Húnavaka - 01.05.1979, Blaðsíða 17
HÚNAVAKA
15
í Holtastaðakoti. í millitíðinni höfðu þau m.a. verið eitt ár í Hamra-
koti hjá Eysteini Björnssyni, móðir mín sem ráðskona en Halldór sem
vinnumaður. Annað ár voru þau á Orrastöðum hjá Sigurgeir Björns-
syni, Eysteinssonar, sem þá var að hefja búskap.
Þetta var árið 1915, árið áður en þau fóru í Holtastaðakot. Þangað
fór ég um vorið, sem vinnumaður, og var þar til vors 1923, þó þannig
að þrjú síðustu árin var ég að nokkru í vegavinnu.
Áður er á það drepið að ég hneigðist snemma að bókum, og ól með
mér á unglingsárunum löngun til náms. En svo sem sjá má af fram-
ansögðu, buðu kringumstæðurnar ekki beinlinis upp á slíkt, og öll mín
skólaganga var ellefu vikur í barnaskóla. Þessi skólavist mín þó skömm
væri, reyndist mér samt notadrjúg. Hún beindi mér á braut þekking-
arleitarinnar, þó ég yrði svo þaðan í frá að ganga hana óleiddur og
áfangasmár.
Á þessum vinnumannsárum mínum viðaði ég drjúgum að mér
bókum. Að vísu var kaupið lágt, en bækur var hægt að fá fyrir ótrúlega
lítinn pening, ef passað var upp á tækifærin. Þau gáfust oft góð á
uppboðum. Algengt verð á bók á uppboði á þessum árum voru tíu,
fimmtán eða tuttugu aurar, eftir stærð og útliti. Ég reyndi að láta mig
ekki vanta á uppboð, teldi ég þar bóka von, jafnframt því að ég sat mig
ekki úr færi, hefði ég grun um að einhverjum kunnugum væri bók eða
bækur útfalar, Með þessum aðferðum, tókst mér að komast yfir margt
ágætra bóka, sem í dag eru hvergi fáanlegar.
Vorið 1923 brugðu fósturforeldrar Skarphéðins hálfbróður míns
búi, og fluttist hann þá til foreldra sinna að Holtastaðakoti, og varð
mín þá síður þörf þar heima.
Þá réði ég mig í vegavinnu til Steingríms Davíðssonar frá vori til
hausts, að undanskildum nokkrum vikum, sem ég nýtti til að heyja
fyrir skepnum minum.
Veturinn 1919-1920 var ég hjá Sigurgeir Björnssyni á Orrastöðum.
Bú var þar allstórt, miðað við það sem þá gerðist, eða liðlega 300 fjár
og á milli 50 og 60 hross, auk nokkurs nautpenings, sem ég hafði ekki
með að gera. En féð og hrossin hirtum við Sigurgeir og var ærinn starfi,
því að innistaða var að kalla algjör, frá því í nóvember og framúr,
vegna harðviðra og jarðbanna.
Sigurgeir var ágætur húsbóndi, glaðsinna og ræðinn og lét í engu
bugast þrátt fyrir illvígt árferði.
Á árunum 1924-1928 vann ég til skiptis, hjá móður minni og Hall-