Húnavaka - 01.05.1979, Blaðsíða 167
HÚNAVAKA
165
Næstu árin dvaldi Eysteinn á vetrum ýmist hjá Brynhildi dóttur
sinni og Karli manni hennar á Hrauni í Ölfusi eða hjá Kára syni
sínum og Fjólu konu hans í Reykjavík. Einnig dvaldi Eysteinn hér
nyrðra hjá vinum sínum á vetrum.
Með Eysteini Björnssyni er genginn sterkur persónuleiki sem þeir
eru margir frændur, afkomendur Björns Eysteinssonar, er kunnur var
fyrir atorku og harðfylgi.
Hann var mikið náttúrubarn, er undi hag sínum best í skauti
öræfanna, þar sem kyrrð vornæturinnar ríkir og ómældar víðáttur
landsins skapa þann heim, er enginn fær nær komist, nema sá, sem lifir
hann og reynir.
Hann var jarðsettur á Blönduósi 9. maí.
Sigurlaug Jónasdóttir frá Ási andaðist á Héraðshælinu 14. júlí. Hún
var fædd 11. júlí 1897 að Holti á Ásum. Voru foreldrar hennar hjónin
Jónas Jóhannsson, bóndi i Kárdalstungu og víðar, Guðmundssonar.
Móðir Jónasar var Margrét Jóelsdóttir frá Saurbæ. Móðir Sigurlaugar
var Jóhanna Jóhannsdóttir frá Brandaskarði á Skagaströnd Jóhann-
essonar, bónda á Ásbúðum á Skaga. Amma Sigurlaugar var Sigurlaug
Magnúsdóttir af hinni svo kölluðu Guðlaugsætt.
Var Sigurlaug alsystir Ingibjargar, á Breiðabólstað, sem fyrr er um
getið.
Vorið 1899 fluttist Sigurlaug með foreldrum sínum að Smyrlabergi
og tveim árum síðar eða árið 1901 að Litla-Búrfelli, þar sem foreldrar
hennar bjuggu við mikla fátækt um nokkurra ára skeið.
Þann 25. mars 1906 lést móðir hennar á besta aldri frá 8 ungum
börnum. Ári síðar brá faðir hennar búi og fór þá vistráðinn að
Hvammi í Vatnsdal og fylgdi Sigurlaug honum þangað. Þar dvaldi
hún um árabil eða til 18 ára aldurs er hún réðist í vist að Eyjólfsstöðum
í Vatnsdal.
Haustið 1918 innritaðist hún í Kvennaskólann á Blönduósi og út-
skrifaðist þaðan vorið 1920. En vorið 1921 keypti Jónas faðir hennar,
Kárdalstungu og hóf þar búskap. Þá um vorið réðist Sigurlaug til hans
sem ráðskona. Skömmu siðar tók Sigurlaug tvö ung fósturbörn, en þau
eru: Kristjana Benediktsdóttir, bróðurdóttir hennar, gift Frank
Monney starfsmanni á Keflavikurflugvelli og eru þau búsett í
Ytri-Njarðvik. Hitt fósturbarnið er Lárus Konráðsson, bóndi á
Brúsastöðum, en hann er kvæntur Ragnheiði Blöndal.