningamálastefna sem ekki virkar Pétur hefur gagnrýnt peningamálastefnuna undanfarin ár. Hann bendir á að samkvæmt hefðbundinni hagfræði ættu háir stýrivextir að slá á þenslu þar sem háir vextir ættu að öllu eðlilegu að þýða minni útlán og meiri sparnað. Íslendingar hafa þó aldrei látið háa vexti aftra sér frá lántöku enda hafa þeir lítið verðskyn gagnvart vöxtum. Hins vegar hafi þessi hávaxtastefna m.a. leitt til þess að meiri gjaldeyrir streymdi inn í landið sem þýddi sterkari krónu og lægra verð á innfluttum vörum sem olli svo enn meiri þenslu sem aftur kallaði á stýrivaxtahækkun. Háir vextir höfðu því miður lítil áhrif á verðbólguna því stór hluti lánamarkaðarins er verðtryggður og annar hluti í erlendri mynt. Yfirdráttarlán slæmur kostur Pétur furðar sig á háum yfirdráttarlánum Íslendinga: „Einstaklingar ættu hreinlega ekki að vera með yfirdrátt nema í einhverjum neyðartilfellum. Um er að ræða lán sem eru ætluð fyrirtækjum og eru án gjalddaga auk þess sem vextirnir eru himinháir. Í dag er áætlað að hvert mannsbarn sé að meðaltali með yfirdráttarlán að upphæð 200.000 kr. Það þýðir að hver fjögurra manna fjölskylda skuldar að meðaltali 800.000 kr. í yfirdráttarlán.“ Lærum af áfallinu Pétur, sem dvaldi í Þýskalandi á námsárum sínum, segir að Íslendingar séu nokkuð sér á báti þegar kemur að fjármálum. Hann segir Þjóðverja og flesta Evrópubúa mun aðhaldssamari í fjármálum. Eðlilegt sé að heimilin eigi 3­6 mánaða útgjöld í banka. Hann segist þó vona að þjóðin verði skynsamari í fjármálum í framtíðinni og kannski verði þetta áfall núna til að breyta hugsunarhætti okkar Íslendinga. „Við verðum að hafa hugfast að lán er ekki það sama og „lán“, þ.e. hamingja“, segir Pétur. Mikið hefur verið flutt inn af bílum undanfarin ár. Með breytingum á lögum um vörugjöld og virðisaukaskatt á nú að auðvelda útflutning á þessum sömu bílum. 11 NEYTENDABLA‹I‹ 4. TBL. 2008

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.