Húnavaka - 01.05.2011, Page 10
fengi ekki verðlaunin er tilnefningin sjálf mikill virðingarvottur og staðfestir það góða starf
sem þar er unnið.
Á Skagaströnd er starfandi Nes listamiðstöð þar sem um 80 listamenn dvöldu á árinu
2010 í einn mánuð eða lengur hver og störfuðu að list sinni. Flestir þessara listamanna eru
erlendir og margir lögðu sitt fram til menningarlífsins á svæðinu með fjölbreyttum sýningum,
heimsóknum í skóla, danslist, námskeiðum og fleiru.
Frammi í Vatnsdal stendur félagið Landnám Ingimundar gamla fyrir fjölbreyttri kynningu
á sögu Vatnsdælu með upplýsingaskiltum, sögukorti og hljóðleiðsögn. Þar er vandað til allra
verka og vinnubrögð til fyrirmyndar. Ekki má heldur gleyma stórmerku frumkvæði Jóhönnu
Pálmadóttur á Akri að verkefninu Vatnsdæla á refli en þar er unnið að gerð 40-50 metra
langs refils þar sem Vatnsdæla saga er sögð í myndmáli og síðan býðst gestum og gangandi að
setja (saum)spor sín í refilinn. Stefnt er að því að fyrstu sporin verði tekin á Húnavöku
2011.
Þá er nú í vor verið að opna þrjú ný söfn og setur; Eyvindarstofu á Blönduósi þar sem
fjallað er um líf Fjalla-Eyvindar og Höllu, Kántrýsafn í Kántrýbæ á Skagaströnd þar sem
aðaláherslan er lögð á lífshlaup Kúreka norðursins og Spákonuhof á Skagaströnd þar sem
Þórdísi spákonu eru gerð skil auk þess sem boðið er upp á margs konar spádóma. Þess utan
er undirbúningur að stofnun Laxaseturs Íslands á Blönduósi í fullum gangi.
Margt fleira mætti nefna sem auðgar mannlíf í Húnaþingi. Ein af jákvæðu hliðum
hinnar annars illræmdu kreppu var að fólk fór að stunda og meta betur margs konar handverk,
hannyrðir og heimilisiðnað. Á þessu sviði eru mörg tækifæri, sem áhugamál en einnig eru þar
ýmis atvinnutækifæri.
Auðvitað hafa ekki allar listgreinar náð að blómstra í þessu tvö þúsund manna samfélagi
en mjór er mikils vísir og ef fram heldur sem horfir eiga menning og listir sér góða framtíð í
húnvetnskri byggð.
Á síðasta ári voru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Björns Bergmanns, kennara, ljós-
myndara og fræðimanns á Blönduósi. Þess var minnst með ljósmyndasýningu í Héraðs-
skjalasafninu á Blönduósi þar sem m.a. var reynt að nafngreina fólk og skilgreina viðburði á
myndum Björns. Auk fyrrgreindra starfa var Björn lengi þátttakandi í útgáfu Húnavöku-
ritsins. Til útgáfu ritsins lagði hann fram myndir og margvíslegt efni frá sér og öðrum. Hann
var einnig traustur prófarkalesari og lagði margt gott til málanna um málfar, réttritun, stíl og
efnistök. Björn var hins vegar aldrei formlega í ritnefndinni, hafnaði því sæti alfarið en lagði
samt sem áður sitt af mörkum um áratugi sem ritnefndarmaður væri. Ritnefnd Húnavöku
minnist Björns Bergmanns með þakklæti og virðingu.
Megi lesendur Húnavökuritsins til lands og sjávar, sem og aðrir landsmenn, eiga
ánægjulegt líf við leik og störf.
Ingibergur Guðmundsson.
H Ú N A V A K A 8