Húnavaka - 01.05.1979, Blaðsíða 134
132
HÚNAVAKA
matreiðslubók og láta hana ganga milli félaganna. Á mörgum fund-
um var rætt um hjúkrunarmál, enda mikil þörf úrbóta á því sviði. Þá
ólu enn allar konur börn sín í heimahúsum og sjúklingar voru heima í
lengstu lög. Þetta var fyrir daga trygginganna, þegar sjúkrahúsvist var
efnaminni heimilum ofviða, nema hjálp kæmi utanfrá. í fundarsam-
þykkt frá aðalfundi 1939 segir að kosta skuli stúlku til hjúkrunarnáms,
enda komi hún til starfa hjá félögunum að loknu námi. Þetta komst þó
aldrei í framkvæmd, því engin stúlka fékkst til að læra hjúkrun á
vegum sambandsins.
Þegar hafist var handa um undirbúning að byggingu Héraðshælis-
ins, undir forystu Páls Kolka læknis, ríkti mikill einhugur um það mál
í héraðinu. Öllum var ljóst að með tilkomu þess yrði brotið blað í
heilbrigðismálum í sýslunni.
Var þá hafin fjársöfnun innan sambandsins og kvenfélaganna. Á
vegum S.A.H.K. voru nokkrir sjóðir, stofnaðir til styrktar líknar- og
mannúðarmálum. Allir voru þeir smáir. Á aðalfundi 1949 var sam-
þykkt svohljóðandi tillaga: „Þar sem Tryggingarstofnun ríkisins hefur
nú tekið að sér hlutverk flestra þeirra sjóða, er stofnað var til á vegum
sambandsins til styrktar bágstöddum, telur fundurinn eðlilegt að
skipulagsskrám þeirra verði breytt — í samráði við aðstandendur
þeirra svo þeir megi ganga til Héraðshælisbyggingarinnar.“ Á 25 ára
afmæli sambandsins 1953 afhenti Þuríður Sæmundsen formaður
krónur 100.000 til byggingar Héraðshælisins. Var það framlag sam-
bandsins, söfnunarféð frá kvenfélögunum og líknarsjóðirnir.
Árið 1960 var ráðin aðstoðarstúlka er skyldi vera til hjálpar á
heimilum í veikindatilfellum. Þetta gaf góða raun og varð víða mik-
ilsverð hjálp. Þessu starfi var framhaldið í nokkur ár, en lagðist niður,
þegar ekki reyndist lengur unnt að fá stúlkur til starfans.
Á vegum sambandsins hefur verið haldinn fjöldi námskeiða. í mörg
ár voru saumanámskeið á Blönduósi síðari hluta vetrar. Voru þau
ávallt vel sótt, enda voru kennararnir áhugasamir og færir í sínu starfi.
Einnig fóru kennarar heim í félagsdeildirnar og kenndu saum, vél-
prjón, matreiðslu og fleira, eftir því sem tilefni gáfust til.
Sambandið hefur gengist fyrir sýningum af ýmsu tagi. Stórum
handavinnusýningum í tengslum við 25 og 40 ára afmælin, og auk
þess eru oft haldnar sýningar á aðalfundum. Sér þá félagið, sem
fundinn heldur um uppsetningu hverju sinni.