Dagblaðið Vísir - DV - 27.06.2012, Blaðsíða 11
TeksT á við fæðingarþunglyndi
Fréttir 11Miðvikudagur 27. júní 2012
n Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir hefur gengið í gegnum erfiðleika síðan sonur hennar fæddist
væri að reyna þetta yfir höfuð. Af
hverju ég hafði ekki bara farið í
fóstureyðingu og af hverju ég væri
svona misheppnuð.“
Datt ekki
fæðingarþunglyndi í hug
Á þessum tímapunkti var Ágústa
komin með sjálfsvígshugsanir
og hugsaði reglulega um að
taka líf sitt. „Ég hugsaði bara að
ég gæti þetta ekki og mig lang-
aði bara að fara. Það væri miklu
auðveldara fyrir alla ef ég myndi
bara láta mig hverfa. Ég hugsaði
á tímapunkti hvort ég gæti gefið
drenginn til ættleiðingar svona
seint. En mér datt ekki í hug að
ég gæti verið með fæðingar-
þunglyndi. Ég hafði heyrt um
að það væri til en kom ekki til
hugar að ég gæti mögulega
þjáðst af því. Mér fannst ég ekki
vera þunglynd en samt leið mér
svona illa. Þetta er svo skrýtið
hvernig manni líður.“
„Ég fékk bara nóg“
Það var ekki fyrr en Ágústa var
komin með hugsanir um að
skaða barnið sitt að hún leit-
aði sér hjálpar. „Ég var orðin
svo pirruð og ég var orðin svo
stressuð og kvíðin. Mér leið bara
svo illa og hann var að gráta og
hann vildi ekki stoppa og ég
bara, ég fékk nóg. Ég var brjál-
uð. Mig langaði að öskra og mig
langaði að slá hann. En ég lét
mömmu hafa hann, fór út og
andaði djúpt. Tók mér smá tíma
til að vera með sjálfri mér og ná
mér niður. Eftir það hringdi ég í
hjúkkuna mína og sagði henni
að það væri eitthvað mikið að. “
Góðar viðtökur hjá
heilsugæslunni
Hún segir að viðtökurnar sem
hún fékk hjá hjúkrunarfræðingn-
um hafi verið mjög góðar og hún
hafi fengið mikinn stuðning frá
heilsugæslunni. „Mér fannst svo
erfitt að segja frá þessu því ég
var alveg viss um að fólk myndi
dæma mig sem óhæfa móður. Það
myndi taka barnið af mér og fara
með það eitthvað. En það var ekk-
ert þannig, ég fékk ekkert nema
stuðning. Hjúkkan pantaði fyrir
mig tíma á geðdeild og sagði mér
að láta sig alltaf vita hvernig mér
liði. Ég tók líka fæðingarþung-
lyndispróf og niðurstaða þess var
sú að ég væri með fæðingarþung-
lyndi.“
Í kjölfarið opnaði hún sig við
fjölskyldu sína og eiginmann og
sagði þeim frá því að hún væri
haldin fæðingarþunglyndi. Hún
segir það hafa verið mikinn létti
að segja fjölskyldu sinni frá líðan
sinni og þau hafi hjálpað sér mik-
ið. „Heimurinn varð bjartari og
ég var ekki jafn þung. Ég var búin
að segja einhverjum frá þessu og
fengi hjálp. Núna á þetta eftir að
lagast, hugsaði ég.“
Hlakkar til að elska son sinn
Í dag er sonur hennar þriggja
mánaða og þrátt fyrir að allt sé
á réttri leið þá segir hún dagana
vera miserfiða. Í gær fór hún í sitt
fyrsta viðtal á göngudeild geð-
deildar og það hafi hjálpað sér
mikið. „Það er svo gott að geta
talað við einhvern um hvernig
manni líður án þess að vera
dæmdur. Í dag er staðan ágæt.
Sumir dagar eru þó erfiðari en
aðrir. Líðan mín getur breyst
á mínútu fresti en ég geri það
sem ég á að gera. Ég hlakka til
að finna þessar tilfinningar sem
aðrar mæður segjast finna fyrir.
Ég hlakka til að elska son minn
og ég hlakka til að finna fyrir því
að hann elski mig.“
Fleiri úrræði
í boði en áður
Fæðingarþunglyndi Á geðsviði
er starfrækt teymi sem kallast
Foreldri, móðir, barn. Teymið er
smátt í sniðum og vinnur náið með
áhættumeðgönguteymi sem er
innan Landspítalans.
H
alldóra Ólafsdóttir, yfir-
læknir á göngudeild Geð-
deildar, segir þunglyndi á
meðgöngu og eftir fæðingu
mjög algengt. Þó kannski
ekki mikið algengara en gengur og
gerist almennt á meðal kvenna á
barneignaraldri.
Fagfólk meira vakandi fyrir
einkennum
„Það eru í kringum 10 til 15 prósent
kvenna sem finna fyrir þunglyndi
og eða kvíða,“ segir Halldóra. „Einu
sinni var bara talað um fæðingar-
þunglyndi en nú erum við meðvituð
um að oft byrjar þetta fyrr eða þegar
konan er ófrísk.“
Halldóra segir að ljósmæður og
starfsfólk í mæðraeftirliti vera meira
vakandi fyrir einkennum með-
gönguþunglyndis nú en áður og vísi
konum áfram til fagaðila ef þörf kref-
ur. „Fyrsta tilvísun, í vægari tilvik-
um, er til heilsugæslunnar sem síð-
an metur einstaklinginn og athugar
með úrræði. Þeir geta þá vísað í sér-
hæfðari úrræði til okkar ef nauðsyn
krefur. “
Halldóra bendir á að oft sé
sængurkvennagráti ruglað saman
við fæðingarþunglyndi og ekki sé
ástæða til að hafa áhyggjur af hon-
um ef hann gengur yfir skömm-
um tíma. „Sængurkvennagrátur-
inn kemur oftast á svona öðrum til
fimmta degi og stendur frá nokkrum
klukkustundum og kannski upp í
mesta lagi viku. Ef hann stendur yfir
í tvær vikur þá fer þetta að sigla inn
í þunglyndi. Það eru líklega um 50
til 80 prósent kvenna sem finna eitt-
hvað fyrir þessu. Sængurkvennagrát-
ur er hormónatengt fyrirbæri.“
Að breytast í rétta átt
Halldóra segir umræðuna um
fæðingarþunglyndi mun opnari
nú á dögum en áður og konur séu
fyrri til að leita sér hjálpar. „Þetta
var miklu meira tabú hérna áður
fyrr og miklu minna af úrræðum í
boði. Ungar konur hafa líka oft svo
miklar væntingar og hugmyndir
um að þetta eigi að vera svo ham-
ingjusamur tími. Þær skammast sín
síðan fyrir að finna kannski ekki fyrir
gleðinni og allir eru að spyrja hvort
þetta sé ekki gaman og er ekki barnið
þitt yndislegt og þær eru kannski
bara heima grátandi allan daginn.
Þetta er auðvitað afar erfitt en sem
betur fer hefur þetta breyst í rétta átt
en þetta mætti vera miklu betra.“
Teymi fyrir konur í áhættuhópi
Á geðsviði er starfrækt teymi sem
kallast Foreldri, móðir, barn. Teymið
er smátt í sniðum og vinnur náið
með áhættumeðgönguteymi sem
er innan Landspítalans. „Þar eru
konur sem eru í sérstökum áhættu-
flokki. Þetta eru alls ekki allar kon-
ur heldur fyrst og fremst þær sem
eru með alvarleg geðræn einkenni
og eða fíknarvandi eða fjölskyldu-
vanda þar sem veikindin eru á því
stigi að tengslamyndunin við barnið
gætu orðið erfið. Það hefur sýnt
sig að langvarandi ómeðhöndlað
fæðingarþunglyndi eykur hættu á
að tengslamyndunin við litla barnið
verði ekki eðlileg og það getur haft
óæskileg áhrif á geðheilsu einstak-
lingsins seinna meir. Þess vegna
erum við nú að velta þessu mikið
fyrir okkur. Þýði fæðingarþunglyndis
og skyldra kvilla liggur fyrst og fremst
í áhrifunum á litla barnið og fjöl-
skyldulífið. Einnig í áhrifum lyfjanna
á fóstrið ef meðhöndla þarf konuna
á meðgöngunni eða ef konan er með
barn á brjósti.“
n Sængurkvennagráti er oft ruglað saman við fæðingarþunglyndi
Hanna Ólafsdóttir
blaðamaður skrifar hanna@dv.is
Fæðingarþunglyndi
HELSTU EINKENNI FÆÐINGARÞUNGLYNDIS
– Þessi einkenni standa yfir í tvær vikur eða lengur
n Depurð
n Áhugaleysi við ákveðnar athafnir sem áður voru ánægjulegar
(samverustundir við barnið, kyndeyfð)
n Þreyta, þrekleysi
n Svefntruflanir
n Lystarleysi
n Kvíði, áhyggjur
n Skortur á sjálfstrausti og sjálfsáliti
n Einbeitingarskortur
n Sektarkennd og vanmáttarkennd sem tengist umönnun barnsins
n Endurteknar hugsanir um dauðann og sjálfsmorð. Þessar hugsanir
geta einnig tengst barninu
ÁHÆTTUÞÆTTIR
n Fyrri saga um geðraskanir t.d. þunglyndi eða fæðingarþunglyndi
n Sængurkvennagrátur sem er enn til staðar nokkrum vikum eftir fæðingu
n Erfiðar félagslegar aðstæður, konur sem eru einar eða einangraðar og/eða eiga fáa vini
n Hjónabandserfiðleikar
n Mikið álag síðastliðið ár t.d. sorg, ástvinamissir, erfiðleikar í fjölskyldunni og búferla-
flutningar
n Skortur á stuðningi frá maka
n Óráðgerð þungun
n Saga um þunglyndi maka
n Fósturlát (sérstaklega ef konan verður þunguð innan 12 mánaða frá fósturláti.)
ORSAKIR
Niðurstöður rannsókna benda til að hormónabreytingar sem eiga sér stað á meðgöngunni
og eftir fæðingu geti verið mikilvægur þáttur í fæðingarþunglyndi. Sumar konur virðast vera
næmari en aðrar fyrir þessum hormónabreytingum.
Líklegast er að hormónabreytingar, erfðir og aðrir félagslegir þættir vinni saman að orsök-
um fæðingarþunglyndis.
HVAÐ ER HÆGT AÐ GERA?
Fæðingarþunglyndi getur lagast að sjálfu sér 3–6 mánuðum eftir barnsburð, en 25 prósent
kvenna sem hafa greinst með sjúkdóminn finna enn fyrir einkennum ári eftir fæðingu.
Rannsóknir hafa verið gerðar um ólík meðferðarúrræði við fæðingarþunglyndi eins og
t.d. lyfjameðferð og viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, geðlækni eða geðhjúkrunarfræðingi.
Nýjustu rannsóknir benda til að viðtalsmeðferð sé árangursrík leið til að draga úr fæðingar-
þunglyndi ef hún hefst innan tólf vikna frá fæðingu. Lyfjameðferð hefur reynst árangursrík
hjá konum sem þjást af alvarlegu fæðingarþunglyndi. Ef lyfjameðferð er talin álitlegur
kostur til að meðhöndla fæðingarþunglyndi er hægt að fá upplýsingar um hvaða lyf má
taka á meðan barnið er á brjósti, því oft hafa konur áhyggjur af því hvort lyfin hafi áhrif á
barnið.
Oft geta einföld ráð bjargráð verið hjálpleg, jafnvel dregið úr einangrun og aukið sjálfstraust
móðurinnar. Hvíld, nægur svefn, góð næring og regluleg hreyfing geta bætt líðan og komið
í veg fyrir langvarandi vanlíðan. Að þiggja aðstoð við heimilisstörfin og/eða pössun getur
hjálpað mikið. Ungbarnasund og reglulegar gönguferðir með barnavagninn geta hjálpað,
sérstaklega ef þú færð félagskap með öðrum mæðrum sem eru í svipuðum aðstæðum.
HVERT Á AÐ LEITA?
Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem sinna ungbarnavernd þekkja vel til
fæðingarþunglyndis og geta aðstoðað þig eða leiðbeint þér um frekari
aðstoð. Einnig er hægt að leita til heimilislæknis á heilsugæslustöð. Í
bráðatilvikum er hægt að leita á bráðamóttöku geðdeildar á Landspítala.
(Heimild Bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands)
„ Einu sinni var bara talað
um fæðingarþunglyndi en
nú erum við meðvituð um að oft
byrjar þetta fyrr eða þegar konan
er ófrísk