Húnavaka - 01.05.2011, Page 69
H Ú N A V A K A 67
MAGDALENA BERGLIND BJÖRNSDÓTTIR, Blönduósi:
Leyndarmál
Ég elskaði pabba, reyndi það að minnsta kosti. Hann gerði mér það svolítið
erfitt - en ég reyndi. Ég veit ekki hvort hann vissi það og kemst víst ekki að því
héðan af. Ég var svo sem endalaust í uppreisn gagnvart honum og reglunum
hans – sem vissulega var nóg af.
Í minningunni er mamma kona sem alltaf var á heimilinu, alveg eins og
eldhússtólar og sófasett. Hún var þarna en hún virtist ekki skipta mig nokkru
máli enda var hún ekki gefandi manneskja – ekki frekar en eldhússtólarnir.
Sama hvað á gekk þá stóð hún með pabba, hafði aldrei sjálfstæðar skoðanir á
einu einasta umræðuefni og einhvern veginn finnst mér að pabbi hafi talað til
hennar en ekki við hana öll þessi ár. En ég elskaði hana samt – hún var nú einu
sinni mamma mín.
Ég ætti nú ekki að kvarta yfir hlutskipti mínu í lífinu en... Það er alltaf þetta
EN.
Mér hefur alltaf fundist ég utanveltu, ekki átt heima þar sem ég hef verið
og þannig er það enn. Alltaf fundið þetta viðmót sem lýsir tortryggni,
vantrausti og vantrú. Kannski er það ég sem skapa þetta andrúmsloft, kannski
ekki. Reyndar, samkvæmt „Leyndarmálinu“, er það mitt viðmót sem kallar á
þessi viðbrögð samferðamanna minna og í sjálfu sér er ég ekkert hissa. Ég er
tortryggin að eðlisfari, treysti ekki fólkinu í kringum mig og hef enga trú á að
ég sé einhvers virði – ekki eftir allt sem ég hef gert og reynt.
Ég á nefnilega leyndarmál, fleiri en eitt og fleiri en tvö og þau eru að
kaffæra mig. Þó aðallega eitt. Ég hugsa um þetta leyndarmál, kannski ekki á
hverjum degi en allt að því. Ég losna aldrei frá því, það fer ekki neitt og mest
er ég hrædd um að það dúkki upp einn daginn – hér í dyrunum hjá mér. Hvað
geri ég þá? Það eru satt að segja miklar líkur á að það gerist – einmitt nú í
sumar. Þetta stóra leyndarmál er alveg að fara með mig. Leyndarmálið mitt
sem vex og dafnar í orðsins fyllstu merkingu.
Ég veit ekki af hverju ég hef ekki sagt manninum mínum frá þessu,
skömmin er líklega of mikil. Skömmin sem eykst með hverjum deginum sem
líður án þess að ég ræði þetta við hann, manninn sem ég elska og horfist í augu
við gjörðir mínar.
Hann veit alveg hvernig æska mín var, kannski ekki alveg en í grófum
dráttum. Fædd og uppalin í Texas, einkabarn. Dóttir sögukennara í kaþólskum
einkaskóla fyrir drengi – heimavistarskóla langt inn í landi. Þetta hljómar eins
strangt og leiðinlegt og það í raun og veru var.