Húnavaka - 01.05.2011, Blaðsíða 38
H Ú N A V A K A 36
um margvíslega liti hafsins og hann svaraði af visku þeirri sem einungis fæst
með því að lifa í veröldinni í mörg ár, hvert á eftir öðru, hvert með nýja reynslu
sem byggir ofan á þá fyrri.
Að kvöldi þessa dags lagði gamli maðurinn steininn á kommóðuna sína sem
geymdi marga fleiri fjársjóði liðinna stunda. Þar lá hann innan um myndir og
minningabrot sem ekki gleymdust meðan minjagripirnir báru þeim þögult
vitni á sinn hógværa en þó ásækna hátt. Þar var fermingarmyndin af látna
syninum sem ekki fékk að sjá yngsta bróður sinn fæðast, fékk ekki að lifa það
að unglingsárin breyttust í fullorðinsár með öllum þeim ljúfsáru tilfinningum
sem því fylgja. Þar var líka myndin af móður afans, sem litlu stúlkunni fannst
svo merkilegt að var ung og falleg á myndinni með dökkt sítt hár en var samt
auðvitað eldri en afinn sem sat hokinn á rúmbríkinni og reri fram í gráðið
meðan hún skoðaði myndirnar.
Hár hans var alveg hvítt, mikið hvítara en yfirvaraskeggið sem var
dökkbrúnt af tóbaki undir miðju nefinu en lýstist smátt og smátt eftir því sem
utar dró. Hendurnar voru hnýttar eftir mörg og föst handtök við hátt í
hundrað ára vinnu. Þær voru samt svo hlýjar og yljuðu oft litlum og óhreinum
höndum sem leituðu upp í lófa afans eftir leik dagsins í svölu vorveðrinu.
Andlitsdrættirnir báru litríku lífi vitni, ein áhyggjuhrukka fyrir hver vonbrigði
sem gamli maðurinn hafði orðið fyrir í hörðum heimi þar sem stritið skilaði
litlu meira en þreytu og draumlausum svefni að loknu löngu dagsverki. Ein
broshrukka fyrir hverja hamingjustund sem hann hafði átt - kannski hafði
þeim fjölgað hraðar á efri árunum þegar byrði lífsbaráttunnar var að hluta lyft
af þreyttum herðum hans og meiri tími gafst til að sjá sólina speglast í björtum
augnaráðum barnabarnanna sem enn höfðu ekki séð haust drauma sinna bera
á brott fölnuð lauf og brotin sprek vonarinnar. Hver minning markaði þannig
spor sitt í andlit gamla mannsins þangað til ekki mátti lengur greina á milli
hvar var sorg og hvar gleði heldur tvinnuðust sporin saman í eina órjúfanlega
heild sem sagði æfisögu hans, án þess að gefa upp atvikin sem mótuðu hana.
Þau geymdi gamli maðurinn í sál sinni, sum voru honum gleymd, sum væru
betur horfin í bikar óminningarinnar því þau rifu upp gömul sár og færðu
kæfandi sársauka fyrir brjóstið í hvert skipti sem þau komu upp í hugann.
Mörg vöktu hins vegar glampa í augunum og ýttu jafnvel áður gleymdum
lagstúf fram á varirnar, litlu stúlkunni til undrunar þar sem hún hrökk upp úr
draumórum sínum um tröllin í mynstri gamla fataskápsins sem stóð drumbslegur
upp við vegginn eins og útvörður þessa sérkennilega heims sem þau áttu
saman tvö, gamli maðurinn og litla stúlkan.
Heimurinn þeirra var herbergi gamla mannsins. Þar kenndi ýmissa grasa,
bækurnar sem stóðu svo nettar hver upp við hliðina á annarri geymdu sögur
frá framandi löndum, sögur af ókunnugu fólki sem urðu vinir gamla mannsins
og litlu stúlkunnar, stuttan tíma í senn og færðust síðan fjær í ölduróti daganna.
Þar biðu þær misþolinmóðar síns tíma, sumar kölluðu ákafar til litlu stúlkunnar
í litríkum kápum og báðu hana um að skoða sig, aftur og aftur. Sumar belgdu
sig út og þóttust fínni en hinar meðan aðrar horfðu spekingslegar ofan úr efstu
hillu, vissar um að þær væru geymdar á besta staðnum vegna þess að þær