Húnavaka - 01.05.1979, Blaðsíða 84
BJÖRN MAGNÚSSON:
Helgi malari
Ég var fárra ára gamall, þegar ég man fyrst eftir Helga frænda.
Hann mun þá hafa verið um fertugt. Mér varð allstarsýnt á hann.
Hann var ólikur öllum, sem ég hafði séð. Höfuðið fyrir ofan gagn-
augun var ákaflega stórt, en niðurandlitið við hæfi og fremur frítt.
Skeggið ljósjarpt alskegg, vel hirt og ætíð greitt. Augun blágrá, ofur-
lítið skökk, svo að honum veittist erfitt að horfa beint að öllum jafnaði.
Svipurinn góðmannlegur.
Feiminn var hann og ódjarfmannlegur, það var eins og hann væri
sífellt að biðjast afsökunar á því að hafa fæðzt inn í þennan heim
hraustra manna, sem höfðu engin líkamslýti.
Hann var tæplega meðalmaður á hæð, og sýndist lægri vegna þess
hve hann seig niður, þegar hann stóð. Hann var svo stirður um
hnjáliði og mjaðmaliði, að hann átti mjög erfitt um gang. Hann var
ákaflega skrefstuttur, og þýfða jörð gat hann naumast gengið, að
komast upp á háa þúfu var honum ofraun,nema skríða.
Það var með ólíkindum, hve langt hann komst yfir daginn, þegar
hann var á ferðalagi. Hann fór ætíð snemma af stað, kom hvergi til að
hvílast eða fá sér hressingu, fyrr en áfanga var náð. Með þolinmæði og
seiglu keppti hann að markinu og náði því jafnan.
HELGI TÍMÓTEUS, sem venjulega var kallaður Helgi malari, fæddist árið 1855.
Hann var sonur Guðmundar Guðmundssonar, Jónssonar á Refsteinsstöðum og Sig-
urlaugar Guðmundsdóttur á Stóru-Ásgeirsá.
Guðmundur Guðmundsson bjó í Enniskoti í Víðidal. Hann kvæntist Sigþrúði
Jóhannsdóttur, Tómassonar prests að Hesti.
Börn Guðmundar og Sigþrúðar voru Björn Þorbergur, Sigurlaug, Helgi Tímóteus,
sem fyrr er nefndur og Ingólfur.
Sigurlaug varð kona Magnúsar Kristinssonar frá Hólabaki. Þau bjuggu á Ægissíðu
á Vatnsnesi og er Björn höfundur þessarar frásagnar sonur þeirra.