Húnavaka - 01.05.2011, Page 72
H Ú N A V A K A 70
létt við tilhugsunina um mig, dótturina með óþægilega leyndarmálið, fjarri
daglegu lífi hans en það er kannski ekki fjarri lagi.
Og enn og aftur var ég að fara að heiman, ég hafði fengið nóg af stífum
reglum um ævina og varð að komast burtu.
Það var ekki auðvelt að aðlagast lífinu á þessari litlu eyju. Það var svo ólíkt
nokkru því sem ég hafði áður reynt. Vinnusemi virtist íbúunum í blóð borin,
ekkert virtist komast að annað en vinna. Vinna var svo sem ekkert sem ég vildi
forðast. Það var gott að vinna mikið, þá gafst minni tími til að velta sér upp úr
eigin hugsunum. Ég hafði fengið vinnu í eldhúsi á stóru hóteli í miðbæ
höfuðborgarinnar, Reykjavíkur og þar var meira en nóg að gera. Þegar ég
hafði lært málið og gat átt almennileg samskipti við Íslendingana fékk ég að
aðstoða í veitingasal og gat hjálpað til vegna tungumálakunnáttu minnar en ég
talaði bæði ensku og spænsku reiprennandi. Það var þar sem ég hitti Jón.
Jón var ólíkur öllum mönnum sem ég þekkti. Ekki aðeins var hann alveg
yndislega fallegur að utan heldur náði sú fegurð alveg í gegn. Hann var svo
ljúfur og góður og hafði svo þægilega nærveru. Við vorum vinir lengi áður en
samband okkar þróaðist út í ástarsamband. Ég hafði sagt honum frá mörgu
því er á daga mína hafði drifið en ekki frá dóttur minni, stundum fannst mér
eins og ég myndi gera það en það var alltaf eitthvað sem stoppaði mig. Ég var
ekki tilbúin í þá umræðu þrátt fyrir að hafa besta hlustanda sem hægt var að
hugsa sér.
Allt í einu gerði ég mér grein fyrir að fimm ár voru liðin frá komu minni til
Íslands og aldrei hafði ég farið heim og aldrei komu pabbi og mamma. Við
töluðum saman í síma nokkrum sinnum á ári og einstaka sinnum fékk ég
sendibréf frá þeim. Ég saknaði þeirra ekki en fann að reiði mín í þeirra garð
fór dvínandi.
Ég komst að því að líklega fór aldrei fram formleg ættleiðing á dóttur minni
– þetta var nú ekki hefðbundið ferli enda var feluleikurinn svo mikill. Ég
hugleiddi það um tíma að reyna að endurheimta barnið en eftir nokkra íhug-
un taldi ég það gera hvorugri okkar gott.
Með tilkomu internetsins gat ég þó fundið Thomas og Helen – og litlu
dóttur mína sem eltist eftir því sem árin liðu. Fjölskyldan bjó enn í Texas og ég
fann frétt í bæjarblaðinu um að þau hafi eignast lítinn dreng tveimur árum
áður. Fréttinni fylgdi mynd af drengnum og stóru systur hans sem hafði fengið
nafnið Elisabeth.
Ég prentaði myndina út og geymdi, hana skoðaði ég svo þegar tækifæri
gáfust.
Pabbi og mamma létust með mjög stuttu millibili, fyrst pabbi og svo
mamma. Þau voru ekki öldruð, kannski bara slitin á líkama og sál. Mér datt
helst í hug að mamma hafi bara gefist upp þegar hún var orðin ein eftir. Ég
veit af eigin reynslu hvað það er slítandi að vera reið og í feluleik.
Ég fór heim og gekk frá öllum þeirra málum. Ég veit ekki hvort ég fann
meira fyrir sorg eða létti. Þetta samband eða réttara sagt sambandsleysi hafði
reynt verulega á mig.
Það var ljúfsárt að koma heim og anda að sér andblæ liðinna tíma. Tíminn