Húnavaka - 01.05.2011, Qupperneq 85
H Ú N A V A K A 83
auðveldara en líf margra í dag. Oftast unnu vinnuhjúin aðeins fyrir mat
sínum, klæðum og húsaskjóli, fengu engin önnur laun en þó munu dugmestu
vinnumennirnir einstaka sinnum hafa átt örfáar kindur sem þeir höfðu sér og
hugsuðu um þær. Stétt vinnuhjúa í sveitum landsins er nánast öll fallin frá fyrir
nokkuð mörgum árum og saga þeirra að verða fáum kunn. Það er full ástæða
til að halda til haga frásögnum um líf þeirra og störf.
Upplýsinga og aðstoðar hef ég notið meðal annars frá: Salóme Jónsdóttur, Hallgrími
Guðjónssyni, Theodóru Reynisdóttur, Ragnhildi Þórðardóttur, Jóhönnu Jóhannesdóttur,
Katrínu Eiríksdóttur, Jóni L. Arnalds og Katrínu Grímsdóttur.
Viðauki:
Dúsa var léreftsstykki eða -tuska, frekar gisin, sem í var látinn stappaður eða tugginn
matur, oft bleyttur í mjólk og blandaður með sykri eða bruddum kandís og smjöri. Síðan var
búin til tota, bundið fyrir með tvinna og barnið látið sjúga. Það var hafður endi eða hali í
dúsunni og haldið í hann eða hann bundinn svo barnið gleypti ekki dúsuna.
Þeg ar maturinn í dúsuna var tugginn var það oft einhver sem var vel tenntur sem tuggði
hann en algengast var þó líklega að móðirin tuggði í dúsuna.
Það má segja að það hafi nánast verið notað hvað það í dúsuna sem var mjúkt og
matarkyns, það sem var hart var þá bleytt upp til að mýkja.
Helst var látinn brauðmatur, ýmiskonar brauð, rúgbrauð, sætar kökur, rúgkökur,
hrísgrjónagrautur, tvíbökur, skonrok, mjólkurskófir, vellingur, bankabyggsgrautur, kartöflur,
stundum feitt kjöt, harðfiskur, selspik, slátur, fiskur, tólg og fleira og stundum var hinum
ýmsu fæðutegundum blandað saman í dúsuna.
Dúsa var einnig kölluð táta og suga.
Dúsur voru nokkurskonar snuð með næringargildi. Þær voru þó langt í frá hættulausar
og má geta sér til um smithættuna sem stafaði að börnunum.
Í svari við einni spurningaskrá safnsins segir t.d.:
„Dúsa þótti ómissandi hlutur hér áður fyrr meðan vanþekking um meðferð ungbarna
var algeng. Þá átti allur grátur að stafa af sulti. Þær sem gætnastar voru völdu einhvern
léttmeltan mat t.d. hveitibrauð bleytt í mjólk. Síðan var tekin hrein rýja, maukið lagt í hana
miðja og bundið fyrir, síðan stungið upp í barnið. Ég held að það hafi tíðkast mjög mikið
að tyggja allan mögulega og ómögulegan mat í dúsuna og ekki skeytt alltaf hvað hollt það
var eða hver tuggði. Mér er grunsamt um að þessar eilífu tuggur í börnin hafi átt sinn góða
þátt í hinum mikla ungbarnadauða. Og að eitthvað hafi stundum reynst misjafnt í dúsunni
bendir málshátturinn: Hver déskotinn er í dúsunni barnsins.“
(Spurningaskrár Þjóðminjasafns Íslands, svar nr. 716).