Dagblaðið Vísir - DV - 27.06.2012, Blaðsíða 10

Dagblaðið Vísir - DV - 27.06.2012, Blaðsíða 10
TeksT á við fæðingarþunglyndi 10 Fréttir 27. júní 2012 Miðvikudagur Á gústa Sif Aðalsteinsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn fyrir þremur mánuðum. Hún naut meðgöngunn- ar og beið spennt ásamt manni sínum eftir komu barnsins í heiminn. Eftir að barnið fæddist byrjaði Ágústa að finna fyrir mik- illi vanlíðan sem ágerðist stöðugt. Það var ekki fyrr en hún var kom- in á fremsta hlunn með að gera barni sínu mein að hún áttaði sig á að eitthvað væri að og bar sig eft- ir hjálp. Í dag er hún í meðferð við fæðingarþunglyndi og hlakkar til að fara njóta móðurhlutverksins. Þessi hugrakka stúlka stígur nú fram og segir sögu sína um barátt- una við fæðingarþunglyndi í von um að opna umræðuna og að kon- ur sem upplifa fæðingarþunglyndi sjái að það er hjálp að fá. Enginn eigi að þurfa að þjást í hljóði. Spennt fyrir barninu „Ég var rosalega spennt fyrir með- göngunni og var rosalega spennt fyrir því að eignast barn. Þetta var í raun algjör drauma meðganga og ég gat unnið alveg fram að fæðingu.“ Ágústa gekk með tvær vikur fram yfir áætlaðan fæðingar- dag og var því ákveðið að koma fæðingunni af stað. „Ég kveið svo- lítið fyrir því að vera sett af stað. Ég hafði bara heyrt hryllingssögur af því hjá konum. En svo var þetta bara ekkert mál. Ljósmæðurnar á fæðingardeildinni voru yndislegar og við vorum bara að tala saman og fíflast inn á milli. Við vorum rosalega spennt fyrir að vera loks- ins að fá barnið í hendurnar eftir alla þessa bið. “ Fann ekki fyrir neinu Fæðingin gekk hratt og vel fyrir sig en þegar drengurinn var lagður á brjóst Ágústu segist hún ekki hafa fundið fyrir neinum tilfinningum. „Allar konur segja að maður finni þessa yfirþyrmandi ást til barns- ins síns en ég bara lá þarna og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Ég var bara alveg dauð. Mér leið ekkert illa, en var hissa yfir því að finna ekki fyrir neinu. Ég horfði bara á hann og passaði að hann rynni ekki af mér og niður á gólf. Maðurinn minn klippti á nafla- strenginn og byrjaði svo að taka myndir af stráknum sínum á með- an hann var mældur og vigtaður. En það voru engar myndir tekn- ar af mér og mér fannst það rosa- lega særandi. Ég hugsaði með mér hvort ég liti svona illa út en þorði ekki að segja neitt. Vildi ekki vera leiðinlega mamman sem vildi alltaf vera að láta taka myndir af sér. Svo fór mér að líða eins og ég væri ekkert með í þessu, ég væri bara manneskjan sem fæddi hann og mínu hlutverki þá í raun lokið.“ Hélt að enginn vildi hitta sig Fjölskyldan fór því næst yfir á Hreiðrið þar sem Ágústa hafði bú- ist við að vinir og ættingjar kæmu og litu nýja fjölskyldumeðliminn augum. „Ég átti von á því að fólk kæmi í heimsókn, enda hafði mað- ur séð aðrar konur á deildinni taka á móti fjölskyldum sínum. Allir að taka myndir og allir brosandi og allt svo æðislegt. Sú eina sem kom í heimsókn til okkar var mamma og ég upplifði það þannig að fólk vildi ekki koma. Mér fannst ekki eins og fólk vildi gefa mér næði til að hvíla mig heldur að það vildi ekki koma. Mér fannst eins og við værum ekki merkilegri en þetta og enginn væri spenntur fyrir því að hitta okkur.“ „Langaði að hlaupa út og láta mig hverfa“ Þegar líða tók á daginn byrjaði sonurinn að láta heyra í sér. Ágústa segir vanmáttarkenndina hafi byrjað þegar hún gat ekki huggað son sinn og sjálf barðist hún við að halda tárunum í skefjum. „ Þegar hann byrjaði að gráta stressaðist ég öll upp og hugsaði bara; ó guð, hvað á ég að gera. Mér var farið að líða illa þarna. Ég skildi ekki barnið mitt og ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Mig langaði að gráta, hlaupa út og láta mig hverfa. Mér fannst ég hræðileg, ég vissi ekkert hvernig maður hugsar um barn. Eftir svona tíu til fimmtán mín- útur kom ljósmóðir inn til okkar og spurði hvort okkur vantaði hjálp. Þá leið mér enn verr því mér fannst engin alvöru móðir þurfa hjálp við að hugsa um barnið sitt. En ljós- móðirin gaf mér góð ráð í sam- bandi við brjóstagjöfina en svo var það bara eiginlega búið. Mér fannst það svolítið óþægilegt. Mér fannst eins og barninu væri bara hent framan í mig og svo var ljós- móðirin bara farin. Ég hefði viljað að það væri kíkt á okkur svolítið oftar því maður er svo rosalega óöruggur þegar maður er svona nýbakað foreldri.“ Öryggi í ljósmóðurinni Þau dvöldu á Hreiðrinu fyrstu nóttina eftir að barnið fæddist en sökum kvíða svaf Ágústa ekki mik- ið um nóttina og vaknaði reglulega upp með andfælum. Morguninn eftir beið hún með eftirvæntingu eftir að vera útskrifuð af fæðingar- deildinni og bjóst við að henni myndi fara að líða betur þegar heim væri komið. Sú varð ekki raunin. „Ég hugsaði með mér hvað yrði gott að komast heim. Þar myndi mér líða vel og allt yrði þægilegt og gott. En um leið og við lögðum af stað frá fæðingardeildinni þá hellt- ist yfir mig kvíði. Mér fannst kvíðin og stressið ágerast eftir því sem ég nálgaðist heimili okkar. Mig lang- aði ekki heim lengur. Ég sendi ljós- móðurinni. sem hafði verið með mig á heilsugæslunni, sms og sagði henni að drengurinn væri fædd- ur. Ég vissi ekkert hvort spítalinn myndi hafa samband við hana eða hvort að ég ætti að gera það. Ljósmóðirin kom um tuttugu mínútum seinna og það var æðislegt. Mér leið svo vel að hafa hana hjá mér. Mér fannst ég miklu öruggari og þegar hún var hjá mér fannst mér ég vera að standa mig vel. Ég hafði einhvern til að leið- beina mér. Mér leið enn illa en var samt öruggari.“ Ætlaði ekki að gefa ábót Það bætti ekki úr skák að brjósta- gjöfin gekk brösuglega og ofan á vanlíðanina bættist samviskubit yfir því að þurfa að gefa barninu ábót úr pela. En drengurinn var óvær og grét nánast fyrstu þrjá sólarhringana eftir að þau komu heim. „Hann var orðin hás af gráti og ég skildi ekki af hverju hann var að gráta svona mik- ið. Mamma fór og keypti þurrmjólk handa honum en ég ætlaði sko ekki að fara gefa barninu mínu þurr- mjólk. Hvernig móðir væri ég þá? Það var ekki fyrr en á fjórða degi, eftir að hafa grátið nær stans- laust allan daginn yfir því að geta ekki gefið barninu mínu að borða, að mamma blandaði í pela og við gáfum honum tvær þrjár skeiðar. Hann svaf þá í fjóra tíma og ég fékk loksins einhvern svefn. Núna hélt ég að þetta myndi allt fara að koma og ég myndi fara að finna þessa yfir þyrmandi ást til barnsins.“ Setti upp gervibros Ágústa sá nú fram á bjartari tíma og hélt að nú myndi líðan henn- ar skána. Vanlíðanin var þó enn til staðar og hún hafði ekki viður- kennt hana fyrir neinum. Enn hafði hún ekki gert sér grein fyr- ir að hún gæti mögulega þjáðst af fæðingarþunglyndi heldur upp- lifði sig einfaldlega sem vanhæfa móður. Hún segist hafa sett upp gervibros í hvert skipti sem fólk spurði hana um líðan sína. „Ég svaraði alltaf að strákurinn væri svo góður og æðislegur og að ég hefði það alveg frábært. Það gekk vel en mér fannst ég bara ekki vera að standa mig. Ég skammaðist mín fyrir hvernig mér leið og mér fannst ég ekki vera móðir. Finnst það ekki ennþá. Mér finnst bara eins og ég sé að passa barn.“ Erfitt að segja frá tilfinningunum Hún treysti sér ekki til að tala um tilfinningar sínar við manninn sinn og segir ástæðuna vera þá að hann hafi haft mjög fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig lífið ætti að vera eftir að barnið kæmi í heiminn. Þar passaði þunglyndi og vanlíðan ekki inn í myndina. „Ég er nýbúin að segja honum hvernig mér líð- ur. Hann hefur svo rosalega sterkar skoðanir á því hvernig foreldr- ar eiga að vera. Hann var búinn að segja mér þessar skoðanir sínar svo ég passaði mig að segja ekki neitt við hann. Að hans mati var það að eignast barn, það æðislegasta sem til er og það er það örugglega, en ég er ekki enn farin að finna það. Það var rosalega erfitt fyrir mig að segja honum hvernig mér leið því hann tók því mjög illa. Honum fannst ég vera að hafna sér og barninu okk- ar og hann skildi ekki af hverju mér leið svona. Hann er nýfarinn að fatta það að ég þarf að læra að þykja vænt um barnið okkar. Ég þarf að læra að láta mér líða vel.“ Erfitt að missa ljósmóðurina Vika var liðin frá fæðingunni og Ágústa kveið fyrir því að bráðum myndi ljósmóðirin hætta að vitja hennar. „Mér leið hræðilega yfir því að ljósmóðirin kæmi ekki aftur til mín. Seinasta daginn sem hún kom, langaði mig að grípa um fæt- ur hennar, gráta og biðja hana um að flytja til mín, en ég brosti bara mínu breiðasta og þakkaði fyr- ir hjálpina. Mig langaði að deyja þegar ég sá hana labba út um dyrnar. Eftir þetta einangraðist ég líka mikið því að maðurinn minn fór aftur í vinnu og mamma mín líka. Ég var bara ein. Mig langaði til að væla í manninum mínum og biðja hann um að vera heima leng- ur. En ég gerði það ekki.“ Leið eins og aumingja að hætta brjóstagjöf Eftir sex vikna basl með brjóstagjöf- ina ákvað Ágústa að hætta að reyna. „Ég fékk eiginlega enga mjólk í brjóstin. Það var samt alltaf verið að ýta á mig að reyna lengur. Það var ekki sagt við mig berum orð- um að ég yrði að gefa honum brjóst en það var það sem ég heyrði. Að ég væri ekki góð móðir ef ég væri ekki með barnið mitt á brjósti. Og ef barnið fengi ekki brjóstamjólk yrði hann alltaf veikur og bara aumingi. Það var svo mikið stress og pressa að það kom bara engin mjólk í brjóstin. Þá reif ég mig algjörlega niður og fór að hugsa af hverju ég n Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir hefur gengið í gegnum erfiðleika síðan sonur hennar fæddist Ágústa Sif og sonurinn „Um leið og við lögðum af stað frá fæðingardeildinni þá helltist yfir mig kvíði. Mér fannst kvíðin og stressið ágerast því nær sem ég kom heimili okkar. Mig langaði ekki heim lengur.“ Mynd/Sigtryggur Ari „ Ég skildi ekki barnið mitt og ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Mig langaði að gráta, hlaupa út og láta mig hverfa. Hanna Ólafsdóttir blaðamaður skrifar hanna@dv.is

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.