Húnavaka - 01.05.2011, Page 25
H Ú N A V A K A 23
Og enn voru kosningar
Það gekk mikið á, þegar deilurnar urðu sem mestar hérna í héraði, hvort virkja
ætti Blöndu eða ekki. Þetta voru hatrömm átök og skiptar skoðanir um málið.
Ég sá mikil tækifæri í því að nýta orkuna heima fyrir og var í framvarðasveit
ásamt mörgum öðrum. Ákveðið var að ganga til Reykjavíkur til að leggja
áherslu á virkjun og tóku fjölmargir þátt í henni. Það var líklega Ómar
Ragnarsson sem var fyrstur til að kveikja á því að hér væri á ferðinni
meðmælaganga, eins og hann orðaði það í fréttatíma en ekki mótmælaganga
eins og venjan var.
Þegar kom að undirbúningi fyrir kosningarnar 1978 fannst mörgum
Húnvetningum alveg ófært að Páll Pétursson, sem var afar harður andstæðingur
virkjunar, væri í forsvari fyrir þá. Ég var á þessum tíma formaður SUF og það
var mjög þrýst á mig að fara í prófkjör á móti honum. Ég vissi alltaf að það
væri vonlítið verk að fara í slíkan slag en tækifærin liggja ekki nema á einum
ákveðnum punkti á ákveðinni stundu. Prófkjörin voru alltaf með þeim hætti
að raðað var í sæti en ekki að fjöldi atkvæða sem menn fengu réði sætisvali.
Skagfirðingar, sem voru mjög fjölmennir, vildu hafa Ólaf Jóhannesson númer
eitt og það var algjör samstaða um það. Síðan þótti skynsamlegt að hafa
húnvetnskan bónda í öðru sæti og þá var eðlilegra fyrir þá að styðja
þingmanninn, Pál Pétursson, heldur en einhvern strák og svo sinn mann,
Stefán Guðmundsson, í þriðja sætið. Siglfirðingar og Vestur-Húnvetningar
fengu fjórða og fimmta mann og ég lenti því í sjötta sæti. Mér fannst þetta
mjög súrt á þeim tíma, einkum þar sem ég fékk mikið af atkvæðum í annað
sætið en lenti svo niður í því sjötta og það fór svo að ég tók ekki sæti á
listanum.
Sitjandi þingmaður hefur miklu sterkari stöðu en nýliði jafnvel þótt mikil
óánægja sé með sjónarmið hans. Ég bar á hinn bóginn fulla virðingu fyrir Páli
Péturssyni vegna skoðana hans varðandi heiðina og gróðurfar á þessu svæði.
Raunar var ég innra með mér mjög hikandi bæði 1974 og 1978 og ekki viss
um að ég vildi fara á kaf í pólitíkina en trúlega hefur tækifæri mitt verið 1974
ef það hefur einhvern tímann verið. Ég er hins vegar mjög sáttur við vegferðina
eins og hún varð því lífið færði mér gæfu og gengi á öðrum og afar
skemmtilegum vettvangi einkalífs og félagsstarfa.
Stjórnin sem mynduð var eftir kosningarnar 1978 sat stutt og aftur urðu
kosningar haustið 1979. Þá náðist mjög góð samstaða um listann hjá Framsókn
hér í kjördæminu. Páll leiddi hann, Stefán Guðmundsson var í öðru sæti og
Ingólfur Guðnason sparisjóðsstjóri á Hvammstanga í því þriðja. Pabbi var
fenginn til að skipa heiðurssæti listans, trúlega til að sýna að ég væri ekki lengur
sár. Í þessum kosningum náði flokkurinn á ný þremur mönnum í Norðvestur-
kjördæmi.
Á fjölmennu kjördæmisþingi fyrir kosningarnar 1983 voru margir
Húnvetningar búnir að gera Skagfirðingum það ljóst, að þeir væru tilbúnir að