Húnavaka - 01.05.2008, Blaðsíða 172
H Ú N A V A K A 170
frá Merki. Ásgerður var fimmta í röð sjö alsystkina. Eldri voru Aðalheiður,
Benedikt, Guðrún Brynhildur og Þórey, nú öll látin. Hálfsystkini Ásgerðar af
síðara hjónabandi föður hennar og Stefaníu Óladóttur frá Gagnstöð á Út -
mannasveit eru Helga, Óli, Lilja og Jóhann sem öll eru á lífi. Auk þess ólst upp
á heimilinu Óli Jóhannes Sigurðsson, bróðursonur Stefáns, nú látinn.
Ásgerður ólst upp á Merki við gott atlæti og
stór brotna náttúru dalsins. Bærinn stendur austan
Jöklu og var lengst af nokkuð afskiptur með að -
drætti en kláfur var á ánni og brú frá 1975.
Á sjöunda ári missti Ásgerður móður sína er
lést úr berklum eftir langvarandi veikindi en
stjúpa hennar gekk eldri systkinunum í móður
stað. Heimilið var allvel efnum búið en auk bú -
sýslu voru lærdómur og bókarmennt jafnan í
hávegum höfð og afstaðan til náungans mótaðist
af grandvarleik og góðu umtali. Það segir sína
sögu um heimilisandann að öll fóru systkinin til
frekara náms að loknu barnanámi heima í dalnum
og tvær systranna urðu kennarar.
Ung hleypti Ásgerður heimdraganum, hélt til náms í Eiðaskóla og nam þar
veturinn 1929-30 í yngri deild. Að því búnu lá leiðin í Kennaraskóla Íslands
þar sem hún stundaði nám næstu fjögur árin og lauk kennaraprófi vorið 1934.
Á sumrin vann hún ýmis störf til að kosta nám sitt, var í kaupavinnu á ýmsum
stöðum og einnig í fiskvinnu í Reykjavík.
Að loknu kennaranámi var Ásgerður heimiliskennari einn vetur en haustið
1935 réðst hún sem kennari við barna- og unglingaskóla á Vopnafirði og
kenndi þar næstu átta árin eða til vorsins 1943. Tvo næstu vetur var hún
stundakennari við Laugarnesskólann í Reykjavík og kenndi síðan tvo vetur við
Barnaskóla Siglufjarðar. Ásgerður þótti farsæll kennari, hún hafði gaman af
börnum og komst vel af við þau.
Sumarið 1947 réðst hún sem kaupakona að Guðlaugsstöðum í Blöndudal
en þar lágu saman leiðir hennar og Guðmundar Jóhannesar Pálssonar, bónda
þar, sonar Páls Hannessonar og Guðrúnar Björnsdóttur er þar gerðu garðinn
frægan um langt árabil. Þau gengu í hjónaband 3. desember sama ár.
Guðlaugsstaðir er gamalgróið höfuðból, jörð landmikil en fremur erfið og
ræktunarmöguleikar takmarkaðir. Á jörðinni var stór gamall bær úr torfi og
timbri og í honum bjó fjölskyldan til ársins 1979 er flutt var í nýtt steinhús en
útihús hafði Guðmundur byggt áður. Þau hjón bjuggu jafnan farsælu búi þar
sem byggt var á traustum grunni.
Þau eignuðust tvær dætur, Guðnýju Aðalheiði er fædd var 1948, látin 1998
og Guðrúnu, fædda 1952, bónda á Guðlaugsstöðum. Maður hennar var
Sigurður Ingvi Björnsson, þau slitu samvistir.
Er Guðný var barn að aldri kom í ljós að hún tók ekki eðlilegum þroska.
Þung byrði var því lögð á hendur móðurinni og raunar fjölskyldunnar allrar
að annast veikan einstakling til viðbótar stóru heimili en Guðný dvaldist að