Húnavaka - 01.05.2011, Síða 58
H Ú N A V A K A 56
hefðu komið sér líka á óvart. Hann hefði ekki átt von á neinum hjólum svo
hann hringdi suður og var sagt að Sambandið hefði sent slatta af hjólum á
ströndina og líka til Skagastrandar. Þeir vissu ekki hve mörg hefðu lent á
Skagaströnd en reikningurinn kæmi bráðlega, svo nú væri bara að selja íbúum
á Skagaströnd hjól og Gunnar dæsti við tilhugsunina um að pranga hjólum
inn á fátækan almúgann.
Tja, við tökum þau bara út í reikning, sagði einhver bóndinn en Gunnar
svaraði að það kæmi ekki til greina. Hann myndi sjá um það. Eru þessi hjól
ekki fyrir krakka? spurði einhver. Það veit ég ekkert um, sagði Gunnar, enda
skiptir það engu máli.
Gunnar fór að telja hjólin og hristi höfuðið þegar hann var kominn upp í
20, dæsti og fór þungur á brún.
Menn héldu áfram að skoða hjólin og voru flestir sammála um að DBS
hjólin væru fínni en mun dýrari. Það voru bæði karlmannshjól með slá og
kvenmannshjól án sláar. Svo voru tvö pínulítil hjól fyrir smákrakka. Það fannst
mönnum skrýtið.
Sumir voru þegar farnir að spá í að fá sér hjól og greiðslumöguleikar ræddir
en aðrir ætluðu að hugsa málið betur.
Þegar karlarnir voru loksins búnir að skoða nógu mikið fóru þeir og þá
komst líf í okkur strákana. Við báðum um að fá að fara inn fyrir búðarborðið
og líta betur á hjólin, var harðbannað það í fyrstu en við vissum að karlarnir í
búðinni myndu gefa eftir.
Svo kom að því að Halla var sleppt inn fyrir smástund. Alltaf var Halli
heppinn. Þegar hann kom til baka sagði hann að sum hjólin væru ekkert stór
og gætum við alveg hjólað á þeim. Já, þeir sögðu að þau væru fyrir krakka og
þá meintu þeir örugglega stóra og sterka stráka, eins og okkur.
Nú komu upp vonir hjá mörgum um að eignast hjól, bara að einhvers
staðar væru til peningar. En víða var tiltölulega lítið til af þeim. Einhver talaði
um að taka út í reikning. Hvað er það? var spurt. Ég varð fyrir svörum því ég
hafði heyrt samtal á milli mömmu og Jóhönnu hans Adda bílstjóra en hún rak
litla búð heima hjá sér, svo hún hlaut að vita þetta.
Jú, maður bara fær hlutinn og svo er skrifað í bók og þú skrifar nafnið þitt
undir. Svo líður tími og þú átt að borga og ef þú getur ekki borgað verður
Gunnar kaupfélagsstjóri vondur.
Mamma tók ryksuguna út í reikning hjá Jóhönnu og nú er Jóhanna reið við
mömmu. Það er ekkert gaman, skal ég segja þér. Þá vil ég heldur ekkert hjól.
Nú fór að kvölda og við fórum að koma okkur heim enda orðið napurt og
hálf hráslagalegt.
Á leiðinni í skólann daginn eftir töluðum við ekki um annað en hjólin og
vorum að spá í hverjir yrðu svo heppnir að fá hjól. Það voru minnst 50 hjól
þarna inni, sagði Halli og við alveg göptum. Hvað, 50 hjól! En Gunnar verður
að selja hjólin, annars verður SÍS reitt við hann og þá getur hann verið rekinn.
Aumingja Gunnar að fá öll þessi hjól.
Hvaða hjól eruð þið að tala um? spurði Elínborg kennari og reyndi að koma
ró á bekkinn en allir töluðu hver í kapp við annan um hjólin. Nú voru