Húnavaka - 01.05.2011, Síða 59
H Ú N A V A K A 57
stelpurnar líka komar í umræðuna og sögðust alveg geta hjólað eins og
strákarnir. Strákarnir voru ekki alveg sammála því og meintu að þá ættu þær
að mæta afgangi ef einhver hjól yrðu eftir. Stelpurnar urðu þá mjög æstar og
töldu þetta þvætting og bölvaðan strákarembing. Við sjáum nú til, sögðu
strákarnir sigurvissir.
Þegar við komum heim heyrðum við að einhver hefði keypt hjól og borgað
út í hönd með stórum seðlum og það DBS hjól. Menn stóðu á öndinni. Hver
átti svona mikla peninga? Sumir höfðu verið á vertíð fyrir sunnan og þénað vel
og aðrir höfðu sparað svo einhverjir áttu peninga. Nú og svo myndi Gunnar
skrifa til að losna við hjólin. Nokkrir dagar liðu og ekkert gerðist. Við fórum í
búðina strax og komið var heim úr skólanum og athuguðum málið. En, nei,
ekkert selt.
En einn daginn var búið að selja fimm hjól, já, fimm hjól og hver keypti
þau? Okkur strákunum var sagt að okkur kæmi það ekki við. Við fórum nú að
hreyfa málinu við foreldra okkar. Pabbi var ekki heima, sennilega á togara fyrir
sunnan en mamma tók bara vel í það. Ég hélt að hún myndi hlaupa strax
niður í kaupfélag og kaupa hjól en nei. Við yrðum að bíða svolítið.
Tíminn leið, ekki bólaði á hjólinu, nokkrir krakkar voru búnir að fá hjól svo
ég spurði einn daginn hvernig gengi með hjólið. Jú, það væri alveg að koma.
Ha, hvað, koma? hváði ég.
Jú, hann Óskar frændi, sem var giftur einni af Fálkasystrunum, rak
hjólaviðgerðarverkstæði í Reykjavík og hann ætlaði að senda okkur hjól sem
væri mikið ódýrara en í kaupfélaginu.
Nú og hvenær kemur svo þetta hjól? spurði ég efins. Bara með næstu ferð
hjá Berta bílstjóra.
En Berti kom ekki með hjól þegar hann kom. Ég spurði Berta um hjólið en
hann sagði ekkert hjól hafa verið á afgreiðslunni í Reykjavík. Ég sagði mömmu
frá þessu og hún hringdi í Óskar. Mamma hringdi frá símstöðinni og var það
símtal dýrt því hún varð að láta panta Óskar í símann, þótt hann hefði síma
heima. Svaka dýrt að hringja, endurtók mamma.
Mamma sagði að Óskar skildi ekkert í þessu. Hann hafði látið hjólið á
afgreiðsluna. Það myndi örugglega koma fljótlega. Ég talaði við Berta og bað
hann að líta vel eftir hjólinu okkar.
Nú voru nokkrir krakkar komnir á hjól og ég fór að pressa mömmu með
hjólið. Hún hringdi og sagði Óskar að hann hefði sjálfur sett hjólið í rútubíllinn
hans Berta, svo nú kæmi það á morgun. En ég gat ekki sótt hjólið til Berta svo
Almar bróðir fór og náði í það.
Hann kemur svo hjólandi á þessum líka hólknum, rosa stóru kvenmannshjóli,
eldgömlu og málað grátt. Keðjan datt alltaf af en Almar taldi það ekkert
vandamál. Mér féll hins vegar allur ketill í eld. Var þetta hjólið frá Óskari
frænda, sem var svo ríkur að hann gat ekki talið aurana enda hafði hann og
kerlingin erft hálfan Fálkann?
Þú getur hirt þennan hólk. Ég kem ekki nálægt þessu farartæki ef farartæki
skal kalla, sagði ég við Almar. Þakka þér bara fyrir, sagði Almar og baksaði
einhvern veginn á hjólinu eftir götunni.