Húnavaka - 01.05.2011, Qupperneq 71
H Ú N A V A K A 69
fór aldrei í læknisskoðun og hitti ljósmóður aðeins einu sinni – í fæðingunni
sjálfri. Barnið fæddi ég heima, litla og fíngerða stúlku með dökk augu og
dökkan lubba. Hún var svo mjúk og það var svo undursamleg lykt af henni,
alveg eins og af vorinu sem var að vakna fyrir utan gluggann minn.
Tilfinningin, þegar litlir fingur hennar kreistu fingur mína, var ólík öllu öðru
sem ég hafði nokkurn tímann reynt. Ég þarf enn þann dag í dag, átján árum
síðar, aðeins að loka augunum og þá sé ég hana ljóslifandi fyrir augum mér.
Við áttum aðeins viku saman, eina viku. Pabbi hafði fundið ung barnlaus
hjón, Thomas og Helen, sem áttu að verða foreldrar hennar og þau sóttu hana
viku eftir að hún hafði þrýstst út úr líkama mínum. Viku eftir að við höfðum
fyrst horfst í augu, viku eftir að ég hafði fyrst lagt hana á brjóst mitt.
Thomas var kennari eins og pabbi, líklega höfðu þeir kynnst á einhverri
ráðstefnunni. Hann virtist vera mikill nákvæmnismaður líkt og pabbi og ég var
ekki viss um að mér fyndist það spennandi kostur fyrir dóttur mína. Helen
kona hans var hins vegar afar viðkunnaleg og glæsileg kona, fóstra eða ætti ég
að segja leikskólakennari eins og það heitir víst núna. Hún sagði mér að þau
hjónin hefðu reynt í sex ár að eignast barn, þráðu ekkert heitara. Hún vildi
sannfæra mig um að vel yrði hugsað um litlu stúlkuna mína. Þrátt fyrir að
hjónin hafi litið út fyrir að vera ákaflega samhent og lofað mér öllu fögru um
væntanlegar aðstæður hennar leið mér hörmulega. Grátbólgin og með lek
brjóst var ég skyndilega aftur komin í rútu og nú á heimleið. Ég reyndi að
hugga mig við að þegar hún yrði sjálfráða fengi hún bréfið frá mér – eða
jafnvel fyrr ef aðstæður höguðu því þannig.
Það virtist samt heil eilífð þangað til – lengri tími en ég hafði lifað. En bréfið
var haldreipi mitt, það eina sem kom í veg fyrir að ég missti vitið. Ég hafði
skrifað það til hennar til að segja henni að ég elskaði hana en fengi ekki að hafa
hana hjá mér – líklegast meiri huggun fyrir mig en hana.
Pabbi og mamma tóku á móti mér líkt og ég hefði verið að koma úr
skólaferðalagi. Ekki var einu orði minnst á dóttur mína, líkt og hún hefði aldrei
verið til, líkt og ég hafi ekki verið í burtu af nokkurri ástæðu annarri en mér til
ánægju og yndisauka. Ekki ein spurning um líðan mína þetta hálfa ár sem ég
var í burtu.
Ég vissi vel að átján ára yrði ég sjálfráða og nú hófst bið mín eftir átján ára
afmælisdeginum. Ég hætti öllum samskiptum við drengina í skólanum, hætti
held ég öllum samskiptum við allt og alla. Pabba lokaði ég alveg á, ég bara
beið. Ég skyldi í burtu um leið og afmælisdagurinn rynni upp. Tímann notaði
ég til náms, lesturs og skipulagningar - það gátu fleiri en pabbi skipulagt hluti.
Ég lauk skóla á tilsettum tíma þrátt fyrir þessa „truflun“ á námstímanum.
Ég var búin að safna peningum fyrir ferðinni og finna starf á Íslandi, eyju
langt úti í hafi. Ég hafði lesið tímaritsgrein um bjartar nætur og myrka vetur
og fannst öll umræða um landið eitthvað svo heillandi og ævintýraleg –
eitthvað sem ég var meira en til í að reyna. Svo var landið líka langt, langt í
burtu frá Texas.
Pabbi var afar yfirvegaður þegar ég tilkynnti honum ákvörðun mína – líkt
og tveimur árum áður. Ég vil ekki segja að mér hafi virst sem honum hafi verið