Húnavaka - 01.05.2011, Page 77
H Ú N A V A K A 75
SÆUNN FREYDÍS GRÍMSDÓTTIR frá Saurbæ, Vatnsdal:
Vinnuhjú alla ævi
Abba - Ingibjörg Gísladóttir frá Hvammi í Vatnsdal
Abba, föðursystir mín, var fædd að Syðri-Löngumýri í Svínavatnshreppi þann 16. desember
1898, hún lést á Héraðshælinu á Blönduósi þann 30. janúar 1987.
Móðir Öbbu var Guðrún Gísladóttir, fædd 6. október 1856, hún dvaldi mest á Auðkúlu
og ýmsum fleiri bæjum í Svínavatnshreppi. Móðir Guðrúnar hét Hlíf Guðmundsdóttir og
var vinnukona á Ásum í Svínavatnshreppi. Virðist sem vegir forvera Öbbu í móðurætt hafi
legið um Húnavatnsþing en þó mest um Svínavatnshrepp.
Gísli, afi minn, faðir Öbbu, var fæddur 18. janúar 1877 að Teigakoti í Svartárdal en
dó í Reykjavík 18. maí 1959. Afi minn giftist árið 1902 Katrínu Grímsdóttur, fæddri 18.
október 1875, frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum. Þau eignuðust 6 börn en 5 þeirra
komust til fullorðinsára.
Ekki mun Abba hafa átt því láni að fagna að dveljast með móður sinni í
frumbernsku og er spurning hversu góðs atlætis hún hefur notið fyrstu
uppvaxtarár sín. Það er trú þeirra er best til hennar þekkja að fjarlægðin frá
foreldrum sínum og skortur á hlýju sem öllum börnum er nauðsynlegur og
flutningur til vandalausra hafi markað allan hennar uppvöxt og átt ríkan þátt
í hennar persónuleika þegar hún komst til fullorðinsára.
Abba var lágvaxin og grönn, með frekar ljóst hár og líkamlega vel á sig
komin á yngri árum.
Ég hef leitað eftir upplýsingum um æsku Öbbu og reynt að fá svolitla mynd
á uppvaxtarár hennar. Bestar upplýsingar um æsku hennar hef ég fengið af
jólakortum úr eigu Öbbu en á þeim kemur fram að árið 1908 dvelur hún á
Sæunn Freydís Grímsdóttir er fædd að Saurbæ í Vatnsdal
árið 1948. Árið 1967 flutti hún til Reykjavíkur og bjó þar
til 2004 er hún flutti til Hveragerðis og hefur búið þar
síðan. Sæunn starfaði á Borgarspítalanum í 13 ár og vann
skrifstofustörf hjá Sorpu og Gámaþjónustunni. Nú nýtur
hún þess að mála myndir, syngja, lesa og sinna fjölskyldu
sinni.
Eiginmaður hennar er Guðmundur Karl Þorbjörnsson
frá Kornsá í Vatnsdal.