Húnavaka - 01.05.2011, Síða 89
H Ú N A V A K A 87
öld og má leiða líkum að því að staðurinn hafi ekki haft mikið vægi í þessu efni.
Guðrún Jónsdóttir ark. faí. (Guðrún Jónsdóttir, 1996, bls. 16) vitnar í Ferðabók
Ólafs Ólavíusar frá 1775-1777 þar sem segir að vitað sé um skipakomur og
einhverja verslunarstarfsemi við Blönduós fyrr á tímum en jafnframt lýsir
höfundur ferðabókarinnar efasemdum um að á þessum stað verði nokkurn
tímann um höfn að ræða.
Á einokunartímanum voru Reykjarfjörður á Ströndum að vestanverðu og
Skagaströnd að austan verslunarstaðirnir við Húnaflóa (Guðrún Jónsdóttir, 1996,
bls. 16), og trúlega hefur þá verið lítið um skipakomur í Blönduós.
Með lögum nr. 21/1875 var svo löggilt verslunarhöfn við ós Blöndu
(Guðrún Jónsdóttir, 1996, bls. 9), og strax þá um sumarið hófst verslun á staðnum
um borð í „Hana“, skipi Thomasar Jedrovskys Thomsen (Th. Thomsen) sem
flutt hafði verslunarvöru ýmiss konar frá Bergen í Noregi (Kristján Sveinsson,
2009, bls. 304). Verslunin um borð mun þó hafa fengið nokkuð skjótan endi þar
sem vist á skipsfjöl hentaði viðskiptavinum Thomsens illa og segir Kristján
(Kristján Sveinsson, 2009, bls. 306) að „kaupgleði hafi vikið fyrir sjósótt þegar
áleitnar öldur Húnaflóans vögguðu Hana í norðankælunni“. Thomsen
kaupmaður flutti sig í framhaldinu á land og reisti þar skúr til þess að stunda
viðskipti sín.
Þéttbýli myndast eftir 1875
FYRSTU LÓÐIRNAR INNAN (SUNNAN) BLÖNDU
Í lögum nr. 21 frá 1875 um löggildingu verslunarstaðarins var veitt heimild til
verslunar við ós Blöndu og kveðið á um rétt þeirra sem uppfylltu lagaskilyrði
til verslunar að fá þar útmælda lóð/land til starfsemi sinnar. Auk þess taldist í
þessum rétti felast réttur til eignar- og/eða leigunáms en á þetta ákvæði reyndi
í sambandi við framkvæmd laganna á Blönduósi (Guðrún Jónsdóttir, 1996, bls. 9).
Presturinn á Hjaltabakka, sem átti land að Blöndu að sunnan, lagðist gegn
áformum um verslun á staðnum og var leitað úrlausnar landshöfðingja í
málinu. Með landshöfðingjabréfi nr. 95/1876 mælti hann svo fyrir að prestur
skyldi láta af hendi land undir verslun samkvæmt mælingu sem farið hafði
fram fyrr á því ári. Þessar fyrstu formlega afmörkuðu lóðir á syðri, eða innri,
árbakkanum teljast upphaf þéttbýlismyndunar á Blönduósi.
FYRSTU LÓÐIRNAR UTAN (NORÐAN) BLÖNDU
Fyrsta útmæling verslunarlóða utan (norðan) ár, í landi Ennis, fór fram 1896
og voru þá mældar út tvær lóðir. Aðeins var byggt á annarri lóðinni árið 1898
og eignaðist Kaupfélag Húnvetninga það hús árið eftir (Guðrún Jónsdóttir, 1996,
bls. 17). Lítilsháttar uppbygging norðan árinnar hófst því um 20 árum eftir að
verslunarrekstur með vísi að þéttbýlismyndun hófst sunnan hennar.
Þessi þróun hefur vafalítið tengst undirbúningi að byggingu Blöndubrúar,
sem ákveðin var með lögum nr. 21/1895 (Guðrún Jónsdóttir, 1996, bls. 20).
Brúargerðinni lauk með vígslu brúarinnar þann 25. ágúst 1897, að viðstöddum