Dagblaðið Vísir - DV - 18.01.2010, Blaðsíða 9
FRÉTTIR 18. janúar 2009 MÁNUDAGUR 9
Guðbjörg Matthíasdóttir, útgerð-
arkona og kvótaeigandi frá Vest-
mannaeyjum, er einn þeirra þriggja
aðila sem gert hafa Íslandsbanka
tilboð í hlut bankans í olíufélaginu
Skeljungi, samkvæmt heimildum
DV. Guðbjörg, sem er einn auðug-
asti einstaklingur landsins, er meðal
annars stærsti hluthafinn í Morgun-
blaðinu en fjárfestahópur með hana
í broddi fylkingar keypti blaðið af Ís-
landsbanka á fyrri hluta árs 2009.
Tilboð Guðbjargar er eitt af þrem-
ur skuldbindandi tilboðum með fyr-
irvörum sem bárust til fyrirtækjaráð-
gjafar Íslandsbanka í 49 prósent hlut
bankans í olíufélaginu í lok desem-
ber í fyrra. Stefnt er að því að bind-
andi tilboð í Skeljung berist í byrjun
febrúar 2010. Afar ólíklegt er að hátt
verð fáist fyrir hlutinn þar sem olíu-
félagið er kengskuldsett þó svo að
rekstur þess gangi nokkuð vel, sam-
kvæmt heimildum DV.
Játar hvorki né neitar
Sigurbjörn Magnússon, lögmað-
ur Guðbjargar, segist aðspurður
ekki geta rætt um málið í fjölmiðl-
um á þessari stundu. „Ég vil ekkert
segja um þetta. Ég er ekki í aðstöðu
til þess,“ segir Sigurbjörn. Hann ját-
ar því hins vegar hvorki né neitar að
Guðbjörg hafi skilað inn tilboði í hlut
bankans í olíufélaginu.
Már Másson, upplýsingafulltrúi
Íslandsbanka, segist aðspurður ekki
geta svarað því hvort Guðbjörg hafi
gert tilboð í Skeljung eða ekki. Hann
segist ekki vita hverjir hafi gert tilboð
í olíufélagið þar sem alger „eldvegg-
ur“ sé á milli fyrirtækjaráðgjafarinn-
ar og annarra deilda bankans varð-
andi slík mál.
Á sunnudaginn náðist ekki í Höllu
Sigrúnu Hjartardóttur, hjá fyrirtækja-
ráðgjöf Íslandsbanka, til að spyrja
hana út í tilboðin sem bankanum
bárust í olíufélagið.
Styrinn um Skeljung
Mikill styr hefur staðið um Skeljung
á liðnum árum og hefur olíufélagið
skipt nokkrum sinnum um eigendur.
Þeir sem eiga 51 prósent í félaginu á
móti Íslandsbanka eru Guðmundar
Arnar Þórðarson, Birgir Þórs Bielt-
velt og Svanhildur Nanna Vigfúsdótt-
ir. Þau sitja í stjórn félagsins á móti
tveimur fulltrúum Íslandsbanka,
Ríkharði Ottó Ríkharðssyni og Herði
Felixsyni.
Þremenningarnir keyptu 81 pró-
sent hlut í Skeljungi í nóvember 2008
og hélt Glitnir eftir 19 prósenta hlut.
Bankinn hélt eftir eignarhluta í olíu-
félaginu því hann hafði sölutryggt
olíufélagið fyrir hönd eiganda þess,
eignarhaldsfélagsins Fons, sem var í
eigu Pálma Haraldssonar. Skeljung-
ur hafði verið í söluferli í heilt ár
þegar þau keyptu hlutinn í félaginu.
Bankinn eignaðist svo stærri hluta í
Skeljungi þegar kaupendurnir gátu
ekki keypt eins mikinn hlut í því og
samið hafði verið um. Glitnir, nú Ís-
landsbanki, sat því eftir með 49 pró-
sent í Skeljungi vegna sölutrygging-
arinnar sem samið hafði verið um
við Pálma.
Áður hafði Fons keypt Skeljung
af Högum, eignarhaldsfélagi Jóns
Ásgeirs Jóhanessonar og fjölskyldu
sem hélt meðal annars utan um eign
þeirra í Bónus og Hagkaup. Kaup
Fons á Skeljungi fóru meðal ann-
ars fyrir Samkeppniseftirlitið sem
úrskurðaði að þau væru ekki brot á
samkeppnislögum.
Þar áður hafði Skeljungur verið í
eigu aðila tengdum Kristni Björns-
syni og fjölskyldu hans og hafði hann
verið forstjóri félagsins frá 1990.
Seldi Skeljung og varð forstjóri
Eftir hrunið hefur Skeljungur verið í
kastljósi fjölmiðla vegna þess hvern-
ig staðið var að sölunni til þremenn-
inganna. Sá starfsmaður Glitnis sem
sá um söluna árið 2008 heitir Einar
Örn Ólafsson og varð hann forstjóri
Skeljungs í apríl í fyrra eftir honum
hafði verið sagt upp hjá Glitni.
Ástæða þess að Einar Örn hætti
hjá Íslandsbanka var trúnaðarbrest-
ur við forsvarsmenn bankans. Einar
hafði um nokkurt skeið hugsað sér
að finna sér aðra vinnu og var far-
inn að ræða við eigendur Skeljungs
um að taka við félaginu meðan hann
starfaði enn í bankanum, samkvæmt
heimildum DV. Forsvarsmenn bank-
ans komust á snoðir um þetta og
mátu það svo að óheppilegt væri að
hann héldi áfram að vinna í bank-
anum af þeim sökum, meðal annars
vegna þess að hann hafði aðgang að
trúnaðarupplýsingum í bankanum.
Fulltrúar Íslandsbanka í stjórn
Skeljungs, þeir Ríkharð Ottó og
Hörður Felixson, greiddu ekki at-
kvæði með því að ráða Einar Örn í
forstjórastöðuna og er líklegt að það
hafi verið vegna þess hvernig starfs-
lok hans í bankanum bar að.
Eitt síðasta verk Einars Arnar í Ís-
landsbanka var að hafa yfirumsjón
með sölunni á útgáfufélagi Morgun-
blaðsins, Árvakri, til núverandi eig-
enda félagsins, meðal annars Guð-
bjargar Matthíasdóttur.
Ólíklegt að Guðbjörg
ætli sér minnihluta
Afar ólíklegt verður að teljast að Guð-
björg ætli sér einungis að eiga minni-
hluta í Skeljungi á móti núverandi
meirihlutaeigendum. Minnihluta-
eigandinn getur ekki stjórnað fé-
laginu, líkt og sagan af andstöðu Ís-
landsbanka við ráðningu Einars ber
með sér. Ef Guðbjörg fær að kaupa
hlut Íslandsbanka í Skeljungi er því
afar líklegt að frekari tilfæringar
verði á hlutabréfaeigninni í félaginu
á næstunni. Stóreignakona eins og
Guðbjörg sættir sig líklega ekki við
að eiga aðeins minnihluta í slíku fé-
lagi.
INGI F. VILHJÁLMSSON
Kvótakonan Guðbjörg Matthíasdóttir úr Vestmannaeyjum hefur hug á að eignast hlut Glitnis í olíufélaginu
Skeljungi. Skilaði inn tilboði ásamt tveimur öðrum. Lögmaður Guðbjargar vill hvorki staðfesta né neita að
hún vilji eignast Skeljung. Mikill styr hefur staðið um félagið á liðnum árum.
GUÐBJÖRG VILL
KAUPA SKELJUNG
„Ég vil ekkert segja um
þetta. Ég er ekki í að-
stöðu til þess.“
Sölutryggt fyrir Pálma Glitnir sölutryggði Skeljung fyrir Pálma Haraldsson en hann
keypti félagið af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Högum árið 2006. Vegna þessarar
sölutryggingar stóð bankinn eftir með hlutinn í Skeljungi.
Styrinn um Skeljung Skeljungur hefur skipt oft um eigendur á liðnum árum. Þrír
fjárfestar bítast um tæpan helmingshlut í félaginu og er Guðbjörg Matthíasdóttir
einn þeirra samkvæmt heimildum DV.
Seldi Skeljung og Mogga Einar Örn
Ólafsson, núverandi forstjóri Skeljungs,
hafði umsjón með sölu Glitnis og
Íslandsbanka á Skeljungi og Morgun-
blaðinu.
Ber sig eftir Skeljungi
Guðbjörg Matthíasdóttir vill
kaupa hlut Glitnis í Skeljungi.
Hér sést hún á höfninni í
Vestmannaeyjum ásamt
sonum sínum Kristni og
Magnúsi árið 2007 þegar
togarinn Guðmundur VE kom
til landsins frá Póllandi eftir
miklar endurbætur. Togarinn
er í eigu útgerðarfélags
Guðbjargar, Ísfélagsins.