Húnavaka - 01.05.1979, Blaðsíða 61
HÚNAVAKA
59
Oftast lágu lömbin eftir á þurru landi, en það henti þó að þau fylgdu
mæðrum sínum út í vatnið og drukknuðu, ef menn komu ekki í tæka
tíð þeim til hjálpar. Þetta þótti mér alltaf eitt af því óhugnanlegasta í
sambandi við slys á skepnum í Hvammi.
Veturinn 1922-23 var sá besti, sem ég man eftir í Hvammi. Þá var
mikið beitt og ánum sleppt mánuði fyrir sumar. En í byrjun maí gerði
slæmt hríðarskot og þá var féð tekið á hús og gjöf í nokkra daga.
Venjulega fóru 2'/2-3 hestar af heyi í kind, en þennan vetur fór ekki
nema helmingur af því heymagni. Annars var fóstri minn ekkert mikið
fyrir að láta halda fénu stíft til beitar, og hann sagði stundum að það
mætti gá að því að féð hefði fyrir ferðalaginu úti. Einstöku sinnum var
ánum sleppt áður en kominn var gróður og fór það að sjálfsögðu eftir
tíðarfarinu, en ef tíð versnaði að ráði, var það tekið aftur. Gemling-
arnir voru alltaf hafðir geldir og þeim var venjulega sleppt fyrr en
ánum.
— Hvenœr hófst sauðburðurinn, og hvað er um hann að segja?
— Ærnar áttu alltaf að byrja að bera fjórar vikur af sumri, út af
þeirri reglu var ekki brugðið. Langoftast var þá farið að gróa, svo að
hægt var að láta ærnar bera úti. Það greri snemma út með fjallinu og
ærnar héldu sig mikið þar. Á daginn sóttu þær mikið í flóann, en
drógu sig upp á grundir og geira á kvöldin. Þar báru þær flestar og
fóru ekki mikið niður í flóann með lömbin fyrr en þau voru orðin
nokkurra daga gömul. Stundum flæddi Vatnsdalsá yfir mestallt lág-
lendið. Það var þó ekki nema í hitatíð og þá þaut gróðurinn upp.
Einstöku vor komu ekki teljandi flóð, í önnur skipti stóðu þau ekki
nema stuttan tíma, en stundum var aðra sögu að segja. Veturinn
1919-20 var ákaflega snjóþungur, enda oft nefndur snjóaveturinn
mikli. Þá hlánaði ekki fyrr en mánuð af sumri og þá var allt undir-
lendið í Hvammi undir vatni í hálfan mánuð. Ærnar voru farnar að
bera, þegar áin flæddi upp, og það var þröngt um þær þá. Allan
sauðburðartímann var gengið vandlega til ánna og eftir mörgu þurfti
að líta öðru en sauðburðinum sjálfum því að hættur voru víða bæði
fyrir lömb og fullorðið fé.
Eftir að gróður var kominn í úthaga mátti engin skepna koma í
túnið og þá varð að vaka yfir vellinum eins og það var kallað. Það þótti
mér leiðinlegt starf, en varð þó að gera það nokkur vor.
Meðan á sauðburði stóð var ekki mikil ásókn í ánum að komast í