Dagblaðið Vísir - DV - 09.02.2011, Qupperneq 25
Sport | 25Miðvikudagur 9. febrúar 2011
4 Tottenham
4 Aston Villa
Október 2007
Það var lítil gleði á White Hart Lane þegar
Tottenham lenti 1–4 undir á móti Aston Villa á 125.
afmælisdegi félagsins. Búlgarinn Dimitar Berbatov
kom Tottenham yfir með skalla eftir hornspyrnu á
19. mínútu en eftir það komu fjögur í röð frá Villa.
Það voru þeir Martin Laursen, Gabriel Agbonlahor
og Craig Gardner sem sáu um markaskorunina.
Heimamenn bauluðu á lið sitt og Martin Jol sem var
orðinn vel valtur í sessi. Innkoma Jermain Defoe
gerði að verkum að Spurs tók við sér og komst aftur
inn í leikinn þegar Pascal Chimbonda skoraði eftir
að Defoe hafði þrumað í stöngina. Robbie Keane
minnkaði svo muninn enn frekar úr vítaspyrnu og
Younes Kaboul bjargaði afmælisdegi félagsins
þegar hann skoraði í uppbótartíma.
3 Wigan Athletic
2 Arsenal
Apríl 2010
Sem fyrr er það Arsenal sem verður
fyrir barðinu á baráttuglöðum liðum. Í lok
síðasta tímabils var Wigan ekki á því að
játa sig sigrað þrátt fyrir að vera 0–2 undir
á heimavelli. Líkt og á móti Newcastle var
það Theo Walcott sem kom Arsenal yfir.
Varnarmaðurinn og fyrrverandi leikmaður
Manchester United, Mikael Silvestre,
kom liðinu svo í 0–2. Ben Watson hélt hins
vegar lífinu í leiknum þegar hann skoraði tíu
mínútum fyrir leikslok. Það var svo Titus
Bramble sem jafnaði metin en markvörður
Arsenal, Lukasz Fabianski, hefði átt að
gera mun betur í báðum mörkunum. Hann
fékk þó ekki rönd við reist þegar Charles
N'Zogbia tryggði Wigan loks sigurinn í
uppbótartíma með glæsilegu skoti.
3 Liverpool
3 Man. United
Janúar 1994
Rétt tæplega 43.000 manns voru
á Anfield þegar Liverpool tók á
móti meisturunum í Manchester
United. Meistararnir voru þá 21 einu
stigi fyrir ofan Liverpool sem var í
níunda sæti. Steve Bruce, sem nú
stýrir liði Sunderland, kom United
yfir með skalla eftir sendingu frá Eric
Cantona. Ungur Ryan Giggs kom
United í 0–2 á 20. mínútu. Það var
svo Denis Irwin sem kom United í
0–3 með stórglæsilegu marki beint
úr aukaspyrnu. Útlitið var ekki gott
fyrir Graeme Souness og hans
menn. Nigel Clough var þó fljótur að
minnka muninn með glæsilegu skoti
af 25 metra færi og Liverpool-menn
voru ekki á því að gefast upp og sóttu
stíft. Clough var aftur á skotskónum
stuttu seinna og þetta gerðist allt í
fyrri hálfleik. Þeir Peter Schmeichel
og Bruce Grobbelaar vörðu svo
eins og handboltamarkmenn áður
en varnartröllið Neil Ruddock
fullkomnaði endurkomuna á 79.
mínútu með hörkuskalla.
Newcastle United setti met
í úrvalsdeildinni um helgina
þegar liðinu tókst að ná
jafntefli gegn Arsenal eftir
að hafa lent fjórum mörkum
undir. Aldrei áður hafði lið
náð stigi úr leik eftir að hafa
lent 4-0 undir í sögu úrvals-
deildarinnar. Það er fátt sem
kristallar meira anda knatt-
spyrnunnar en endurkoma af
þessu tagi. Þegar út á grasið
er komið er allt hægt. DV tók
saman nokkrar af eftirminni-
legustu endurkomum úrvals-
deildarinnar frá upphafi.
3 Tottenham
5 Man. United
September 2001
Hvaða lið annað en United á eina
mögnuðustu endurkomu deildarinnar frá
upphafi? Eftir að hafa verið slegnir í rot
með leiftrandi sóknarbolta Tottenham í
fyrri hálfleik virtust meistararnir ekki eiga
nein svör. Dean Richards átti draumabyrj-
un í sínum fyrsta leik fyrir Tottenham og
skoraði fyrsta markið snemma leiks. Þeir
Les Ferdinand og Christian Ziege bættu
svo við einu marki hvor. Það mætti hins
vegar annað United-lið inn á í síðari hálfleik
og sýndi Tottenham að þeirra sóknarbolti
var ekki síður leiftrandi. United rúllaði
Tottenham upp í hálfleiknum með fimm
mörkum frá þeim Andy Cole, Laurent
Blanc, Ruud van Nistelrooy, Juan
Sebastian Veron og David Beckham.
4 Wolves
3 Leicester
Október 2003
Leicester City var nokkuð sannfært um að það væri að
binda enda á fjögurra leikja taphrinu þegar það leiddi
0–3 gegn Wolverhampton Wanderers. Markamaskínan
Les Ferdinand skoraði tvívegis áður en Riccardo
Scimeca bætti við því þriðja. En Úlfarnir skráðu sig í
sögubækur úrvalsdeildarinnar með því að skora fjögur
mörk í síðari hálfleik. Colin Cameron kom knettinum í
netið tvívegis áður en Alex Rae jafnaði metin. Það var
svo Henri Camara sem tryggði Úlfunum annan sigur
þeirra í úrvalsdeildinni frá upphafi.
endurkomur
Ótrúlegar
2 Manchester City
3 Liverpool
Október 2008
City-menn voru í skýjunum eftir að liðið varð
eitt það ríkasta í heiminum eftir eigendaskipti.
Þeir sýndu Liverpool svo um munaði í fyrri
hálfleik að efstu fjögur sætin í úrvalsdeildinni
voru ekki lengur í áskrift. Stephen Ireland kom
heimamönnum yfir áður en Javier Garrido jók
muninn með glæsilegu marki úr aukaspyrnu.
Liverpool-menn gáfust hins vegar ekki upp og
töframaðurinn Fernando Torres skoraði tvívegis
auk þess sem Pablo Zabaleta fékk að líta rauða
spjaldið. Það varð hins vegar aftur jafnt í liðum
stuttu seinna þegar Liverpool missti mann af
velli vegna meiðsla og allar skiptingar búnar. Það
var svo Hollendingurinn þindarlausi, Dirk Kuyt,
sem tryggði Liverpool sigurinn í uppbótartíma.
3 Southampton
3 Liverpool
Ágúst 2000
Gerard Houllier viðurkenndi að tebollar hefðu næstum
því farið á flug inni í búningsklefa eftir að lið hans tapaði
niður 0–3 forskoti á móti Southampton í ágúst árið 2000.
Michael Owen virtist vera nálgast sitt besta form eftir
meiðsl og skoraði tvívegis á Dell-leikvanginum. Varnar-
tröllið Sami Hyypia skallaði svo knöttinn í netið þess á
milli. Allt stefndi í öruggan Liverpool-sigur þangað til lett-
neski sóknarmaðurinn Marians Pahars minnkaði muninn
á 75. mínútu. Varnarmaðurinn Tahar El Khalej bætti svo
við öðru marki áður en Pahars jafnaði í uppbótartíma.
5 Man. United
2 Tottenham
Apríl 2009
Titilvonum United virtist ógnað eftir að liðið lenti
tvö núll undir á móti Tottenham á Old Trafford. Þeir
Darren Bent og Luca Modric skoruðu mörk gestanna
sem virkuðu sannfærandi. Allt stefndi í fyrsta sigur
Tottenham á Old Trafford í 20 ár. Strax í upphafi síðari
hálfleiks fékk United dæmda vítaspyrnu eftir að hafa
fellt Michael Carrick. Cristiano Ronaldo tók vítið
og skoraði eitt af 26 mörkum sínum þetta tímabilið.
Hófst þá veislan en Wayne Rooney jafnaði skömmu
síðar áður en Ronaldo kom liðinu svo í 3–2. Það voru
svo Rooney og Dimitar Berbatov sem innsigluðu
sigurinn. United varð meistari þetta tímabilið.