Húnavaka - 01.05.2008, Blaðsíða 96
H Ú N A V A K A 94
lá ekki lengur fyrir staðsetning þessa örnefnis, svo óyggjandi væri. Sem fyrr
sagði hafði Kristján á Steinnýjarstöðum mikinn áhuga á kortlagningu og
merkingum í Hofskirkjugarði og vildi nú gera þessum stað sömu skil ef hann
gæti.
Stilltan og bjartan haustdag, 18. október 2006, fór Kristján ásamt Steinari
syni sínum, bónda á Steinnýjarstöðum og tengdaföður sínum, Hjalta bónda á
Skeggjastöðum, að norðurenda Langavatns og inn með því að austanverðu,
vel miðja vegu. Þar er tangi sem Lambhagi heitir. Að tilvísan Hjalta var haldið
þaðan frá vatninu í austlæga stefnu uns komið var á grjóthól sem Hjalti sagði
vera hinn rétta. Staðsetning samkvæmt GPS tæki er N65°5601 og
W020°08826.
Hjalti Árnason á Skeggjastöðum er fæddur 1915, sérstaklega ern og
stálminnugur. Hann þekkir þetta svæði öðrum betur og var ekki í vafa um hvar
krossinn hefði staðið þótt engin ummerki sæjust.
Það var svo 25. ágúst 2007 að synir Kristjáns, Steinar og Hjalti, fóru á
vettvang og með þeim þrír ungir synir þeirra. Meðferðis höfðu þeir veglegan
kross úr ryðfríu stáli sem Hjalti Kristjánsson hafði smíðað, einnig stein úr
Langavatnsfjöru með ágrafinni plötu, þar sem greint er frá tilefni þessa
framtaks. Mikil varð undrun þeirra og ánægja þegar þeir grófu fyrir krossinum
og komu niður á leifar trékrossins sem þar hafði áður staðið. Ekki hafði
leiðsögn Skeggjastaðabóndans brugðist. Bróðir minn heitinn var þá orðinn svo
veikur að hann komst ekki með en ég leyfi mér að láta hér fylgja orðrétta
dagbókarfærslu hans: „Norðan gola og þokusúld en létti til þegar leið á daginn
og gerði blíðuveður. Steini, Hjalti, Heiðmar, Almar og Steinar Daði fóru á
fjórhjólunum út í heiði með krossinn og steininn til að koma þeim á sinn stað
á Krosshólnum. Og þar fundu þeir spýtu af gamla krossinum. Svo nú er þetta
enginn efi, krossinn er kominn á sinn stað.“
__________
Nú stendur þarna á hólnum minnisvarði um einstakt þrekvirki ungs manns
sem barðist til hinstu stundar við að komast til hennar móður sinnar en varð
að lúta í lægra haldi fyrir ógnarafli stórhríðarinnar. Sá, sem á sínum tíma fann
Jón Sigfússon, hét Ólafur Ólafsson og var þá til heimilis í foreldrahúsum að
Keldulandi í Skagabyggð. Foreldrar hans tóku að sér og ólu upp móðurömmu
mína, Sigurbjörgu Jónasdóttur, sem varð þannig uppeldissystir Ólafs. Tengsl
móðurfólks míns við þessa sögu voru því alla tíð sterk og Kristjáni bróður
mínum, eins og Skafta forðum, fannst sér skylt að stuðla að varðveislu hennar
til komandi kynslóða.
Vonandi dugar stálkrossinn vel gegn harðviðrum og hrossum, þeim öllum
til mikils sóma, sem að þessu verki komu.